Ég er búinn að velta þessum úrslitum um helgina gegn Liverpool töluvert fyrir mér og reyna að átta mig á hvað fór úrskeiðis. Við mættum hálf slöku og vængbrotnu liði Liverpool sem, með svona spilamennsku, á eftir að mæta svipuðum örlögum í úrslitunum og Tottenham gerði á sunnudaginn gegn sterku liði Chelsea. Þetta Liverpool lið grátbað um að láta refsa sér, sem við og gerðum í fyrsta markinu. Kómískt að horfa á varnarmenn Liverpool forðast eins og heitan eldinn að hreinsa og enda svo á að þrykkja boltanum í Cahill.
Ég átti hálfpartin von á (eins og maður gerir alltaf þegar Suarez er inni á vellinum) að leikurinn myndi ráðast af einhverjum ógeðslegum dómaraskandal en svo var ekki. Við nutum þess að mark Jelavic var rangstæða og Liverpool slapp svo með skrekkinn þegar Skrtel traðkaði á maganum á Jelavic (en slapp við rautt). Rottan Suarez (eins og Martin Keown kallaði hann í beinni útsendingu) slapp líka eftir algjörlega glórulausa tæklingu (á Heitinga án bolta), tækling sem á meira skylt við rúgbýdeildina en fótbolta. Allt í lagi með það. Þetta jafnast út með tímanum eins og Sir Alex sagði. Reyndar, þegar ég hugsa um það þá var ekki eins mikið um grófar tæklingar eins og stundum í þessum derby leikjum — og er það vel. Finnst þær hafa verið ljóður á þessum derby leikjum sem hafa í gegnum tíðina annars verið annálaðir fyrir það að áhorfendur hafa geta setið innan um „andstæðingana“ á pöllunum.
Ég held að fyrstu stóru mistökin sem við gerðum í leiknum var að bakka of langt aftur við markið og bjóða Liverpool upp á að pressa. Við höfum náð töluverðum árangri í að pressa framarlega og berjast um hvern bolta sem leiðir til þess að við höfum alls ekki fengið mörg skot á mark okkar en við virtumst sáttir við að sitja á 1-0 forystu og sitja djúpt. Mér fannst sárvanta pressu í leiknum og baráttu um boltana. Maður sá Moyes á hliðarlínunni að reyna að hvetja menn fram völlinn en það heyrist náttúrulega ekkert í látunum fyrir áhorfendum á svona Wembley leik. Moyes er mjög hands-on stjóri, sífellt að leiðbeina mönnum og láta þá vita hvað betur má fara. Neville sömuleiðis mjög vocal kapteinn en það er erfitt þegar skilaboðin komast ekki til skila.
Við vorum betra liðið í fyrri hálfleik og bjuggumst við ágangi Liverpool manna í þeim seinni, enda höfðu þeir engu að tapa. Og ágangur þeirra leit dagsins ljós. Þó var eins og við réðum alveg við þetta og eitthvað mikið þyrfti að gerast til að við fengjum á okkur mark. Til dæmis að Andy Carroll myndi finna marknetið hjálparlaust.
Og þá líta stóru mistök númer 2 dagsins ljós. Distin á þessa arfaslöku sendingu aftur á Howard og rottan Suarez þefaði uppi markið. Distin er einn af þessum frábæru kaupum Moyes (4M frá Portsmouth, ef ég man rétt) og hefur verið traustur sem klettur í vörninni. Hann gerir ekki mörg mistök á tímabili, en því miður hitti þetta þannig á að hann gerði mistök í þessum leik. Staðan 1-1; alls ekki endirinn því maður var vel til í vítaspyrnukeppni, sérstaklega með Brad Jones í markinu.
