Mynd: Everton FC.
Þá er komið að umfjölluninni um testimonal leiknum fyrir Duncan Ferguson en flautað var til leiks kl. 14:00 að íslenskum tíma. Þetta var jafnframt síðasti leikurinn fyrir tímabilið í ensku deildinni sem hefst um næstu helgi.
Fyrirfram átti maður kannski von á því að Leeds leikurinn í gær yrði síðasti undirbúningsleikur flestra í aðalliðinu og að í þessum leik myndi spila eitthvert úrval leikmanna sem Duncan Ferguson myndi velja, en það kom í ljós í Leeds leiknum í gær að Martinez spilaði ungliðunum (og þeim sem koma líklega ekki til með að byrja á móti Watford) og líklegt að byrjunarliðið gegn Watford byrji leikinn í dag, að framlínunni undanskilinni — því Lukaku var hvíldur (og Duncan Ferguson og Wayne Rooney voru paraðir saman — hluta leiks).
Byrjunarliðið: Howard, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, McCarthy, Barry, Mirallas, Osman, Cleverley, Kone. Varamannabekkurinn: Robles, Oviedo, Naismith, Barkley, Browning, McAleny, Ledson, Galloway, Grant, Walsh, Rooney, Ferguson.
Leikmenn Everton virkuðu einbeittir og í góðu formi og leikurinn byrjaði nokkuð líflega. Villareal áttu fyrsta skotið á mark á 3. mínútu — fast skot en framhjá. Everton þó með yfirhöndina en færin létu á sér standa þrátt fyrir flott spil á löngum köflum. Baines var reyndar næstum búinn að setja Kone inn fyrir vörn Villareal í dauðafæri með langri og algjörlega frábærri stungusendingu en varnarmaður Villareal náði að kasta sér niður og sparka boltanum í burtu.
Everton kyrfilega við stjórnvölinn fyrsta hálftímann og settu góða pressu á Villareal. Coleman átti skot innan teigs framhjá marki á 27. mínútu og maður hafði á tilfinningunni að mark Everton lægi í loftinu. En stuttu síðar fengum við blauta tusku í andlitið.
Villareal, sem höfðu ekki valdið Howard neinum vandræðum fram að því, fengu horn, eitt skalla-flick-on frá tíunni þeirra setti boltann fyrir Gerard Moreno sem kom á hlaupinu óvaldaður og skoraði auðveldlega. 0-1 Villareal, þvert gegn gangi leiksins. Greinilega meira sjálfstraust hjá Villareal við markið og þeir efldust nokkuð.
Mirallas fór stuttu síðar út af fyrir Naismith en sá fyrrnefndi virtist kenna sér meins á ökkla — líklega þó bara varúðarráðstöfun.
1-0 í hálfleik.
Ross Barkley kom inn á í hálfleik fyrir Kone og Naismith var þá færður fremstur og Barkley settur á hægri kant. McAleny kom svo stuttu síðar inn á fyrir McCarthy.
Maður vonaðist til að Everton næði sömu tökum á leiknum og í fyrri hálfleik en það reyndist meira jafnræði með liðunum og ekki mikið um færi til að byrja með.
Villareal bættu við öðru marki á 61. mínútu þegar sóknarmaður þeirra keyrði inn í hliðina á okkar aftasta varnarmanni, Coleman, stal af honum boltanum og setti hann auðveldlega framhjá Howard sem kom á hlaupinu. Staðan orðin 0-2 fyrir Villareal.
Osman svaraði strax með því að setja Naismith inn fyrir með flottri stungusendingu vinstra megin inn í teig og Naismith komst upp að marki. Markvörður náði þó að kasta sér í jörðina og sló boltann frá fótum hans áður en Naismith náði að skjóta.
Villareal hefðu svo getað bætt við marki þegar Gerard komst í skyndisókn einn upp að marki en Howard varði vel með fætinum í horn. Illa farið með dauðafæri og þar hefði staðan átt að vera 0-3 en Howard sá við þeim.
Naismith átti flott skot rétt utan teigs sem stefndi á samskeytin hægra megin, fór framhjá markverði en því miður rétt framhjá stönginni einnig.
Það var svo nokkuð áhyggjuefni þegar Stones fór út af á 72. mínútu fyrir Tiyas Browning, en hann hafði fengið högg á ökklann nokkru áður. Vonandi ekkert alvarlegt. Önnur skiptin kom stuttu síðar þegar Cleverly fór út af fyrir Wayne nokkurn Rooney á 75. mínútu og ekki laust við að það væri nokkuð skrýtið að sjá hann aftur í blárri treyju. Rooney átti nokkra góða spretti í leiknum og það lifnaði aðeins yfir honum með innkomu bæði Browning og Rooney. Móttökurnar sem Rooney fékk voru almennt séð mjög jákvæðar en greinilega ekki allir búnir að fyrirgefa honum skiptin yfir til United.
