Everton – Wolves 1-1

Mynd: Everton FC.

Úlfarnir mæta í heimsókn á Hill Dickinson leikvanginn í kvöld kl. 19:30 en þetta er 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Úlfarnir eru sem stendur í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar en voru þó að vinna sinn fyrsta leik í deildinni í síðustu umferð (reyndar á heimavelli gegn West Ham, liðinu í þriðja neðsta sæti — en samt). Þeir koma klárlega stemmdir í að sýna að þeir séu ekki dauðir úr öllum æðum.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Iroegbunam, Garner, Grealish, McNeil, Armstrong, Barry.

Varamenn: Travers, King, Aznou, Patterson, Welch, Campbell, Röhl, Dibling, Beto.

Engar breytingar urðu á fjarverulistanum hjá Everton frá síðasta leik, þannig að þetta er mjög þunnskipaður bekkur, eins og í undanförnum leikjum.

Það var ekki að sjá á fyrsta stundarfjórðungnum að þetta Wolves lið væri lélegasta úrvalsdeildarlið allra tíma, eins og rætt var um — áður en þeir náðu sínum fyrsta sigri í deildinni. Það var því nokkuð jafnræði með liðunum í upphafi, án þess að Wolves sköpuðu sér nein færi.Fyrsta færið frá Everton á 8. mínútu, þegar Iroegbunam fékk boltann innan teigs Wolves, rétt við D-ið. Lagði boltann fyrir sig og reyndi skot, en það reyndist afleitt.

En svo kom mark hjá Everton á 17. mínútu eftir að Iroegbunam fékk aukaspyrnu á vinstri kanti og sendi háan bolta fyrir. Varnarmaður Wolves hreinsaði fram völlinn, beint á Iroegbunam, sem átti aftur slakt skot á mark, en í þetta skiptið breyttist það í stoðsendingu fyrir Keane, því hann tók boltann í fyrsta og þrumaði honum upp í samskeytin. 1-0 fyrir Everton!

Mykolenko var næstur með skot af löngu færi á 21. mínútu en framhjá marki. Engin hætta.

En sama var ekki uppi á teningnum á 27. mínútu þegar Iroegbunam fékk aftur aukaspyrnu á vinstri kanti og aftur fékk Keane dauðafæri, í þetta skiptið eftir að Garner hafði sent háan bolta á fjærstöng. Boltinn fór beint á Keane sem náði flottum skalla á mark, en því miður í stöngina og út í teig og því næst hreinsað. En þar hefði staðan átt að vera 2-0.

Garner komst í hálffæri inni í teig á 34. mínútu eftir að hafa snúið af sér varnarmann Wolves og náð skoti. Varnarmaður náði að setja fót fyrir boltann, og taka kraftinn úr skotinu, en boltinn stefndi þar með í samskeytin, svo það þurfti markvörð Wolves til að stoppa það.

Ekki voru fleiri markverð færi eða atvik og staðan því 1-0 í hálfleik, en Wolves hefðu ekki getað kvartað yfir því að vera tveimur mörkum undir.

Ekkert að frétta í seinni hálfleik til að byrja með en svo fór þetta allt í handaskolum, gjörsamlega.

Wolves náðu sínu fyrsta almennilega skoti á rammann í leiknum, svo ég muni, á 65. mínútu, en Iroegbunam náði að setja fótinn fyrir og Pickford að kasta sér á það og verja. En þetta var viðvörunarbjalla sem Everton hunsaði, því að allt í einu, þvert gegn gangi leiksins voru Wolves búnir að jafna. Ein snögg löng sending fram á Mane, sem tók boltann frábærlega með sér inn í teig og komst einn á móti Pickford. Setti svo boltann í netið. Enn á ný getur Everton ekki nýtt yfirburði í leikjum til að loka þessu og fær svo að sjálfsögðu á sig suckerpunch mark.

En þetta varð bara vandræðalegra, því að á 80. mínútu stökk Keane upp í skallaeinvígi við sóknarmann Wolves og togaði í fléttuna (!) á honum. Það er stundum eins og menn viti ekki að VAR er í gangi. Keane var búinn að eiga nær óaðfinnanlegan leik, og skora mark og nálægt því að skora annað. Líklega valinn maður leiks ef hann hefði ekki látið reka sig út af fyrir vitleysu. „You can’t make this sh*t up“, eins og gjarnan er sagt. Og það er ekki eins og liðið megi við því að missa menn á þessum tímapunkti!

Barry og Armstrong var svo skipt út af fyrir Beto og Patterson á 87. mínútu en sirkusinn hélt bara áfram því að á 90. mínútu fékk Grealish að fjúka líka með rautt spjald — fyrir að klappa kaldhæðnislega í átt að dómaranum fyrir að gefa sér aukaspyrnu. Tveir í banni fyrir næsta leik, takk fyrir kærlega. 

Wolves þar með tveimur fleiri og níu mínútum bætt við. NÍU. En það var sama hvað Wolves rembdust, þeim tókst ekki að blása niður hús grísanna. Þeir áttu eitt skot á 92. mínútu, sem stefndi að ég held í samskeytin, en Pickford varði vel. Lítið að frétta annars. Ég stóð mig að því að óska þess að Everton myndi sækja á þá tveimur færri og stela þessu, en — ekki í dag. 1-1 jafnteflistap staðreynd. Fínn fyrri hálfleikur en afar dapurlegur seinni hálfleikur. 

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Skil ekki þessa djöfulsins þráhyggju í Moyes gagnvart McNeil og O’Brien. Af hverju ekki að byrja með sama lið og gegn Forest? OK, Patterson byrjaði ekki vel í þeim leik en varð betri eftir því sem leið á og hann og Dibling unnu nokkuð vel saman á hægri kantinum, sérstaklega sóknarlega séð. McNeil er líka gjörsamlega gagnslaus leikmaður og hann hefur ekkert getað þegar hann hefur fengið að spila, sem er orðið allt of oft.
    Edwards hefur aldrei tapað fyrir Everton og það er ekki að fara að breytast í kvöld, sérstaklega ekki með þessari uppstillingu hjá Moyes. Þetta fer 1-3.

  2. Ari S skrifar:

    Að fá stig úr þessum leik er ákveðin stórsigur.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Djöfulsins drasl. Ég vona að Grealish fái ærlegt spark í rassgatið fyrir að haga sér svona eins og hálfviti.
    Og getur einhver sagt mér hvað McNeil gerir fyrir liðið, því ég get engan veginn séð það.
    Ef ekki kemur liðsauki í þessum mánuði, þá er Everton í virkilega vondum málum.

    • Orri skrifar:

      Við erum með leikinn okkar höndum ì hálfleik en svo hættu menn èg veit ekki hvort þeir héldu að þetta væri komið.Svo byrjaði bullið það bara sekta þessa menn um viku laun fyrir svona rugl.

  4. Gestur skrifar:

    Burt með Moyes

Leave a Reply