Mynd: Everton FC.
Stórleikur 13. umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni var viðureign Everton við Manchester United.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, Doucouré, Ndiaye, McNeil, Lindström, Beto.
Varamenn: Virginia, Begovic, O’Brien, Patterson, Coleman, Mangala, Armstrong, Harrison, Calvert-Lewin.
Það kom pínulítið á óvart að sjá að Calvert-Lewin byrjar á bekknum og það kom því í hlut Beto að leiða línuna. Dyche hélt tryggð við Lindström á hægri kanti, þannig að Harrison þurfti að sætta sig við að vera á bekknum. Annað var eiginlega bara eftir bókinni. Garner og Iroegbunam báðir meiddir, eins og kunnugt er, en Chermiti og Broja farnir að æfa enda tóku þeir báðir þátt í síðasta U21 leik Everton. Bekkurinn var hins vegar nokkuð þunnskipaður: með tvo markverði, tvo hægri bakverði og einn ungliða (Armstrong) þar. En það var allavega svigrúm til að gera smá breytingar á framlínunni því Harrison og Calvert-Lewin eru á bekknum, fannst manni.
Annað kom á daginn.
Róleg byrjun á leiknum en það tók United um tvær mínútur að komast yfir miðlínu, voru í sífelldum krabbagangi í öftustu varnarlínu. Fyrsta skotfærið kom frá United á 3. mínútu en það var langskot beint á Pickford. Engin hætta.
Dalot komst inn fyrir vörn Everton vinstra megin en Branthwaite náði að hlaupa hann uppi og blokkera skotið. Everton komst svo í tvær fínar skyndisóknir en í bæði skiptin sóuðu þeir tækifæri til að láta Onana vinna fyrir kaupinu sínu.
Lindström með skot af löngu en beint á Onana. Engin hætta.
Á 21. mínútu fann Branthwaite McNeil á auðum sjó framarlega á miðjunni, og sendi langa sendingu á hann. McNeil sneri sér við með boltann og sendi strax í hlaupalínuna hjá Beto. Beto komst inn í teig á móti markverði, fór til hliðar við hann en setti boltann í utanverða stöngina.
Everton að vaxa fiskur um hrygg og ná tökum á miðjunni. Virkuðu hungraðri. Reyndu svo langskot utan af vinstri kanti en Onana vel á verði.
Ekkert að frétta frá United þangað til þeir fengu horn á 34. mínútu, beint á Rashford sem náði skoti frá D-inu og Branthwaite breytti stefnu boltans framhjá Pickford og í netið. Branthwaite eitthvað að ruglast á því hver borgar honum launin. Skítamark. 1-0 fyrir United gegn gangi leiksins.
Á 42. mínútu gerðist Branthwaite svo sekur um slæm mistök á vinstri kanti þegar Everton var að reyna að spila bolta út úr vörninni. Brantwhaite var að dóla með á boltanum og lét stela honum af sér þegar hann ætlaði að gefa aftur á Pickford. United menn gengu á lagið þrír á tvo og skoruðu. 2-0 fyrir United.
Fleiri urðu færin ekki í fyrri hálfleik. Slakur fyrri hálfleikur hjá United, en þeir tveimur mörkum yfir. Svona er þetta stundum.
Seinni hálfleikur hófst með látum því það voru ekki liðnar nema 20 sekúndur (!) af seinni hálfleik þegar United voru búnir að komast í 3-0. Komust í skyndisókn og Rashford afgreiddi sitt færi vel.
Á 50. mínútu hefði svo Martinez átt að fá rautt spjald fyrir að taka niður Beto sem var að komast einn inn fyrir eftir stungusendingu fram. VAR kíkti á málið en greip ekki inn í, líklega vegna þess að annar varnarmaður var nær. Þulirnir sögðu hins vegar að United hefðu sloppið með skrekkinn þar, því sá varnarmaður var að reyna undarlega skriðtæklingu, sem hefði þýtt að Beto hefði verið kominn einn inn fyrir. United heppnir þar.
Á 64. mínútu gaf Everton aftur mark á silfurfati. Í þetta skipti var Tarkowski gjafmildur þar sem hann var aftasti maður með boltann á vinstri kanti og lét stela honum af sér. United komust tveir á móti einum og skoruðu auðvelt mark. 4-0.
Það er ekki hægt að vinna fótboltaleiki þegar maður gefur svona mörg mörk á silfurfati. Og með þessu marki lak það litla loft sem var eftir úr blöðrunni og ákefðin og hungrið hvarf.
Þreföld skipting hjá Everton í kjölfari marksins. Mangala, Harrison og Calvert-Lewin komu inn á fyrir Gana, Lindström og Beto. Patterson inn á fyrir Young á 73. mínútu, stuttu eftir að Young hafði náð sér í gult spjald. Tarkowski fór svo út af fyrir O’Brien á 82. mínútu. Þær skiptingar breyttu þó engu, nema kannski Beto skiptingin.
Því að á 84. mínútu náði Calvert-Lewin loksins almennilegum bolta á rammann fyrir Everton, þegar hann kastaði sér niður á fyrirgjöf frá hægri kanti og skallaði á mark. En, því miður, skallaði hann boltann beint á Onana sem náði að verja.
Þetta var hins vegar allt of lítið og of seint. Leikmenn beggja liða bara að bíða eftir því að leikurinn kláraðist, enda engar líkur á að breyta niðurstöðunni og bæði lið með leik í miðri viku. Okkar menn gegn Wolves í algjörum 6 stiga leik sem verður að vinnast.
Tap niðurstaðan í dag. Of margir með slaka frammistöðu.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Young (5), Tarkowski (4), Branthwaite (4), Mykolenko (5), Gueye (5), Doucoure (6), Lindstrom (5), McNeil (6), Ndiaye (6), Beto (4). Varamenn: Harrison (6), Mangala (6), Calvert-Lewin (6), Patterson (6), O’Brien (6).
Doucoure!! Virkilega??? Endilega látum Mangala, sem er góður á boltanum og skilar honum vel frá sér, vera á bekknum en höfum Doucoure með trampolín lappirnar í byrjunarliðinu.
Ég get ekki séð að þetta endi vel, spái 5-0 tapi hjá okkar mönnum í dag.
McNeil er skelfilegur
Ég var greinilega full svartsýnn þegar ég spáði 5-0, en það hefði ekki verið ósanngjarnt.
Fyrstu tuttugu mínúturnar voru allt í lagi en svo var þetta búið, eins og það er alltaf.