Everton – Manchester City 0-2

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Manchester City á heimavelli kll. 14:00 í dag, í 33. umferð ensku úrvalsdeildarinnar, en þetta er þriðji síðasti leikur Everton á Goodison Park.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Ndiaye, Doucouré, Harrison, Broja.

Varamenn: Virginia, Keane, Patterson, Coleman, Young, Alcaraz, Iroegbunam, McNeil, Beto.

Sem sagt, engin breyting frá byrjunarliði síðasta leiks, sigurleiknum gegn Nottingham Forest á útivelli.

Lítið að frétta framan af — engin færi þangað til Man City reyndu skot utan teigs af löngu færi á 15. mínútu. Þetta var fast, lágt og mjög lúmskt skot, sem Pickford gerði vel að kasta sér niður á og verja í horn.

Á 31. mínútu voru City menn stálheppnir þegar Tarkowski skallaði í innanverða stöng og út eftir fína hornspyrnu Everton frá vinstri. 

Man City voru meira með boltann en Everton með fleiri snertingar í vítateig andstæðings (9 á móti þremur hjá City).

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik fékk Kevin De Bruyne svo frábært skotfæri innan teigs, reyndi skot á vinstri stöng þar sem O’Brien var vel á verði og skallaði í horn.

Jafnt í hálfleik, 0-0. Tarkowski með besta færi fyrri hálfleiks, að mati þular.

Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Everton fékk frábært færi á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Fengu aukaspyrnu langt úti á velli sem fann pönnuna á Tarkowski sem skallaði að marki. Þar var Branthwaite mættur í milluna (sjá mynd) og reyndi að skalla framhjá markverði, sem náði rétt svo að slengja vinstri hendi í boltann. City menn stálheppnir þar.

Á 51. mínútu þurfti Tarkowski því miður að fara af velli vegna meiðsla og Keane kom inn á fyrir hann. 

Everton með jafn margar tilraunir á mark (3) á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks og City áttu allan fyrri hálfleikinn. Doucouré átti fjórðu tilraunina á mark á 61. mínútu en Ortega varði fast skot á nærstöng vinstra megin með því að slá í horn.

Á 63. mínútu fór Broja út af fyrir Beto.

Gundogan reyndi skot á mark á 70. mínútu, af nokkuð löngu færi og lítill kraftur í skotinu, beint á Pickford. Ndiaye reyndi skot hinum megin af löngu færi en framhjá marki. Svolítið endanna á milli. Savinho reyndi skot frá D-inu en Pickford varði vel.

Þreföld skipting hjá Everton á 78. mínútu: Alcaraz, McNeil og Iroegbunam inn á fyrir Harrison, Gueye og Ndiaye. City gerðu tvöfalda skiptingu, settu Doku og Kovacic inn á og þeir náðu að breyta gangi leiksins. Doku mjög líflegur og beittur á kantinum og Kovacic skoraði.

Á 83. mínútu náði Keane ekki að hreinsa háan bolta inn fyrir vörnina, heldur leyfði boltanum að skoppa og tapaði svo skallaeinvígi við Mamoush sem komst einn á móti Pickford sem varði glæsiilega frá honum. En þetta reyndist viðvörunarbjalla sem Everton einfaldlega hunsaði því stuttu síðar voru City komnir yfir. Komust inn fyrir vörnina hægra megin inni í teig og sendu lágan bolta fyrir mark, sem O’Reilly náði að setja framhjá Pickford. Maður verður þó að setja spurningarmerki við varnarleikinn, því hann var óvaldaður — líklega Keane sem átti að dekka hann.

Þeir bættu svo við marki á 93. mínútu þegar Kovacic náði skoti nálægt D-inu og kom boltanum í netið.

0-2 sigur City staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (7), Gana (6), Garner (6), Doucouré (6), Harrsion (6), Ndiaye (6), Broja (4). Varamenn: Keane (3), Beto (5), Alcaraz (6), McNeil (6), Iroegbunam (6).

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta verður erfitt en ekki ómögulegt. Vonum bara það besta.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Mér finnst vera kominn tími á Beto fyrir Broja, hann er alls ekki að heilla.

  3. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Broja vill örugglega gleyma þessum leik sem fyrst, það gekk ekkert upp hjá honum.

  4. Diddi skrifar:

    held að við ættum að reyna að gleyma bæði Broja og Keane

Leave a Reply