Mynd: Everton FC.
Þá er komið að endurteknum leik gegn Oldham í FA bikarnum, í þetta skipti á Goodison kl. 19:45 á morgun (þriðjudag). Fyrri leikurinn fór 2-2, eins og frægt er orðið, þar sem Oldham menn komust yfir en Everton náði að jafna með flottu marki Anichebe og komast svo yfir 1-2 með skalla frá Jagielka (sjá mynd). Þetta hefðu átt að vera lokatölur leiksins ef ekki hefði verið fyrir tvær hornspyrnur Oldham á lokasekúndunum, þar sem leikmenn Oldham brutu af sér í báðum hornspyrnum en náðu að skora mark í þeirri seinni. Það þýðir þó lítið að svekkja sig á því heldur er komið að því að klára dæmið á heimavelli.
Moyes sagði að vafi léki á að Anichebe næði leiknum og því kannski ekki skrýtið að Moyes tengi gengi Everton í deildinni við það að markaþurrðin hjá Jelavic taki brátt enda. Liðið er að spila vel og koma sér í nóg af færum til að gera út um leikinn (stundum oft) en vantar drápseðlið — að klára sóknirnar og sárvantar auk þess fleiri mörk frá Jelavic, sérstaklega nú þegar Anichebe er frá. Peter Reid minntist reyndar á að þegar Gary Lineker kom til Everton hefði hann átt tímabil í byrjun þar sem hann hefði ekki getað skorað þó hann hefði reynt að múta andstæðingunum en endaði svo tímabilið í súper formi. Það er náttúrulega alltaf frústrerandi að horfa upp á færi fara forgörðum, en Jelavic er þó að koma sér í ákjósanleg færi, sem er að vissu leyti jákvætt.
Moyes sagði einnig að einn til tveir leikmenn hefðu náð sér í meiðsli gegn Norwich og þyrfti að fylgjast með því fyrir leikinn annað kvöld. Væntanlega á hann við Fellaini sem fékk takkann á leikmanni Norwich í lærið svo að blæddi úr. Ég á þó síður von á að hann missi af leiknum. Hibbert er enn meiddur og þar sem Moyes mun nú leggja allt kapp á FA bikarinn þykir líklegt að uppstillingin verði hans sterkasta liðið, svipuð og í síðasta leik: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Pienaar og Mirallas á köntunum, Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Bara spurning hver heltist úr lestinni fyrir leikinn.
Oldham liðið þarf ekki að kynna aftur en þetta lið er Everton jafnan erfiður ljár í þúfu í FA bikarnum eftir að hafa slegið Everton út síðustu þrjú skiptin sem liðin hafa mæst, nú síðast fyrir 5 árum. Þeir hafa auk þess náð að snúa blaðinu við í deild og eru farnir að vinna aftur (þrír sigurleikir í röð og því taplausir í fjórum leikjum í öllum keppnum).
Ég ætla að vera bjartsýnn og spá 2-0 sigri. Everton er í þeirri stöðu að 9 mismunandi leikmenn hafa skorað mörkin 9 hingað til og því ljóst hverjir markaskorarnir hljóta að vera: Distin, Gibson, Mirallas og/eða Howard. Ég skýt á Distin og Mirallas. Hver er ykkar spá?
Í öðrum fréttum er það helst að sóknar-ungliði Everton, Chris Long, var kallaður í enska U18 ára hópinn sem mætir Belgum í næsta mánuði. Long hefur verið mjög heitur undanfarið bæði fyrir Everton liðið sem og landsliðið en hann skoraði með enska U18 landsliðinu gegn Ítölum í 2-0 sigri á þeim.
Ungliðunum gekk þó heldur brösulega í deildinni: U18 ára lið Everton tapaði fyrir Southampton á heimavelli 0-3 í deildinni. Þetta var fyrsti leikur þeirra eftir frækilegan 0-3 sigur á Arsenal í bikarnum á útivelli. Greinilega einhver þynnka í gangi ennþá eftir þann leik. U21 árs lið Everton mætti Sunderland U21 og lenti 2-0 undir en Conor McAleny og Francisco Junior jöfnuðu metin. 2-2 jafntefli því staðreynd.
Oldham annað kvöld. Ekkert annað en sigur kemur til greina. Áfram Everton!
0-1 fyrir Oldham.
Þetta er lokaleikur februarmánaðar og liðið hefur ekki enn unnið leik og 1 stig í deildinni uppskeran svo nú er að bíta í skjaldarrendur og koma sér í dauðafæri á undanúrslitum FA cup 3-1 Jelavic 2 og Gibson með screamer
því miður handritið segir tap fyrir Oldham,en ætla að spá gegn eigin sannfæringu 3-1 fyrir Everton og verðum bikarmeistarar.
4 1 fyrir okkur og hana nu,sjaumst a Ölver hressir.
Ét fúslega ofan í mig fyrri hrakspá. Oldham átti eiginlega aldrei möguleika.
Vona að þú hafir rétt fyrir þér Gunnþór.
Frábær sigur hjá okkar mönnum.
Gunnþór hitti naglann á höfuðið með úrslitin. Nú er bara að vona að restin af spá hans rætist líka. 🙂