Ég hef heyrt því fleygt að Gueye og Baines séu ekki góðir saman á vinstri kanti þar sem Gueye leitar til vinstri og lokar á hlaupin fyrir Baines (þar sem Pienaar leitar til hægri og opnar á plássið). Kannski hefði Coleman átt að byrja á hægri og Osman á vinstri en Moyes lét þá spila þar síðar í leiknum og það virtist ekki virka heldur. Mistök númer þrjú skrifa ég því á Drenthe sem er alveg ótrúlega frústrerandi leikmaður. Hæfileikarnir eru augljósir. Hann er með mjög góða tækni, frábær skot og líklega sprettharðasti leikmaðurinn í deildinni. Leikmaður sem hristir allverulega upp í leiknum og klárlega vantaði í þennan leik.
En toppstykkið er bara ekki í lagi. Hann getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi en það er ekki hægt að treysta á hann þegar á reynir. Hann er, að mínu mati, búinn að spila stóran þátt í að Everton datt út úr báðum bikarkeppnunum á tímabilinu. Fyrst á móti Chelsea í deildarbikarnum þar sem hann lét reka sig út af í stöðunni 1-1 þegar við vorum betra liðið en leikurinn snerist algjörlega við við rauða spjaldið. Og nú, ákveður hann að egóið þurfi aðeins meira pláss en það hafði fyrir og er hent út úr hópnum fyrir næst-mikilvægasta leik tímabilsins.
Coleman er ekki í nokkurri leikæfingu og átti aldrei að koma inn á í þessum leik en hvað á Moyes að gera þegar hann þarf að skipta Gueye út af og valið stendur á milli Coleman, McFadden og Anichebe á vinstri kanti? Myndir þú ekki setja Coleman á hægri og færa Osman á vinstri? Osman þar að auki leitar inn á miðjuna svo opnast pláss fyrir Baines. Kræst, af hverju þarf Drenthe að fara að reyna að sýna að hann sé stjórinn rétt fyrir bikarleik? Maður kann aldrei fyllilega að meta þegar Moyes segir að það sé áhætta að taka svona lánsmenn á borð við Drenthe. Drenthe sýndi það fyllilega hvað Moyes átti við.
Ég hef líka heyrt því fleygt að Moyes ráði ekki við creative týpur á borð við Drenthe. Að hann vilji bara varnarsinnaða leikmenn. Finnst þetta hjákátlegt tal. Gallinn er sá að Moyes hefur ekki mikið á milli handanna þegar kemur að því að kaupa creative leikmenn sem eru dýrir og því verður hann að taka sénsinn á leikmönnum sem gætu verið skemmd epli. Stundum virkar það (t.d. var Pienaar álitinn flopp og óvinsæll í búningsklefanum hjá Borussia Dortmund þegar Moyes bjargaði honum þaðan f. 2M punda). Ég vona að það sama virki á Drenthe, en sé það ekki gerast. Því miður.
En aftur að leiknum. Liverpool hélt áfram að rembast og Andy Carroll klúðraði dauðafæri, eins og venjulega. Ekkert of mikið að gerast fyrr en leikurinn var um það bil að fara í framlengingu, sem ætti að henta okkar liði sem stundar meira þrekþjálfun en flest lið til að geta barist til lokamínútu hvers leiks. Coleman, aftur á móti, gefur aukaspyrnu (stór mistök númer 4) og hefði getað látið reka sig út af í þokkabót (hér er náttúrulega Drenthe fjarveran enn að gefa af sér). Aukaspyrnan gaf svo mark þegar boltinn fer í taglið á hrossinu Andy Carroll og inn, en Andy sneri baki í markið og leit frekar út fyrir að vera að reyna að hreinsa frá marki en skora. Fellaini, aftur á móti, virðist í þessari sókn meira í mun að toga í treyjuna hans Andy en að stökkva í boltann. Veit ekki hvað hann var að hugsa. Hafði ekki hugmynd um hvar boltinn var. Stór mistök númer 5. Of lítill tími til að jafna. Gott tækifæri farið forgörðum.
Ég ælta að láta þetta verða lokaorð mín um þennan leik. Liverpool á líklega eftir að tapa fyrir Chelsea í úrslitunum, ef fram fer sem horfir og við verðum á meðan bara að reyna að einbeita okkur að því að vera fyrir ofan þá.
Comments are closed.