Leikurinn opnaðist svolítið og fleiri færi fóru að líta dagsins ljós. Osman (?) átti skalla í innanverða stöngina og út og boltinn sigldi rétt framhjá Browning sem hefði átt góðan séns á að skora. Hinum megin fengu Villareal tvö góð færi, fyrst reddaði Coleman málunum vel þegar Villareal komust í skyndisókn og stuttu síðar kom Howard í veg fyrir mark þegar hann kastaði sér niður og varði í horn bolta sem stefndi í hliðarnetið fjær vinstra megin.
Rooney átti svo skot af löngu færi, sem stefndi á samskeytin uppi en fór í bakið á leikmanni Villareal og í horn.
En á 83. mínútu kom momentið sem allir höfðu beðið eftir. Ferguson búinn að hita upp og kominn inn á. Allt vitlaust á pöllunum að sjálfsögðu og Duncan Ferguson söngurinn ómað um allan völlinn. Gæsahúð og allur pakkinn. Aðeins 7 mínútur rúmar til að snúa leiknum sér í vil.
Everton fengu tvö horn í röð, sem Baines tók og bæði voru miðuð á hausnn á Ferguson. Fyrra hornið endaði þó með skoti frá Osman sem var varið á línu í horn. Seinna hornið fann Ferguson en hver kom þar hlaupandi til að stela markinu af Ferguson annar en Tiyas ungi Browning sem stangaði boltann í netið Ferguson-style, rétt áður en stóri maðurinn náði sjálfur að komast í boltann. Cheeky lad, this Browning fellow. 🙂
Fleiri urðu mörkin þó ekki en úrslitin skiptu minna máli í dag en að gefa leikmönnum færi á að skerpa sig sem og aðdáendum færi á að hylla Duncan Ferguson. Það er náttúrulega langt síðan við kvöddum hann sem leikmann, með töluverðum söknuði, en hann heldur áfram að gera góða hluti með liðinu sem partur af þjálfarateyminu.
Nú er bara fyrir Martinez að fínpússa þetta á næstu örfáu dögum þangað til tímabilið byrjar — með leik á Goodison Park gegn nýliðum Watford.
Í lokin má benda á að hægt er að lesa hvað aðrir létu hafa eftir sér um Duncan Ferguson og hvað Duncan sagði um vináttu sína við Wayne Rooney. Svo má ekki gleyma bráðskemmtilegu vídeói af Duncan Ferguson í leik Everton gegn Man United, liðið sem hann elskaði að kvelja.
enn einu sinni fáum við á okkur mark eftir hornspyrnu á nærstöng. Alls ekki ásættanlegt. Við fengum nokkur mörk á okkur í fyrra og oft eftir fastan jarðarbolta á nær. Enda var einhver að tala um að Martinez teldi ekki ástæðu til að æfa varnarvinnu í hornspyrnum. Mér sýnist það nú vera orðin full ástæða til 🙁
Vonum að þetta sé allt að koma. Reynsluboltinn Osman hefði mátt vera meira vakandi þegar markið kom. Allir aðrir virtust vera að gera rétt?? Kv. ari
Mér finnst gott að fá blöndu af sigur og tapleikjum á undirbúningstímabilinu, því það er merki um að bæði verið sé að gera eitthvað rétt og spila við lið sem ná að gera vankantana á liðinu sýnilega. En nú liggur á að tryggja sér miðvörð með reynslu fyrir komandi átök — tala nú ekki um ef Stones verður eitthvað frá, því þá eru það bara Jagielka og kjúklingarnir sem við höfum eftir. Reyndar hafa ungliðarnir okkar sýnt það að þeir eru til alls líklegir, en það er strembið leikjaprógram strax frá upphafi og meiðslalistinn er orðinn ískyggilega langur:
Lukaku, Deulofeu, Gibson, McGeady, Pienaar, Besic, Hibbert — og mögulega Mirallas og Stones að auki.
Það er eins gott að Lukaku verði orðinn góður fyrir fyrsta leik, því framlínan virkar ansi bitlaus án hans. McAleny reyndar fínn en Kone hefur ekki verið að heilla mig á undirbúningstímabilinu. Ætli það kitli ekki Duncan Ferguson að fá að taka þátt? 😉
[Innskot ritstjóra: Þetta komment frá Georgi var svo ítarlegt og málefnalegt að það var gert að sér færslu: http://everton.is/?p=9660 :)]
Ég hef verið sérstaklega ánægður með Tyias Browning á undurbúningstímabilinu og hann olli mér ekki vonbrigðum í þessum leik. Flott mark í leiknum sem mun gefa honum sjálfstraust inn í tímabilið.