Mynd: Everton FC.
City leikurinn að baki og rétt að líta yfir farinn veg. Everton liðið fannst mér standa sig vel gegn bæði Arsenal og City og svekkelsi að ná bara jafntefli, sérstaklega þegar litið er til þess að Everton liðið var sterkara en City allan fyrri hálfleikinn — og það á útivelli, gegn meisturunum. Nokkuð var rætt um það í fjölmiðlum að Everton væri grýla City manna, en Everton var síðasta liðið til að vinna City á þeirra heimavelli og Mancini hefur gengið afleitlega gegn Moyes, tapað fimm sinnum í sjö leikjum og aðeins unnið einn. Mancini vill meina að Everton eigi góðan möguleika á Champions League sæti við lok tímabils, en Everton þarf að fara að breyta þessum jafnteflum í sigra ef svo á að verða.
Nokkuð hefur verið rætt um vítið sem City fengu, sem ég gerði ekki athugasemd við þegar ég sá það fyrst, en eftir á að hyggja held ég að Jagielka hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann benti á að ef þetta var víti þyrfti að dæma 2-3 víti í hverjum leik og ég efast um að Everton hefði fengið víti ef sambærilegt atvik hefði átt sér stað hinum megin á vellinum. Hvað um það. Stig gegn meisturunum á útivelli er ekki slæmt, eins og Baines benti á. Tottenham á heimavelli um næstu helgi er gott tækifæri til þess að styrkja stöðu Everton við toppinn og ekki skemmir fyrir að Gareth Bale er meiddur.
Baines sló jafnframt á þær sögusagnir að hann væri á leið til United í janúar. Reglulega kemur þessi orðrómur upp og í hverjum leikmannaskipta-glugga er rætt um að hann sé á leiðinni til annars liðs en alltaf er það borið til baka. Ég er að mestu hættur að nenna að eyða orku í að hugsa um það. Pienaar sagði jafnframt ólíklegt að Fellaini væri á leiðinni frá Everton í janúar, eins og fréttamiðlar hafa haldið fram.
Dregið var í 3. umferð FA bikarsins og það kemur í hlut Everton að mæta Cheltenham eða Hereford á útivelli. Leikurinn verður sýndur beint á ESPN, mánudaginn 7. janúar kl. 19:45. Úrvalsdeildarlið mætast í fjórum leikjum í sömu umferð: Arsenal mætir Swansea á útivelli, Manchester United mætir West Ham á útivelli, Chelsea mætir Southampton á útivelli og QPR mætir West Brom. Ég hef góða tilfinningu fyrir FA bikarnum; spáði fyrir tímabilið sneypuför í League Cup (sem gekk eftir) en góðu gengi í FA bikar. Vonandi að það gangi eftir! 🙂
Unglingaliðum Everton gekk vel gegn Norwich: Everton U21 vann Norwich U21 2-1 með mörkum frá Magaye Gueye og Conor McAleny. Everton komst í 2-0 en Norwich minnkaði muninn undir lokin. Everton U18 vann Norwich U18 3-0 með mörkum frá Gethin Jones og tveimur frá Callum Dyson. En það voru fleiri góðar fréttir tengdar ungliðunum því Everton akademían fékk Category One vottun frá Úrvalsdeildinni fyrir næstu þrjú ár, sem þýðir að hún er meðal þeirra bestu í Englandi (e. elite status). Þetta er mjög mikilvægur gæðastimpill fyrir félagið þar sem þetta hjálpar til við að sannfæra væntanlega ungliða um að þeirra framtíð liggi í Everton akademíunni þar sem þeir fái að spreyta sig gegn jafnöldrum af hæsta gæðaflokki og auk þess eigi þeir góðan möguleika á að leika með aðalliðinu. Everton hefur jú verið vel þekkt fyrir að leyfa ungliðum að spreyta sig, sem er ekki alltaf raunin hjá öðrum Úrvalsdeildarliðum.
Og í lokin nokkrar hraðsoðnar „örfréttir“:
– Pienaar ætlar ekki að hætta við að hætta við með landsliðinu en stjóri þeirra hefur þegar játað ósigur í því máli.
– Samkeppnin er ekki nauðsynleg, segir Howard, til að hann standa sig á vellinum.
– Jagielka telur að Everton eigi möguleika á fjórða sætinu í lok tímabils.
– Útileiknum við Man United í febrúar verður sjónvarpað, og þar af leiðandi færður aftur um einn dag (yfir á sunnudag).
– Hægt er að kjósa um mark Nóvembermánaðar hér.
– Og Moyes sagði að Lescott væri velkominn aftur ef tækifærið gæfist. Distin virðist samt ætla að spila fótbolta að eilífu ef marka má þetta viðtal.
Orðið er annars laust í kommentakerfinu. Endilega látið í ykkur heyra. Mynduð þið stökkva á tækifærið að fá Lescott aftur?
Lescott og Jagielka náðu vel saman á sínum tíma og þá var vörnin hjá Everton einna sterkust. Svo skorar Lescott alltaf töluvert í föstum leikatriðum. Mér finnst Lescott traustari en Heitinga
Lescott verður aldrei sami topp miðvörðurinn, búinn eins og Torres…
Vonandi spilar Gylfi næsta leik og stendur sig.(not 🙂
Lescott er frábær leikmaður. Gott væri að leigja hann fram á vor ef færi biðst. Hann getur líka spilað sem bakvörður t.d hægra megin. Og auðvitað er skylda að fá alvöru sóknarmann með Jelavic í janúar þetta mundi laga stöðina mikið.