David Moyes stjóri mánaðarins – Fellaini meiddur?

Mynd: Everton FC.

David Moyes var valinn stjóri september mánaðar í Úrvalsdeildinni og er vel að því kominn. Byrjunin á mánuðinum lofaði þó ekki góðu því hann hófst með tapi gegn West Brom á útivelli 2-0. Í næsta leik yfirspilaði Everton Newcastle liðið á Goodison Park og skoraði 4 mörk (gegn tveimur frá Newcastle) en dómarinn sá til þess að leikurinn endaði með jafntefli eins og er margbúið að ræða. Moyes stýrði svo Everton til sigurs gegn Swansea á útivelli 0-3 og endaði svo mánuðinn með 3-1 sigri á Southampton á heimavelli. Það er alltaf gaman að sjá Moyes taka við þessum verðlaunum en hann hefur unnið þau níu sinnum með Everton og aðeins Alex Ferguson og Arsene Wenger unnið þau oftar. Reyndar hafa aðeins 2 aðrir núverandi stjórar Úrvalsdeildarliða komist nálægt Moyes (Martin O’Neill hefur unnið þennan titil átta sinnum og Sam Allardyce fjórum sinnum).

Fjölmargir Everton leikmenn eru með landsliðum sínum þessa dagana. Coleman er einn af þeim en hann vonast eftir að fá tækifæri með Írum þar sem hægri bakvörður Íra meiddist á dögunum og Coleman á því ágætan möguleika, enda er hann uppalinn sem hægri bakvörður þó hann leiki oftast á hægri kanti með Írum (eins og hann gerði upphaflega svo vel með Everton). Coleman er þó hógvær að vanda.

Þær slæmu fréttir bárust einnig að Fellaini, sem átti að vera með landsliði Belga, hafi farið í skoðun eftir leikinn gegn Wigan og í ljós komið að hann er með rifinn vöðva við hnéð (sjá belgíska frétt). Hann hefur því dregið sig úr belgíska hópnum sem mætir Serbíu og missir af næstu þremur vikunum með Everton. Þetta eru skelfilegar fréttir því hann er búinn að vera hrikalega öflugur í svo mörgum leikjum hingað til. Þetta hefur þó ekki verið staðfest af klúbbnum, en ef rétt reynist þýðir þetta líklega það að Naismith fái að spreyta sig í holunni — eða Mirallas, en mér finnst þó líklegra að Mirallas haldi sig við hægri kantinn í bili. Það er kannski ágætt að það er landsleikjahlé núna svo Fellaini fái aukaviku til að jafna sig en ef hann verður frá í 3 vikur er þar með spurning hvort hann nái Liverpool leiknum.

Að lokum má nefna að Heitinga var tilnefndur sem besti leikmaður í norðvesturhluta úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og Vellios fékk einnig tilnefningu sem rísandi stjarna. Kosningin fer fram á netinu.

4 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Það staðfestist hér með. 🙁
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/10/10/fellaini-out-of-qualifiers
    Fellaini meiddist, að mér sýnist, á æfingu með landsliðinu.

  2. Dyncla skrifar:

    Vonandi verður hann klár fyrir Q.P.R leikinn, og eins gott að hann verður tilbúinn á móti R.S (Red Shite) 28.okt.

  3. Finnur skrifar:

    Á erfitt máð að trúa því og er ég þó með bjartsýnni mönnum. Grunar að Fulham/Sunderland sé raunhæfara — en, það er í lagi að vona. Nú verðum við að fá lukkutröllið Gibson fljótt aftur.

  4. Finnur skrifar:

    NSNO hafði það áðan eftir Everton síðunni að þeir hefðu gefið út að meiðslin væru ekki jafn alvarleg og talið hefði verið í fyrstu.
    http://www.nsno.co.uk/everton-news/2012/10/fellaini-knee-injury-not-too-serious/
    Kannski verður hann því ekki eins lengi frá og ég óttaðist…