Fulham – Everton 1-3

Mynd: Everton FC.

Everton vann Fulham í dag á útivelli 1-3 með mörkum frá Mirallas og Naismith eftir að markvörður Fulham hafði skorað sjálfsmark. Markatalan endurspeglaði alls ekki gang leiksins því Fulham átti miklu miklu meira skilið úr leiknum og Howard að þakka að þrjú stig fengust úr þessum leik.

Óbreytt uppstillingin frá Newcastle leiknum: Howard, Baines, Distin, Stones, Coleman, Osman, Barry, McCarthy, Deulofeu, Barkley, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Alcaraz, McGeady, Mirallas, Naismith, Garbutt, Browning.

Fyrri hálfleikur var arfaslakur af hálfu Everton og Fulham gekk allt of vel að koma sér í færi. Það sem bjargaði Everton var að Howard átti stórleik og Fulham geta varla klárað færin sín en fullt af boltum endaði hátt upp í stúku. Það vantaði þó allt flæði í leikinn af hálfu Everton, sóknin virkaði þunglamaleg og gekk illa að ná tökum á leiknum.

Deulofeu átti reyndar fyrsta „færið“ þegar hann skaut á mark beint úr horni sem hann tók, á nærstöng strax á fyrstu mínútum en Fulham björguðu í horn.

Fulham menn svöruðu með skoti frá Holtby sem endaði langt framhjá. Þeir áttu svo flotta fyrirgjöf fyrir mark Everton á 7. mínútu en Dembele ekki vakandi fyrir tækifærinu. Á 13. mínútu áttu Fulham að fá víti þegar Distin nær ekki að skalla boltann frá almennileg og endar á að eiginlega grípa boltann inni í teig en enginn virtist hafa séð það, hvorki dómari, leikmenn Fulham né áhorfendur, því allir létu þetta óátalið. Hefðum ekki getað kvartað yfir því að lenda undir þar.

Fulham komust í dauðafæri á 22. mínútu en Howard bjargaði okkur meistaralega þegar sóknarmaður komst einn á móti markverði vinstra megin — varði með vinstri fæti. Everton svaraði með skyndisókn þar sem Deulofeu náði skoti á mark innan teigs hægra megin en skotið blokkerað og sending hans svo fyrir mark hreinsuð úr teig áður en Barkley/Osman komust í boltann (hefði verið dauðafæri beint fyrir framan markið). Fulham svaraði með skyndisókn — boltinn að berast markanna á milli.

Fulham menn náðu flottum skalla á mark á 26. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri en Howard tók á honum stóra sínum og ýtti boltanum yfir slána. Sáttur við að staðan væri ekki 2-0 þar.

Barkley náði skoti á mark rétt utan teigs en beint á markvörð. Of auðvelt. Gott ef þetta og skot Deulofeu voru ekki einu tvö skotin sem Everton náði á markið í öllum fyrri hálfleik. Maður var guðslifandi feginn að fara með stöðuna 0-0 í hálfleik, ekki síst vegna þess að Fulham menn fengu annað dauðafæri rétt undir lokin en skallinn slakur, beint á Howard.

Naismith inn fyrir Barkley í hálfleik en Barkley virtist verða fyrir smá hnjaski í leiknum þó hann hefði náð að klára fyrri hálfleikinn. Naismith, aftur á móti, kom með ferskan vind inn í liðið og lét strax til sín taka. Átti stórhættulega fyrirgjöf sem enginn var til að klára upp við markið. En hann var ekki hættur, eins og átti eftir að koma í ljós.

Á 47. mínútu barst boltinn til Naismith út við jaðar vítateigs (eftir að horn hafði verið hreinsað frá, að mig minnir) og Naismith þrumaði boltanum í átt að marki, Barry breytti stefnunni svo að boltinn var þar með á leið aftur fyrir endalínu (og í útspark) en vill svo til að boltinn rekst í fæturna á markverði Fulham sem er að hlaupa aftur í markið — sjálfsmark! 0-1 fyrir Everton, sem höfðu ekki gert sig líklegir til að skora fram að því. Lítið við þessu að gera fyrir markvörð Fulham og varla hægt að ætlast til annars en að menn skori úr svona algjöru dauðafæri!! 😉

Á 59. mínútu átti Naismith frábæra stungusendingu á Baines sem lyfti boltanum framhjá markverði sem kom á móti en boltinn skoppaði rétt við stöngina (vitlausu megin). Óheppnir að skora ekki og Lukaku ekki langt frá því að ná til knattarins.

