Everton – Man United 2-2

Mynd: Everton FC.

Stórleikur 26. umferðar í ensku úrvalsdeildinni var viðureign Everton við Manchester United á Goodison Park en flautað var til leiks kl. 12:30. Með sigri gat Everton farið upp um tvö sæti, upp fyrir Tottenham og Crystal Palace og United upp um þrjú sæti (upp fyrir Everton) — en liðin skildu jöfn í dag eftir töluverðan dómaraskandal.

Aðeins 6 leikir eftir á Goodison Park, að þessum leik meðtöldum — en hinir eru West Ham, Arsenal, Man City, Ipswich og svo Southampton.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Harrison, Doucouré, Lindström, Beto.

Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Young, Alcaraz, Iroegbunam, Dixon, Heath, Sherif.

Doucouré fór beint inn í liðið, eftir leikbannið sem hann tók út í sigurleiknum gegn Crystal Palace, og Alccaraz fór aftur á bekkinn, sem leit því örlítið sterkari út en í síðasta leik. Enn voru þó tveir markverðir á bekknum en í þetta skiptið allavega bara þrír kjúklingar á bekknum en ekki fjórir eins og síðast.

Þetta var rólegt fyrstu fimm mínúturnar en eftir það tók Everton upp þumalskrúfuna og jók pressuna. Fyrsta tilraun í leiknum sem rataði á mark kom frá Beto, sem fékk háa fyrirgjöf frá vinstri, en skallaði beint á Onana í marki United. Engin hætta. Sama má segja um lið United í fyrri hálfleik, en þeir virkuðu eiginlega… hálf áhugalausir. 

Á 19. mínútu fékk Everton horn. Hár bolti fyrir, sem leikmenn Everton og United skiptust á að skalla til og frá marki. Á endanum skallaði Doucouré á Beto sem skoraði í fjórða leiknum í röð! VAR tók sér góðan tíma til að grandskoða markið, en fundu ekkert athugavert. 1-0 fyrir Everton! 

Og Everton jók bara pressuna strax í kjölfar marksins, og uppskáru mark! Komust í skyndisókn, sem Doucouré byrjaði á eigin vallarhelmingi á 31. mínútu með því að finna Beto upp á hægri kanti. Beto og Harrison komust tveir á móti einum varnarmanni og Beto sendi frábæra sendingu á Harrison sem lék Harry Maguire sem hafði náð að hlaupa hann uppi. Harrison náði skoti á mark sem Onana varði með því að slá boltann upp í loftið og þá var Doucouré mættur — eftir mikla siglingu upp völlinn, þar sem hann hljóp uppi (og fram úr) miðju United og var mættur inni í teig, til þess að stökkva upp og skalla framhjá Onana. Harry Maguire stóð bara eins og auli fyrir neðan bolta og gerði enga tilraun til að skalla frá. Staðan orðin 2-0 fyrir Everton!

Þetta var fjórða tilraun af fjórum sem rataði á rammann hjá Everton. United áttu enga tilraun á mark fyrr en á 42. mínútu þegar þeir reyndu langskot sem fór framhjá marki. Pickford alltaf með það. Þeir áttu aðra tilraun eftir horn en það reyndist slakur skalli út af, sem skapaði enga hættu.

Á 52. mínútu (7. mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleik) voru United menn heppnir að fá ekki á sig mark, þegar Doucouré komst óáreittur inn í teig hægra megin og reyndi að finna Beto sem lúrði fyrir framan mark. Náði flottri lágri sendingu til vinstri framhjá Onana en Mazroui, miðvörður United náði að hreinsa í horn rétt áður en Beto skóflaði boltanum í autt netið.

Everton fór því með verðskuldaða 2-0 forystu í hálfleik, enda að spila miklu betur en United í fyrri hálfleik og ekkert að gera hjá Pickford allan fyrri hálfleikinn.

Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Líkt og í fyrri hálfleik átti Everton fyrstu tilraun sem rataði á rammann í hálfleiknum — aftur skalli, í þetta skipti eftir horn, en Onana varði nokkuð auðveldlega.

Á 53. mínútu var Moyes svo þvingaður í snemmbúna skiptingu þegar Lindström fór af velli fyrir Young. Þulirnir voru ekki viss hvað hefði valdið því — ekkert frekar en við áhorfendur. Virkaði svolítið eins og varúðarráðstöfun frekar en eitthvað annað.

Á 56. mínútu reyndi Harry Maguire aumkunnarverða tilraun til að fiska víti, þegar hann henti sér niður inni í teig og þóttist hafa verið togaður niður. Endursýning sýndi allt annað og VAR lét ekki blekkjast. Þetta er ekkert annað en spjald fyrir dýfu.

Everton fékk fínt færi á 65. mínútu, eftir sendingu inn í teig frá hægri kanti, beint á Doucouré, sem var óvaldaður og tók skot í fyrstu snertingu en hann náði ekki að stýra boltanum framhjá Onana og United önduðu léttar, enn á ný.

