Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Stoke – Everton 0-0 (vítaspyrnukeppni: 4-5) (Asíubikar) - Everton.is

Stoke – Everton 0-0 (vítaspyrnukeppni: 4-5) (Asíubikar)

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin fyrir fyrsta leikinn í Asíubikarnum (gegn Stoke) er komin: Howard, Galloway, Jagielka, Browning, Hibbert, Barry, McCarthy, Pienaar, Barkley, Mirallas, Lukaku.

Everton mætti Stoke í dag í sínum fyrsta leik Asíubikarsins. Ég heyrði ekki betur en að þulirnar segðu að þetta hafi verið fyrsti undibúningsleikur Stoke á tímabilinu þannig að það þýðir að þetta er fyrsti leikur þeirra síðan þeir tóku Liverpool í kennslustund í fótbolta í lokaleik síðasta tímabils, í leik sem endaði 6-1 Stoke í vil.

Everton byrjaði leikinn af miklum ákafa, settu stífa pressu á Stoke og fengu fyrsta færið. Mirallas kom af kantinum hægra megin og fór framhjá fyrst bakverði Stoke og svo öðrum miðverðinum áður en hann tók skot á markið sem var varið.

Everton réðu lögum og lofum fyrsta korterið en Stoke gekk erfiðlega að skapa sér færi til að byrja með en þegar þeir fengu færi voru þeir óheppnir að komast ekki yfir. Odemwingie fékk þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri kanti en lúðraði boltanum framhjá markinu nánast upp við það.

Jagielka átti ágæts skalla eftir aukaspyrnu en ekki langt frá markinu en Everton fengu tvö góð færi stuttu síðar, Lukaku náði boltanum af markverð innan teigs og átti bara eftir að pota boltanum í netið en var dæmdur brotlegur (líklega réttilega). Örskömmu síðar kom flott sending af hægri kanti inn í vítateig Stoke en varnarmaður náði að hreinsa áður en skotið kom.

Lukaku kom boltanum í netið rétt fyrir lok hálfleiks, Pienaar sá hann rétta upp hendina til að biðja um boltann og taka sprettinn og sendingin frá Pienaar sveik engann og setti Lukaku einan á móti markverði. Lukaku ekki í vandræðum með að fara framhjá markverðinum en áður en hann potaði í netið var hann (réttilega) dæmdur rangstæður. Mátti ekki miklu muna þar.

Besta færi hálfleiksins fékk þó Arnautovic hjá Stoke þegar hann fékk langa sendingu upp völlinn og komst einn á móti Howard en Jagielka kom á sprettinum og átti eina af sínum frægu landsliðstæklingum og eyddi þeirri hættu algjörlega. Þurfti að ná henni 100% því smá feill hefði gefið Stoke víti.

Staðan 0-0 í hálfleik.

Martinez gerði margar breytingar á liðinu í hálfleik. Uppstillingin: Howard, Galloway, Jagielka, Stones, Browning, Deulofeu, Osman, Naismith, Cleverly, McCarthy, Lukaku.

Og Everton byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafti og í þeim fyrri. Naismith og Osman tóku léttan þríhyrning í sókninni sem setti Naismith einan inn fyrir vörn Stoke en markvörður þeirra varði skotið glæsilega í horn. Everton liðið óheppið að vera ekki 1-0 yfir.

Deulofeu stal boltanum af Stoke manni stuttu síðar og brunaði í sókn á alveg svakalegum spretti. Hafði Lukaku sér til hliðar og var að komast alveg upp að marki hægra megin en varnarmaður Stoke gerði vel að loka á hann áður en hann næði að skjóta eða senda á Lukaku, sem hefði verið á auðum sjó.

Stoke svöruðu strax með flottu færi, fyrirgjöf frá hægri og snerting frá Ireland, leikmanni Stoke, í átt að marki sem endaði með smá pinball inni í teignum en boltinn stoppaði þó í fanginu á Howard en hefði hæglega getað endað í netinu.

Deulofeu og Naismith tóku flott þríhyrningaspil sem setti Deulofeu inn fyrir vörnina vinstra megin, og hann fór með boltann að marki og reyndi að setja hann í hliðarnetið hægra megin en skotið hefði getað verið betra og markvörður varði.

Kone inn á fyrir McCarthy þegar um 10 mínútur voru eftir en McCarthy hafði lent í samstuði við leikmann Stoke nokkru áður.

