
Mynd: Everton FC.
Everton mætti Bournemouth í Bandaríkjunum í gær í fyrsta leik æfingamóts í New Jersey og þrátt fyrir fína frammistöðu, sérstaklega í fyrri hálfleik, var niðurstaðan 3-0 tap. Hægt er að horfa á allan leikinn hér, fyrir þau okkar sem keyptu áskrift.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, O’Brien, Patterson, Garner, Iroegbunam, Gana, McNeil, Alcaraz, Ndiaye, Beto.
Varamenn: Travers, Tyrer, Clarke, Heath, Thomas, Chermiti, Armstrong, Onyango, Barry.
Mjög þunnskipaður bekkur, en Coleman, Branthwaite, Keane, og Tarkowski voru allir frá. Aðeins einn „náttúrulegur“ miðvörður (Jake O’Brien) var því í byrjunarliðinu hjá Everton, þannig að eitthvað var um að menn væru spilaðir „úr stöðu“, eins og það er stundum kallað.
Það fór svo að Everton lék í 5-3-2 uppstillingu, með bakverði okkar (Mykolenko og Patterson) að leika sem miðverðir í þriggja miðvarða kerfi og McNeil og Garner tóku bakvarðarstöðurnar sitt hvorum megin við þá. McNeil var vinstri bakvörður og Garner hægri en þeir voru nokkuð framsæknir í leiknum. Ndiaye og Alcaraz voru á köntunum (Ndiaey á vinstri og Alcaraz á hægri, en skiptu svo síðar). Beto leiddi línuna.
Everton byrjaði leikinn betur og náðu fljótt undirtökum og sýndu fína takta í að komast upp völlinn og reyna fyrirgjafir, en lykilsending til að koma mönnum í færi klikkuðu oft. Fyrsta færi Everton kom á 7. mínútu, þegar Ndiaye fékk boltann inn í teig og reyndi skot sem fór framhjá stöng vinstra megin. Bournemouth svöruðu með tveimur skotum inn í teig Everton, í sömu sókn, en í bæði skiptin blokkerað af varnarmanni. Þeir áttu svo skot af löngu færi stuttu síðar, en Pickford sló þann bolta frá. Ekki mikil hætta af þeim tilraunum.
Alcaraz náði fínu skoti fyrir Everton á 20. mínútu, þegar Iroegbunam vann boltann af Bournemouth manni upp við teig þeirra, kom boltanum á Alcaraz, sem náði skoti út við stöng en markvörður náði að kasta sér niður og verja.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks náði Alcaraz flottri stungusendingu á Beto, gegnum vörnina hægra megin, og Beto komst í dauðafæri, einn á móti markverði, sem varði með öxlinni í horn (sem ekkert kom úr). Þar hefði staðan átt að vera 1-0 fyrir Everton.
0-0 í hálfleik. Engar breytingar á liði Everton í hálfleik, sem hafði verið betra liðið í fyrri hálfleik og virkuðu í betra formi en Bournemouth.
Bournemouth menn voru mjög heppnir að fá ekki á sig mark strax í fyrri hálfleik, eftir að Everton fékk hornspyrnu á 46. mínútu. Hátt horn á fjærstöng endaði að lokum hjá Ndiaye, sem reyndi skot af stuttu færi, en sneiddi boltann til hliðar. Boltinn barst til Alcaraz sem var hægra megin í teig, nálægt marki og náði skoti, sem fór í lappirnar á Beto og þaðan út af.
Evanilson reyndi skot af löngu færi á 50. mínútu, en beint á Pickford sem varði auðveldlega. Þeir fengu betra tækifæri á 52. mínútu, þegar leikmaður Bournemouth var á auðum sjó, utarlega í teig Everton, en Garner náði að skriðtækla fyrir skotið og verja í horn.
Það voru Bournemouth menn sem komust yfir í leiknum, á 55. mínútu, en markið komið úr skoti af löngu færi. Billing, leikmaður Bournemouth fékk boltann við D-ið á vítateig Everton og náði skoti, og svoleiðis smellhitti boltann ofarlega í markið hægra megin, alveg út við stöng. Óverjandi fyrir Pickford. 1-0 fyrir Bournemouth, svolítið gegn gangi leiksins.
Sjálfstraustið hjá leikmönnum Bournemouth jókst við markið og þeir fóru að spila betur. Bættu svo við marki fimm mínúitum síðar, eftir tvöföld mistök frá leikmönnum Everton. Fyrst frá Alcaraz, sem missti boltann á miðju, og hleypti þar með Bournemouth í skyndisókn. Þeir komust inn í vítateig með Patterson til varnar, en sóknarmaður þeirra, hins vegar, var klaufi og missti boltann of langt frá sér, sem hleypti Patterson í boltann inni í teig. En Patterson ákvað — í stað þess að hreinsa frá — að fara að spila boltanum frá marki, en það fór ekki betur en svo að hann lagði boltann fyrir leikmann Bournemouth, sem kom á hlaupinu og skoraði með föstu skoti í fyrstu snertingu framhjá Pickford. Stöngin inn — staðan orðin 2-0 fyrir Bournemouth.
Bournemouth menn voru ekki jafn þunnskipaðir á bekknum og Everton (mættu með einhverja 14 varamenn!), og náðu að skipta öllu liðinu sínu út. Everton spilaði hins vegar á sama liðinu lungað úr leiknum í miklum hita í New Jersey.
Þriðja mark Bournemouth kom svo á 70. mínútu þegar O’Brien sendi bolta aftur á Pickford sem sóknarmaður Bournemouth komst inn í og skoraði framhjá Pickford. 3-0. Tvö mörk í röð sem eftir mistök í varnarlínu Everton. Ágætt að ná þessum mistökum úr kerfinu í æfingarleikjunum en ekki í úrvalsdeildinni.
Þreföld skipting á 75. mínútu: Chermiti, Armstrong og, nýi sóknarmaður okkar, Barry, skipt inn á fyrir Beto, Ndiaye, og Iroegbunam.
Chermiti náði skoti á mark af löngu færi á 85. mínútu, en markvörður ekki í vandræðum með það. Hinum megin vallar komst leikmaður Bournemouth í dauðafæri inn í teig hægra megin, þurfti bara að setja boltann framhjá Pickford, en tókst það ekki, því Pickford varði fast skotið frábærlega.
Onyango kom svo inn á fyrir Gana á 86. mínútu, en fleira markvert gerðist ekki.
Næsti leikur á miðvikudaginn, í sömu keppni, gegn West Ham.
Fínn fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum.
Var spenntur að sjá Barry spila sínar fyrstu mínútur og hann var bara ansi sprækur. Spái því að Barry eigi eftir að negla inn 16 mörkum í deildinni 🤷🏼
Sá ekki fyrri hálfleik, enn fannst Mcneil, Petterson og Garner slakir í seinni. Eins fannst mér sérstakt hvað Alcaras náði litlum takti í sinn leik. Sammála að Barry virkaði sprækur. Enn við sjáum til, óþarfi að panika strax 🙂