Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Af landsleikjum og vináttuleikjum - Everton.is

Af landsleikjum og vináttuleikjum

Mynd: Everton FC.

Margir af leikmönnum Everton voru í sviðsljósinu í landsleikjum kvöldsins. Heitinga og félagar unnu Rúmena á útivelli 4-1 og Coleman og félagar hjá Írum unnu Færeyjar, einnig 4-1. Jelavic fékk að hvíla á bekknum gegn Wales, 2-0, en Kevin Mirallas kom inn á fyrir Belga í stöðunni 0-0 gegn Skotlandi og hjálpaði Belgum að breyta því í 2-0 sigur. Hvorki Baines né Jagielka léku gegn Póllandi þar sem gleymdist að loka þakinu yfir leikvellinum svo að hann var á floti þegar átti að spila leikinn, þannig að leiknum var frestaðtil morgundagsins. Tilkynnt hafði verið að Jagielka myndi leika en Baines vera á bekknum. Howard (USA) og Oviedo (Kosta Ríka) spila sína leiki seinna í kvöld. Fréttir bárust einnig af því að Mirallas hefði meiðst við að skora þriðja mark Belga gegn Serbum á dögunum en meiðslin voru ekki talin alvarleg, enda kom hann inn á gegn Skotum í kvöld.

Ég rak upp stór augu í dag þegar ég sá Gerrard hlaupa í fréttamiðla og halda því fram að Englendingar ættu að nýta krafta Cole áfram í vinstri bakverðinum þar sem Cole „er í augnablikinu á toppi ferils síns“. Finnst þetta hálf hjákátleg ummæli sökum þess að Leighton Baines er yngri en Cole og er að standa sig betur en Cole í deildinni undanfarið, er ekki sami meiðslapésinn og Cole né vandræðagripur utan vallar. Baines er einfaldlega mun áreiðanlegri leikmaður. Sé ekki af hverju ætti að mjólka þá sem eru á niðurleið á kostnað betri og yngri leikmanna. Kannski var hann bara að horfa í eigin rann og vonast til að Hodgson leyfi sér að hanga á sinni stöðu langt fram yfir síðasta söludag. Annars ætti ég að vita betur en að lesa þessa vitleysu sem hann lætur út úr sér. Ekki við öðru að búast frá manni sem býst við bæði Champions League sæti *og* öðrum titli hjá sínu liði í ár, þó fimmtungur af tímabilinu sé lokið og aðeins einn sigur (á botnliði Norwich) í höfn.

En aftur að því sem skiptir máli. Þeir af Everton leikmönnunum sem ekki voru með landsliðum sínum fengu í staðinn vináttuleik gegn Huddersfield sem fram fór fyrir luktum dyrum en Everton vann þann leik 2-0 með mörkum frá Vellios. Ekki er ljóst hverjir léku þann leik en búast má við að Mucha, Osman, Naismith, Distin, Pienaar, Duffy og Neville hafi leikið ásamt blöndu yngri leikmanna og líklega Thomas Hitzlsperger, sem enn er verið að meta. Ólíklegt er að Gibson hafi spilað en hann er rétt að verða góður af meiðslum.

Það lítur út fyrir að lítið verði um brottfall úr liði Everton vegna Afríkukeppninnar í janúar en Pienaar tilkynnti, eins og kunnugt er, að hann ætlaði að draga sig út úr landsliðinu til að einbeita sér að Everton. Svipaðan tón var að heyra frá Anichebe, ekki að hann sé hættur með landsliðinu en hann segist í augnablikinu aðeins einbeita sér að því að standa sig vel með Everton. Og þar sem Senegal kemst að öllum líkindum ekki áfram er ljóst að Gueye mun ekki hverfa á braut heldur þegar Afríkukeppnin byrjar. Þó maður vilji að Everton leikmönnum gangi vel með sínum landsliðum þá er Everton með lítinn hóp, eins og fram hefur komið, og þarf á sem flestum heilum að halda gegnum tímabilið til að ná sínum markmiðum.

Í lokin má geta þess að goðsögnin Graeme Sharp á afmæli í dag en hann er 52. ára. Við óskum honum hjartanlega til hamingju með afmælið.

Comments are closed.