Naismith var ekki langt frá því að skora stuttu síðar, fékk sendingu aftur fyrir vörnina vinstra megin vallar og náði skoti en varið. Cleverly kom sér í ekki ósvipað færi stuttu síðar en varnarmenn náðu að hreinsa áður en hann kom sér í skotstöðu.

Lukaku var mjög óheppinn að skora ekki alveg í lokin. Stoke í ruglinu í vörninni og Lukaku komst inn í sendingu þeirra og komst upp að marki. Sendi markvörðin í vitlausa átt en hitti boltann ekki nógu vel sem sleikti stöngina utanverða. Hefði átt að skora þar.

0-0 lokastaðan og skera þurfti því úr um sigurvegara með vítaspyrnakeppni en í húfi var sæti í úrslitaleik mótsins.

Fyrsta spyrnan kom í hlut Stoke og tók Charlie Adam hana. Howard giskaði á rétt horn og var ekki langt frá því að verja en spyrnan lág og föst niðri í vinstra hornið. 1-0 Stoke.

Lukaku næstur. Sendi markvörð í vitlaust horn og setti boltann niðri í vinstra hornið. 1-1.

Van Ginkel næstur fyrir Stoke en Howard tók hann á taugum og varði spyrnuna frá honum. Staðan ennþá 1-1.

Cleverly næstur, sendi markvörð í vitlaust horn og setti boltann hægra megin. 1-2 fyrir Everton.

Einhver frá Stoke næstur (náði ekki nafninu), sendi Howard í vitlaust horn og skoraði hægra megin. Staðan 2-2.

John Stones næstur. Sendi markvörð í vitlaust horn og skoraði með lágu skoti hægra megin. 2-3 fyrir Everton.

Phil Bardsley næstur fyrir Stoke. Þrumaði háan bolta í miðju marks en Howard kastaði sér í annað hornið. Staðan 3-3.

Deulofeu næstur. Enn á ný fór markvörður þeirra í vitlaust horn og Deulofeu skoraði örugglega hægra megin. 3-4 Everton.

Peter Crouch næstur fyrir Stoke. Lágur bolti vinstra megin sem Howard náði ekki til. Staðan orðin 4-4.

Jagielka næstur, sendi markvörð í vitlaust horn (en ekki hvað?) og skoraði auðveldlega upp í hægra hornið. Lokastaðan 4-5, Everton í vil og Everton lagið Z Cars hljómaði um leikvanginn. Nice touch.

Everton leikur því til úrslita í Asíubikarnum á laugardaginn (kl. 12:30, sýnt á vef Everton klúbbsins kl. 16:30). Leikurinn er við Arsenal sem sigraði Úrvalslið Singapúr auðveldlega í dag, 4-0.

12 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Beinn linkur á leikinn:
    http://preseason.evertonfc.com/watch-Everton-vs-StokeCity
    (ætti að vera aðgengilegt frá kl. 14:00)

  2. Elvar Örn skrifar:

    Everton var klárlega betra liðið í þessum leik og margir leikmenn að spila vel.

    Það er allt annar bragur á liðinu samanborið við pre-season í fyrra.

    Svo er alvöru Test á laugardaginn þar sem Arsenal er sagt muni spila sterku liði og bikar er alltaf bikar þó svo að leikirnir á þessu móti séu bara tveir á hvert lið.

    Martinez virðist leggja mikla áherslu að enginn verði seldur og verð ég að segja að það er mjög sterkt ef það gengur upp eftir slakt síðasta tímabil.

  3. Diddi skrifar:

    mér fannst Browning og Gallaway mjög flottir í leiknum og Mirallas mest ógnandi, en það var sama sagan og í fyrra að nánast engin opnun átti sér stað og Stoke fengu hættulegri tækifæri þangað til að Lukaku komst tvisvar í gegn á lokamínútunum. Liðið að spila vel en vantar að „aflæsa“ þéttar varnir líkt og í fyrra. Vonandi finnur Martinez einhvern sem er góður í því annars verður þetta sama ströglið og í fyrra 🙂

  4. Elvar Örn skrifar:

    Jonny Evans er á leiðinni til Everton, hvað segja menn um Það?

  5. Finnur skrifar:

    Athyglisvert… Okkur sárvantar náttúrlega miðverði en Evans var ekki sá sem maður átti von á. Ætli Diddi þurfi ekki að skila inn félagaskírteininu núna. 😀