Everton – Stoke 0-1

Everton tók á móti Stoke um helgina. Fyrir leikinn var smá athöfn til heiðurs Gary Speed þegar Roger, faðir Gary Speed, og fyrrum leikmenn mættu á völlinn og klappað var í 1 mínútu til heiðurs Gary, sem lést á dögunum eins og kunnugt er.

Everton var að leita að þriðja sigrinum í röð og stillti upp sama liði og byrjaði á móti Bolton fyrir utan Saha sem var hvíldur vegna lítilsvægrar tognunar á læri. Vellios kom inn á fyrir hann en annars var engin önnur breyting gerð á liðinu. Distin, Neville og Rodwell voru á bekknum að koma aftur úr meiðslum en Drenthe því miður hvergi sjáanlegur.

Leikurinn fór rólega af stað og var ekki mikið fyrir augað. Við höfðum yfirhöndina, vorum meira með boltann og áttum fyrsta almennilega færið þegar Coleman sendi boltann fyrir af hægri kanti en Bily (á fjærstöng) náði ekki að stýra skotinu í átt að marki, líklega vegna þess að boltinn breytti um stefnu af varnarmanni Stoke rétt áður en hann barst til Bily. Við áttum einhverjar fyrirgjafir en vantaði oft herslumuninn að úr yrði almennilegt færi, sem er þó sýnu meira en var að gerast á hinum endanum í sóknunum hjá Stoke.

Stoke fékk þó hornspyrnu á 15. mínútu sem Bily skallaði út úr teig en boltinn barst til Whitehead sem átti skot að marki fyrir utan teig sem Howard hefði varið ef varnarmaðurinn Huth hefði ekki náð að breyta stefnunni rétt við markið. Fyrsta færi Stoke í leiknum. Staðan 0-1.

Í seinni hálfleik kom Rodwell inn á fyrir Bily, Straqualursi fyrir Vellios og Gueye fyrir Hibbert þar sem Moyes reyndi að auka sóknarþungann. Þetta gaf okkur fleiri fyrirgjafir og fleiri hornspyrnur, en Stoke varðist af krafti og þrátt fyrir nokkur færi og hálffæri náðum við ekki að setja mark. Stoke fékk að mig minnir eitt annað gott færi í leiknum, og þar með voru þau færi þeirra líklega upptalin.

Það skall oft hurð nærri hælum hjá Stoke. Í eitt skiptið voru varnarmenn Stoke næstum búnir að gera afdrifarík mistök þegar þeir létu boltann skoppa áfram til Sörensen markvarðar og Cahill rýkur til og nær boltanum en lendir í samstuði við Sörensen við jaðar teigs sem leiddi til þess að Sörensen fékk högg á höfuðið og var síðar skipt út af með heilahristing. Boltinn úr leik, ekkert dæmt.

Okkar stærsta ógn eru alltaf fyrirgjafir fyrir markið, yfirleitt af vinstri kantinum en Stoke liðið er einstaklega vel í stakk búið að mæta slíku, þeir eru með hávaxna leikmenn, góða skallamenn, eru fjölmennir í vörninni og verjast yfirleitt vel. Okkur vantaði sárlega smá "creativity" í þessum leik enda erum við með einna fæst mörk í deildinni eftir spil gegnum vörn andstæðinganna, sem er nokkuð sem Stoke liðið á erfiðara með að verjast.

Match of the day þátturinn í breska sjónvarpinu fór yfir leikinn og benti í greiningu sinni á að leikmaður Stoke hefði gerst brotlegur við Howard (hindrað hann) í aðdraganda að markinu sem Stoke skoraði. Einnig bentu þeir á að Fellaini hefði síðar í leiknum átt að fá ekki bara eitt heldur tvö víti þegar varnarmenn Stoke bókstaflega héngu í honum til að koma í veg fyrir að hann gæti náð almennilegum skalla (sjá má á mynd hér að ofan hvernig þeir gripu stöðugt í hann og stundum héldu honum niðri) og að samstuð Cahill við Sörensen hefði líka verið víti. Sumir vildu meina að Vellios hafi verið haldið niðri líka. Það var því ekki furða að sumir bloggarar sögðu að Stoke rúgbí-liðið hefði mætt til leiks þennan daginn né að Moyes hefði bent á að dómari leiksins hefði ekki verið upp á sitt besta.

Sorglegt tapa þessum leik á svona "sucker punch", en svona er þetta. Það hefði verið gaman að sjá hvað hefði gerst ef við hefðum fengið eitthvað af þessum vítum en annars áttum við einfaldlega bara að nýta færin okkar betur, eins og svo oft áður.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Heitinga 6, Jagielka 6, Hibbert 6, Bily 6, Osman 6, Fellaini 6, Coleman 6, Cahill 6, Vellios 5. Varamenn: Rodwell 6, Straqualursi 5, Gueye 5. 

Í öðrum fréttum er það helst að dregið var í FA bikarnum og fengum við heimaleik gegn utandeildarliðinu Tamworth. Spilað verður helgina 7. og 8. janúar.

PS. Þessi færsla kemur seint þar sem ég flaug milli heimsálfa strax að leik loknum. 

Comments are closed.