Mynd: Everton FC.
Þá er komið að FA bikarnum, en Everton spilar við Manchester United á Old Trafford á eftir kl. 20:00.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Godfrey, Tarkowski, Coady, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, Gray, Maupay.
Varamenn: Begovic, Holgate, Mina, Davies, Doucouré, McNeil, Gordon, Calvert-Lewin, Simms.
Lampard ætlar greinilega að taka þessa keppni alvarlega og stillir upp svipuðu liði og náði stigi á útivelli gegn Manchester City á dögunum. Godfrey kemur aftur inn í liðið og er hér því líklega um 5-4-1 uppstillingu að ræða. Stóri munurinn þó að Maupay kemur inn fyrir Calvert-Lewin, sem fer á bekkinn og Coleman kemur inn í byrjunarliðið fyrir Patterson, sem meiddist í síðasta leik. En þá að leiknum…
Varnarsinnuð uppstilling í kvöld. Planið greinilega svipað og gegn City, bíða þolinmóðir og helst að ná í seinni hálfleik án marks. Það hins vegar gekk engan veginn, því United menn náðu að skora strax á fyrstu mínútunum eftir nokkuð vel útfærða sókn. Leikurinn varla byrjaður og staðan orðin 1-0 og það sem meira var, áður en leikmenn Everton náðu áttum hafði Martial náð skoti á markið en hitti það, sem betur fer, ekki.
En svo var komið að Everton. Gray gerði vel og átti skot að marki rétt utan teigs sem fór í utanverða stöngina og í bakið á De Gea. Boltinn hefði getað endað í netinu en fór röngu megin við stöngina. Hornspyrna. Og upp úr henni skoraði Everton.
Onana fékk boltann við vítateigsjaðurinn hægra megin og losaði sig auðveldlega við Casemiro (sem kom á hlaupinu út úr teig) með því að nota líkamann vel til að skýla boltanum og vísa honum veginn framhjá sér. Sendi svo á Maupay sem komst upp að endalínu og reyndi skot að marki. Skotið máttlaust en boltinn skoppaði milli fóta á De Gea og fór aftur fyrir hann. Coady var fljótur að hugsa og potaði í netið og náði að jafna leikinn!! 1-1.
„Game on!“ og aftur komið að upphaflegu leikjaplani Lampard. Andrúmsloftið á Old Trafford gerbreyttist algjörlega við markið. Grafarþögn á öllum vellinum, nema í útistúkunni, sem sungu „Everton… the spirit of the Blues!“ hástöfum!
Augljóslega smá pirringur í leikmönnum United við markið og það var bara fínt. Þeir náðu ekki að skapa sér almennilegt færi aftur fyrr en á 38. mínútu, þegar þeir brutu á leikmanni Everton úti á kanti og Eriksen reyndi skot rétt utan teigs, en rétt yfir slána.
1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst á því (efitr örfáar mínútur) að Iwobi vann boltann snemma á miðjunni og brunaði í skyndisókn upp völlinn og „driftaði“ aðeins til hægri. Áður en maður vissi af náði varnarmaður United óþægilega sterkri tæklingu á Iwobi, sem meiddist á ökkla við tæklinguna og var borinn út af á börum. Það eina sem maður bað um fyrir leik var: engin meiðsli, en það gekk ekki eftir. Maður hefur alveg séð gult á svona brot en Everton fékk ekki einu sinni aukaspyrnu, hvað þá meira. Doucouré inn á fyrir Iwobi.
En ógæfan hélt áfram, því það leið varla mínúta þangað til markaskorari Everton (Coady) var búinn að skora sjálfsmark. Coleman réði illa við Rashford sem brunaði inn í teig vinstra megin og sendi lágan bolta fyrir mark. Enginn sóknarmaður þar, en Coady reyndi hreinsun og endaði á að setja boltann í eigið mark. 2-1 fyrir United. Heppnismark, en svona er þetta.
Lampard skipti út Maupay fyrir Calvert-Lewin á 69. mínútu og sú skipting virtist skila frábærum árangri, því Everton náði að jafna stuttu síðar, hélt maður. Coleman og Gray náðu að vinna vel saman í skyndisókninni sem endaði með fyrirgjöf sem Calvert-Lewin náði að stýra í netið með kassanum en Gray var dæmdur (réttilega) rangstæður í aðdragandanum. Frampartinn á skónum á Gray vissulega rangstæður, en þetta var það tæpt.
Lampard með jákvæða skiptingu í kjölfarið, enda litlu að tapa. Gordon og McNeil komu inn á fyrir Mykolenko og Coleman á 79. mínútu. Tveir bakverðir út af og tveir kantmenn inn á. United menn sáu hvað í stefndi og skiptu út tveimur sóknarsinnuðum (Eriksen og Antony) fyrir tvo varnarsinnaða (McTominay og Maguire) í kjölfarið. Gray átti svo skot á 90. mínútu en De Gea kastaði sér niður og varði.+
Það stefndi í 2-1 sigur United, ef ekki hefði verið fyrir eina skyndisókn United í lokin sem náði alveg upp að marki Everton en Godfrey braut af sér og Rashford skoraði úr vítinu. Það skipti þó engu því United hefðu hvort eð er farið áfram í bikarnum.
Úrslitin því eftir bókinni í dag en maður vonar að Lampard haldi sig við þessa leikaðferð því það er allt annað að sjá til liðsins í 5-4-1 leikaðferð en þessari 4-3-3 aðferð. Þrátt fyrir að aðeins hafi náðst jafntefli í síðustu tveimur leikjum og þrátt fyrir tap í bikar í kvöld á útivelli þá er allt annað að sjá til liðsins með Godfrey, Tarkowski og Coady í hjarta varnarinnar.
Nú er bara að einbeita sér að deildinni og vona að liðsstyrkur berist í janúarglugganum.
Þá er komið að lokaleik Lampard
5-3-2 sýnist mér og mun betri uppstilling enn í seinasta leik. 3-5-2 þegar sótt er jafnvel 3-4-3 . Enn miðjan fellur allt of langt niður þegar sótt er á okkur. Og nú er IIwobi farinn meiddur af velli 🙁 og við lentir undir.
Bless Lampard.
Samkvæmt frétt sem ég var að lesa rétt í þessu þá eru meiðsl Iwobi ekki alvarleg. Sagt er að hann verði frá í 2 vikur vegna ökklameiðsla. Í fréttinni er vitnað í pabba Iwobi. Ég vona bara að þetta sé r.
Vona það líka. BBC segir þrjár vikur.
https://www.bbc.com/sport/football/64202554?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA
Jæja!!
Það er kominn 11. janúar og enn enginn nýr leikmaður kominn í þessum glugga, en það kemur svo sem ekkert á óvart.
Ef einhver hefur haldið að Everton hefði verið búið að gera einhver plön fyrir janúargluggann og jafnvel verið búnir að ganga frá einhverjum kaupum, þannig að menn gætu komið inn strax á fyrsta degi, þá hefur sá/sú ekki verið að fylgjast með félaginu síðustu árin.
Ég ætla að slá því föstu að Ellis Simms verði EINI leikmaðurinn sem bætist í hópinn í þessum glugga.
Mín spá er að Lampard hafi leikinn á laugardag til að bjarga starfinu.
Og eftir að hafa horft á seinustu 20 í leik Southampton og City er ég ekki bjarsýnn á að það takist því miður.
Everton er þrátt fyrir allt með 8. bestu vörnina í deildinni.