Saha farinn

Metnaður Tottenham er greinilega að verða varalið Everton en þeir voru að fá Louis Saha til liðs við sig frá okkur (glöggir lesendur muna eflaust að þeir buðu líka í Phil Neville fyrir nokkru). Flestir voru búnir að afskrifa Saha þar sem hann er kominn vel yfir þrítugsaldurinn og hefur aðeins skorað eitt mark á tímabilinu (og byrjaði og endaði síðasta tímabil með meiðslum) — en tókst þó að næla sér í 10 mörk á því tímabili (4 mörk í einum leik gegn Blackpool hjálpaði reyndar heilmikið). Kaupin á Jevlic voru líklega naglinn í líkkistuna en Moyes hafði gefið honum viðvörun að hann þyrfti að standa sig almennilega þar sem hann væri á síðasta ári samnings síns og þyrfti að sýna af hverju hann teldi sig eiga rétt á framlengdum samningi. Það virtist þó ekki duga til.

Það verður þó að viðurkenna að hann er afskaplega hæfileikaríkur sóknarmaður (þegar hann er heill) og ég vona innilega að Harry Redknapp komi honum á beinu brautina. Við þökkum Saha fyrir vel unnin störf og allar góðar minningar, sérstaklega skjótasta markið sem skorað hefur verið í úrslitum FA bikarsins (25 sekúndur gegn Chelsea 2009). Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni.

Comments are closed.