Þegar á 70. mínútu var komið var Andy Madley, dómara leiksins, nóg boðið og ákvað að rétta United hjálparhönd aftur og aftur. 

Fyrst sleppti hann augljósu gulu spjaldi á Maguire, sem stoppaði skyndisókn Everton. Svo gaf hann skömmu síðar Garnacho gjörsamlega óverðskuldaða aukaspyrnu nálægt teig Everton. Aukaspyrnan varð að annarri aukaspyrnu vegna hendi frá Doucouré og sú var nær vítateigslínunni. Portúgalski tannálfurinn, Bruno Fernandes, gerði vel og setti boltann í hornið niðri hægra megin. Staðan þá orðin 2-1. United höfðu verið ömurlega lélegir í um 75 mínútur, ekki átt eina tilraun sem rataði á rammann og virtust ekki ætla að ná því fyrir leikslok, ef þeir hefðu ekki fengið aukaspyrnu á silfurfati.

Leikur þeirra breyttist töluvert við markið, en tilraunir United til að svindla héldu áfram. Á 78. mínútu reyndi Maguire aðra aumkunnarverða tilraun til að fiska víti. Lét sig detta við minnstu snertingu alveg út við vítateigshornið. Gjörsamlega ömurlegt að horfa upp á þetta — en rímar vel við þennan ömurlega leikmann. 

Á 80. mínútu fengu United svo aðra aukaspyrnu úti á velli og skoruðu upp úr henni — en ekki án frekari mistaka hjá Madley dómara sem horfði framhjá augljósu broti á Branthwaite við jaðar vítateigs rétt eftir að aukaspyrnan var tekin. United maður kemur úr rangstöðu (að mér sýndist) og rífur niður Branthwaite þegar hann er að reyna að hlaupa inn í teig. Klárt brot.

Á 84. mínútu öskruðu United menn aftur víti á ekki neitt (!!), þegar boltinn fór af andliti Everton manns og þaðan í hendina á Doucouré, sem var með höndina alveg þétt við líkamann. Ég get ekki betur séð en þetta hafi verið enn ein tilraunin til að svindla.

Alcaraz og Iroegbunam komu inn á fyrir Doucouré og Garner stuttu síðar og í kjölfarið fékk Beto fínt skallafæri á 87. mínútu eftir háa sendingu frá Young, en aftur skallaði hann beint á Onana.

Fullt af mínútum bætt við og í lokin, en til að toppa þetta allt saman gerði VAR sig seka um mistök. Á 94. mínútu fékk Everton víti þegar hvorki fleiri né færri en TVEIR (!!) varnarmenn United (De Ligt og Maguire) toguðu í treyjuna á Ashley Young sem var að reyna að ná í lausan bolta í teig nálægt marki, eftir frákast frá Onana. Dómarinn dæmdi strax víti, enda voru brotin (ath: fleirtala) bæði þess virði að dæma víti á. En VAR sneri því við, sökum þess að hreyfing Young „þótti koma undarlega snemma eftir að Maguire braut á honum“. Það er hins vegar gjörsamlega galið að meta að viðbrögðin séu við SEINNA brotinu, því hann var togaður niður á undan af De Ligt. Þetta er því engan vegin „clear and obvious error“ því þetta er samt víti þó að Maguire sleppi því að toga í hann líka!! Mig langaði að öskra á sjónvarpið á þessum tímapunkti.

Þetta var ekki bara rán um hábjartan dag — þetta var helvítis svindl. Það einfaldlega sýður á mér núna.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Tarkowski (6), Branthwaite (7), Mykolenko (6), Gueye (7), Garner (6), Lindstrom (6), Harrison (7), Doucoure (8), Beto (8). Varamenn: Young (6), Alcaraz (6), Iroegbunam (6).

Maður leiksins að mati Sky var Doucouré.

4 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    einhvern veginn hefur ekki skipt neinu máli í hvernig ástandi þetta helv. manutd lið er í, okkur tekst oftast að drulla uppá bak og gefa þeim sigur! Vonandi mæta menn af hörku í þennan leik

  2. Eirikur skrifar:

    Mikið rosalega er ánægður að vera laus við Dyche.
    Nú hlakkar mann til að horfa á leiki.
    Og enn skorar Beto og Doucure að koma okkur í 2-0

  3. Kiddi skrifar:

    Stuldur, síðan hvenær er dómari kallaður í VAR eftir að hann dæmir víti og það er klár snerting + peysutog ?
    Alla vega man ég ekki eftir því en líklega fordæmisgefandi fyrir VAR herbergið.
    Maður er frekar svekktur en ánægður með liðið sérstaklega í fyrri hálfleik barist um alla bolta.
    12 sæti eins og er, hver sá það fyrir í byrjun jan….

  4. Finnur skrifar:

    Miðað við það sem ég hef lesið, þá eru hlutlausir almennt hissa á þessu rugli sem var í gangi í lokin. Skandall.

Leave a Reply