Lukaku átti einnig skot af point blank range fyrir framan markið þegar hann komst framhjá þremur til fjórum varnarmönnum Fulham en missti svo boltann sem barst til hans óvænt aftur. Skotið hans hins vegar glæsilega varið hjá markverði Fulham sem hélt þeim inni í leiknum áfram.

Deulofeu út af fyrir Mirallas á 67. mínútu en það var hins vegar varamaður Fulham sem náði að jafna aðeins tveimur mínútum síðar. Þar var að verki Dejagah sem tók þrumufleyginn á þetta með skoti af nokkuð löngu færi á 70. mínútu. 1-1 staðan og maður orðinn ansi smeykur um að Everton myndi missa stig í þessum leik, bara spurning hversu mörg.

Heitinga, okkar fyrrverandi — sem spilaði með Zorro grímu í leiknum — var næstum búinn að koma Fulham yfir eftir horn á 75. mínútu þegar hann kom á siglingunni á fjærstöng, algerlega óvaldaður, en Howard varði vel. Sömu sögu var að segja um skot sem hann fékk á sig strax í kjölfarið.

Osman út af fyrir McGeady á 76. mínútu og sá síðarnefndi, líkt og Naismith, lét strax til sín taka eftir að hafa komið inn á því (eftir að McCarthy hafði átt skot að marki úr fínu færi sem fór framhjá) átti McGeady frábæra stungusendingu á Mirallas og kom honum í dauðafæri sem Mirallas afgreiddi í netinu. 1-2 fyrir Everton.

Skv. útsendingu höfðu Fulham menn átt 19 tilraunir á markið en bara 7 sem hittu á rammann á móti 5 sem hittu á rammann hjá Everton í 9 tilraunum.

Markvörður Fulham varði frá Naismith á 83. mínútu eftir að Lukaku hafði sett hann í dauðafæri vinstra megin einn á móti markverði. Glæsilega varið hjá markverðinum, líkt og Howard í fyrri hálfleik úr ekki ósvipuðu færi. Það kom þó ekki að sök því að á 86. mínútu var Everton komið tveimur mörkum yfir. Mirallas reyndi að brjótast í gegnum vörnina vinstra megin en var felldur (líklega ekki víti, en ekki viss). Boltinn barst hins vegar til Baines sem sendi á Naismith í dauðafæri fyrir framan markið. Móttakan ekki alveg nógu góð (missti hann svolítið frá sér) en nægileg til að ná skoti framhjá markverði. 1-3 fyrir Everton og ótrúlegur léttir að vera að landa þremur stigum eftir svona slakan leik — eða fyrri hálfleik sérstaklega.

Naismith var óheppinn að skora ekki örfáum mínútum síðar þegar hann fékk að hlaupa óáreittur með boltann í átt að vörninni og tók skot af löngu sem endaði í stöng og út. Baines fékk óvænt frákastið en var ekki nógu fljótur að hugsa og sóknin rann út í sandinn.

Önnur færi liðanna voru óveruleg og maður andaði léttar þegar stigin þrjú voru í höfn.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Distin 6, Stones 6, Coleman 6, Deulofeu 7, Barry 6, McCarthy 6, Osman 6, Barkley 6, Lukaku 6. Varamenn: Naismith 8, Mirallas 6, McGeady 6. Byrjunarlið Fulham var með svipaðar einkunnir: 6 á línuna, nema lánsmaðurinn Holtby, sem fékk 7.

Ævintýrið heldur því áfram með fimmta sigrinum í deild í röð. Arsenal næst á Fortress Goodison og ef við vinnum þann leik erum við stigi á eftir þeim með leik til góða (Crystal Palace heima). Það getur því allt gerst í baráttunni um fjórða sætið. Frábært að fá Mirallas ferskan inn í lokasprettinn.

17 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    14-2 fyrir okkar menn, er að fara til Dalvíkur að syngja á tónleikum, megið senda mér sms í 6982146 ef þið nennið. KOMA SVO!!!!!!!!!

  2. Gunnþór skrifar:

    Óttast það versta vona það besta.

  3. Gunnþór skrifar:

    er ekki gott að fara að mæta til leiks.

  4. Holmar skrifar:

    Frekar slappt hjá okkar mönnum í fyrri hálfleik. Deulofeu að reyna aðeins of mikið á köflum. Fulham getur varla haldið þessari pressu heilan leik, þegar þeir þreytast koma mörk frá okkar mönnum.

  5. Gunnþór skrifar:

    Flottur seinni hálfleikur hjá okkar mönnum, varamennirnir komu sterkir inn hjá okkur.

  6. Finnur skrifar:

    Ekki bara hjá okkur — öll mörkin nema sjálfsmarkið voru frá varamönnum sem voru tiltölulega nýkomnir inn á.

