Sýnum stuðninginn í verki

Mynd: Everton FC.

Það verður að segjast eins og er að það er taugatrekkjandi að skipta um stjóra. Því fylgir oft rask, bæði á samsetningu leikmannahóps sem og út af nýju leikskipulagi sem leikmenn þurfa að venjast. En þessi flotti leikmannahópur okkar hefur ekki látið það á sig fá, eru eina taplausa liðið í deildinni og eru ekki nema einum sigurleik frá efsta sæti þegar fimm umferðum er lokið. Ég held að við hefðum öll þegið það fyrir tímabilið þegar ljóst var að von væri á nokkrum truflunum frá „áður auglýstri dagskrá“.

Og það sem meira er — Everton hefur verið með töluverða yfirburði í leikjunum sem enduðu með jafntefli og manni fannst það eina sem vantaði væri „slúttari“ til að klára öll þessi færi sem liðið hefur verið að skapa. Og nú er ekki annað að sjá en að sá maður sé mættur á svæðið (Lukaku).

Stjórn Everton á Íslandi lætur að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og er þessa dagana að skipuleggja ýmsa atburði fyrir félagsmenn en ber þar helst að nefna ferð á Goodison Park í nóvember sem og árshátíð félagsins (23. nóvember). Einnig ætlar stjórnin að standa fyrir einhverju skemmtilegu kvöldi þar sem félagsmönnum gefst kostur á að hittast í miðri viku og skemmta sér en þetta verður nánar auglýst síðar. Þess ber einnig að geta að mjög vel hefur gengið að stækka félagið en við tökum öllum nýskráningum fagnandi (hafið endilega samband ef þið eruð ekki á skrá — eða eruð ekki viss um að þið séuð á skrá). Árgjaldið er 3000,- kr. og hefur stjórnin, ykkur til hægðarauka, sett inn valkröfu í heimabanka allra félagsmanna (rétt rúmar 3000 kr. — þar sem bankinn tekur smá þóknun). Einnig er hægt að millifæra beint inn á reikning félagsins (reikningsnúmer: 331-26-124, kennitala: 5110120660, upphæð: 3000,- kr).

Athugið einnig: Ef þið viljið greiða fyrir aðra aðila en ykkur sjálf, setjið þá kennitölu viðkomandi í skýringarreitinn og sendið tölvupóst um færsluna á everton.a.islandi (hjá) gmail punktur com. Með því að borga árgjaldið…

– Ert þú fullgildur meðlimur í Everton klúbbnum og hefur kosningarétt á aðalfundi.
– Hjálpar þú til við að mæta kostnaði við vefsíðuna og allan almennan rekstur á félaginu.
– Sýnir þú stuðning þinn í verki við stjórnina sem sinnir þessu algjörlega í sjálfboðavinnu, til dæmis með reglulegum greinaskrifum á everton.is.
– Máttu eiga von á greiðslugjöf inn um lúguna hjá þér. Á síðasta tímabili fengu þeir félagsmenn sem greiddu árgjaldið veglega greiðslugjöf: stóran Everton fána, Everton penna og heillaóskakort með mynd af Goodison Park, sem við hvöttum félagsmenn til að finna sem frumlegustu not fyrir, til dæmis sem afmælis- eða jóla-kort til vina sinna sem halda með „vitlausu“ liði í ensku. 🙂

… en kannski það mikilvægast af öllu er að með því að sýna stuðning þinn í verki leggur þú þitt lóð á vogarskálarnar við að halda uppi öflugu félagsstarfi Evertonklúbbsins á Íslandi. Við þurfum á þér að halda. Sýndu stuðning þinn í verki! Áfram Everton!

1 athugasemd

  1. Finnur skrifar:

    Minni jafnframt á að félagsmenn sem ekki hafa náð 18 ára aldri þurfa ekki að greiða félagsgjöld í ár (þó ég hafi kosið að borga fyrir mín) en eru samt á lista yfir þá sem við höfum sent greiðslugjafir á. Ég veit að greiðslugjafirnar hafa vakið mikla lukku meðal yngri kynslóðarinnar þannig að ég hvet ykkur eindregið til að skrá þau.