    Leikskýrslan annars komin.

  7. Finnur skrifar:

    Af mbl: „Það voru síðan varamennirnir Kevin Mirallas og Kevin Mirallas sem tryggðu Everton sigurinn“. http://www.mbl.is/sport/enski/2014/03/30/fimmti_sigur_everton_i_rod/

  8. Ari G skrifar:

    Fyrri hálfleikur var lélegur en seinni frábær. Naismith frábær í þessum leik. Spilamennska Everton er að lagast aftur eftir frekar rólegan janúar og febrúar sem voru ekki nógu góðir. Núna á Everton smá von um 4. sætið, vil ekki vera of bjartsýnn en þá verða þeir að vinna Arsenal næstu helgi. Núna loksins eru allir bestu leikmennirnir heilir og Marinez getur þá líka dreift álaginu á fleiri leikmenn.

  9. Elvar Örn skrifar:

    Hvað getur maður sagt?
    Naismith stal Showinu, punktur.

    Slakur fyrri hálfleikur en Fulham var að berjast fyrir lífi sínu í þessum leik og var það greinilegt á spilamennsku þeirra.
    Fannst sigurinn þó sanngjarn, á skjön við suma kannski, en bæði lið fengu fleiri marktækifæri sem fóru forgörðum.
    Howard varði mjög vel nokkrum sinnum en svo var einnig hinumegin þar sem stöngin bjargaði (ef svo má segja) frábært skot Naismith og Lukaku átti skot af stuttu færi sem markvörður Fulham varði frábærlega með tá/rist já og varði einnig er Naismith var einn gegn honum.

    Fimm sigrar í röð hjá Everton og menn geta nú bara ekki kvartað undan því. Everton ætti að vera öruggt með Evrópusætið og meistaradeildarsætið er ekki lengur fjarlægur draumur.
    Everton mætir Arsenal í næsta leik og síðan Crystal Palace að mig minnir þar á eftir. Ef Everton vinnur Arsenal þá dugar jafntefli gegn Palace til að vera komnir fyrir ofan Arsenal (á markatölu reyndar). Ef Everton gerir jafntefli við Arsenal og vinnur Palace þá er Everton bara 1 stigi á eftir Arsenal.

    Everton á reyndar eftir þrjá erfiða heimaleiki þar sem Arsenal, M.City og, M. United koma í heimsókn en Goodison mun standa þetta af sér og ef ég man rétt þá hefur bara 1 leikur tapast þar í um eitt og hálft ár.

    Margir hér á spjallinu voru feikilega ánægðir með Deulofeu í seinasta leik (gegn Newcastle) en satt að segja varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum þar sem hann missti boltann svakalega oft og alltaf reynir hann að fara hægra megin við varnarmann (Coleman kann meira að segja að fara báðu megin við varnarmann í sömu stöðu). Hann átti þó tvö til þrjú góð moment sem voru mikilvæg í þeim leik. Í dag var hann arfaslakur fannst mér en náði þó c.a. 2 fínum fyrirgjöfum þar sem aðrir leikmenn Everton voru ekki í takt við hann en er agalega óagaður finnst mér. Endilega samt að leyfa honum að spila þar sem hann þarf að læra aðeins á Enska boltann held ég.

    Naismith, Mirallas og McGeady komu sjóðandi heitir af bekknum verð ég að segja og fannst mér t.d. Osman ekki vera að standa sig og hefði mátt fara fyrr útaf.
    Spurning hvort Naismith eigi ekki að fá fleiri sénsa með framherja eins og Lukaku í stað þess að fá alltaf sénsinn einn frammi þegar t.d. Lukaku er meiddur.
    Howard var magnaður líka og hélt okkur inni í leiknum í fyrri hálfleik og átti einnig góðar vörslur í þeim síðari.

    Djöfulli langar manni með ykkur á Manchester City leikin, andskotinn hafi það.

    • Finnur skrifar:

      Það er útileikur gegn Sunderland áður en Everton mætir Crystal Palace.

  10. Gunnþór skrifar:

    Elvar, er Naismith ekki svona ekta super sub? Hann er flottur þegar hann kemur óþreyttur inn á en hann á ennþá eftir að sannfæra mig sem byrjunarliðsmaður en kannski kemur að því maður veit aldrei.

  11. Halli skrifar:

    Mér fannst Fulham vera óheppnir að vera ekki 2-3 mörkum yfir í hálfleik en það eðli góðra liða að vinna leiki sem þau spila ekki of vel í. Mín skoðun er að Howard hafi verið maður leiksins en að Naismith sé matchwinner, ég skil ekki. Að Stones fái fá bara 6 í einkunn… mér fannst hann frábær í leiknum og allar skiptingar að heppnast fullkomlega. Frábært run á liðinu. Góðar stundir.

  12. Elvar Örn skrifar:

    Sammála með Stones, hann átti magnaðan leik. Það er mjög langt síðan maður hefur séð miðvörð hjá Everton sem er jafn flinkur með boltann. Hann er einnig mjög góður að bruna með boltann framyfir miðju með einstaklingsframtaki eða þríhyrningsspili. Hann á bjarta framtíð fyrir sér þessi kappi.

    Vona að Everton nái að gera tilkall til meistaradeildasætis í næstu leikjum og það verður mjög fróðlegt að sjá hvaða leikmenn Martinez mun fá í staðinn fyrir Lukaku og Deulofeu. Everton vantar líklega einnig framherja (í stað Traore ef svo má segja) en spurning hvort að Kone muni duga. Geri ráð fyrir að Everton geri um 2ja ára samning við Barry, sé ekki neitt annað í spilunum þar en Gibbson mun einnig koma sterkur inn í sömu stöðu.

    Arsenal næst og það væri brilliant að ná sigri á Goodison en mér finnst sem Everton hafi alltaf átt erfitt með Arsenal en annað var uppi á teningnum á Emirates þegar þau mættust seinast þar sem Everton hreinlega yfirspilaði Gunners á þeirra heimavelli, hann endaði 1-1 er það ekki, þar sem Deulofeu jafnaði metin. Ég held að leikmenn eins og Deulofeu, McGeady og Mirallas henti mjög vel gegn Arsenal.

  13. Finnur skrifar:

    Deulofeu á líklega annað tímabil inni með Everton — á ekki erfitt með að sjá það. Og það er ekkert útséð með Lukaku þó alltaf sé líklegt að hann verði kallaður til móðurskipsins í lok tímabils.

    En… samt, maður veit aldrei, því Chelsea virðast hafa misst vitið þegar kemur að framherjum, kaupa drullulélegan Torres af Liverpool á 50M (!!) og selja þeim Sturridge til baka á rétt rúmar 10M. WTF?

  14. Georg skrifar:

    Flottur vinnusigur gegn Fulham. Fyrri hálfleikur var ekkert sérstakur en seinni hálfleikur var mun líflegri og átti Naismith hörku innkomu og hefur sýnt það meira og meira á þessari leiktíð að hann getur komið inn í leiki og skipt máli. Mirallas og McGeady komu einnig flottir inn. Þetta var kannski ekki okkar besti leikur en það segir ýmislegt að skora 3 mörk og hefðum getað sett 1-2 í viðbót og ekki á okkar besta degi. Stones búinn að vera frábær í fjarveru Jagielka, gríðarlega öflugur á boltanum og kemur alltaf boltanum vel frá sér og er ekki mikið fyrir að negla boltanum upp, framtíðar miðvörður Englands.

    Við erum búnir að vinna 5 leiki í röð í deildinni sem hefur ekki gerst síðan 2002. Við erum einungis 3 stigum frá sama sigafjölda og í fyrra (63. stig) og 5 stigum frá okkar mesta stigafjölda frá stofnun úrvalsdeildarainnar (65 stig).

    Fyrir mér er næsti leikur klárlega sá þýðingarmesti fyrir okkur í deildinni í mörg mörg ár. Ef við vinnum þann leik þá erum við ennþá inni í baráttunni um 4. sætið, hinsvegar ef við töpum þá er þetta mikil brekka þar sem Arsenal á mun þægilegra program en við, jafnteflið heldur þessu ennþá opnu en minkar þó líkurnar. Það væri ekki verra að vera 1. stigi frá Arsenal og eiga leik inni. Við eigum nokkra erfiða leiki eftir, sérstaklega heimaleikina gegn Man Utd og City, hinsvegar höfum við verið gríðarlega öflugir á heimavelli síðustu ár og haft t.d. mjög gott tak á City. Við erum búnir að vinna 7 heimaleiki í röð í deildinni sem dæmi. Southampton á útvelli verður líka erfiður. En ég hef fulla trú á okkar liði.

  15. Orri skrifar:

    Eins og staðan er hjá okkur í dag þá er baráttan um 4 sætið í okkar höndum. Mér finnst liðið vera á mjög góðri siglingu um þessar mundir, en við megum ekkert misstíga okkur í þessari baráttu. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af þessum leikjum sem við eigum eftir, við verðum bara vera jákvæðir og bjartsýnir í baráttuni sem framundan er.

  16. Hallur skrifar:

    Djöfull er mig farið að hlakka til leiksins gegn Arsenal