Everton – Brentford 2-4

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 20. umferðinni í ensku úrvaldsdeildinni, þegar Everton tekur á móti Brentford á Hill Dickinson leikvanginum. Bæði lið eru við miðja töflu, Everton með stigi meira en Brentford og getur Everton komist í 5. sæti, ef önnur úrslit verða hagstæð.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Iroegbunam, Garner, Grealish, McNeil, Dibling, Barry.

Varamenn: Travers, King, Aznou, Patterson, Welch, Campbell, Armstrong, Röhl, Beto.

Keane kemur aftur í liðið og miðjumaðurinn Armstrong var kallaður úr láni frá Preston, þar sem hann hefur verið að standa sig vel, sem léttir aðeins álaginu á þessa fáu leikmenn aðalliðsins sem ekki eru frá vegna meiðsla eða Afríkukeppninnar. Armstrong byrjar þó á bekknum. McNeil í holunni og Grealish og Dibling á köntunum.

Það er ekki um auðugan garð að gresja á bekknum, frekar en fyrri daginn, og aðeins tveir sem hafa meira en örfáar mínútur af spilatíma í úrvalsdeildinni á tímabilinu (Röhl og Beto). Branthwaite, Coleman, Dewsbury-Hall, Alcaraz, Gana, og Ndiaye, eru allir frá — þeir tveir síðastnefndu vegna Afríkukeppninnar, en hinir vegna meiðsla.

Mér skilst að Antoni Milambo (sóknarsinnaður miðjumaður), Fábio Carvalho (kantmaður), og Josh Dasilva (miðjumaður) séu frá vegna meiðsla hjá Brentford og að auki kantmaðurinn Dango Ouattara, og miðjumaðurinn Frank Onyeka, frá vegna Afríkukeppninnar.

Síðast þegar þessi lið mættust var ritari á pöllum Goodison í (það sem var þá) stærstu Everton ferð klúbbsins (34 manns!) en nú eru Brentford menn að heimsækja Hill Dickinson leikvöllinn í fyrsta skipti.

Everton með fyrsta færið á 4. mínútu, þegar Brentford misstu boltann nálægt eigin vítateig. Grealish brunaði með boltann inn í teig, gaf til hliðar á McNeil sem hlóð í skot. Skotið breytti stefnu af varnarmanni og gerði markmanni erfitt fyrir, sem náði rétt svo að slá boltann framhjá markinu í horn.

Ekkert að frétta frá Brentford fyrr en allt í einu á 12. mínútu, þegar þeir skoruðu óvænt, algjörlega gegn gangi leiksins. Tarkowski sendi bolta út úr teig á Iroegbunam, sem Brentford unnu og þeir sendu strax háan bolta inn í teig þar sem Igor Thiago, framherji þeirra, potaði inn. 0-1 fyrir Brentford. Hann er næst-markahæstur í úrvalsdeildinni, á eftir Erling Haaland.

Iroegbunam stal boltanum af varnarmanni á 24. mínútu og komst í skotfæri við D-ið en skotið afleitt og framhjá. Brentford svöruðu með skyndisókn þar sem Igor Thiago náði skoti innan teigs, en Mykolenko blokkaði boltann og bjargaði þar með í horn, sem ekkert kom úr.

Barry átti ágætis skalla á 30. mínútu eftir háa sendingu inn af vinstri kanti, en var of langt frá marki til að reyna á markvörð.

Brentford fengu tvö færi, það fyrra skyndisókn þar sem þeir komust þrír Brentford menn á tvo varnarmenn en O’Brien gerði vel að blokkera skotið. Seinna hár bolti inn í teig, tekinn í fyrsta en sem betur fer endaði sá ekki í netinu. 

Thiago fékk svo gott færi í uppbótartíma, eftir sendingu inn fyrir en Pickford varði skotið vel.

Everton var hins vegar nálægt því að jafna rétt fyrir lok hálfleiksins, eftir að Grealish sendi fastan bolta fyrir mark. Barry reyndi skalla — hefði líklega átt að reyna skot, því hann þurfti að beygja sig ansi mikið — en varið. Boltinn til Keane, sem náði skoti á mark, sem mér sýndist fara í bakendann á varnarmanni og hættan leið hjá.

0-1 í hálfleik.

Tvær breytingar á liði Everton í hálfleik: Debling og McNeil út af fyrir Beto og Röhl.

En seinni hálfleikurinn var endurtekið efni. Everton byrjaði mun sterkar en fékk svo á sig suckerpunch mark, alveg eins og í fyrri hálfleik. 

Beto hafði látið strax finna fyrir sér í seinni hálfleik þegar hann náði að blokka hreinsun frá varnarmanni Brentford þegar minna en 10 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik, og komst einn á móti markverði. En hann var allt of lengi að athafna sig og áður en hann náði skoti voru tveir varnarmenn komnir fram fyrir hann og eyddu tækifærinu.

Á 50. mínútu fengu Brentford svo horn. Þeir fengu að hamast í Pickford óáreittir og hrinda honum rétt áður en annar leikmaður þeirra skallaði inn. Ekkert dæmt. Óþolandi. Staðan orðin 0-2 fyrir Brentford. Brentford settu svo þriðja markið strax í kjölfarið og þar var Igor Thiago að verki. Game over.

Eða hvað? Það var reyndar smá líf eftir í Everton liðinu. Á 61. mínútu átti Tarkowski frábæran skalla á mark eftir háa fyrirgjöf inn í teig og boltinn stefndi í mark rétt undir slá, en markvörður Brentford átti frábæra vörslu í horn. Þar hefði staðan átt að vera 1-3.

En svo kom loks mark frá Everton. Grealish lék frábærlega á bakvörð Brentford og sendi háa sendingu beint á kollinn á Beto sem skallaði í fjærhornið af nokkuð löngu færi. Þá var staðan orðin 1-3. 

Armstrong kom svo inn á fyrir Iroegbunam á 77. mínútu. 

Keane fékk skallafæri á 86. mínútu, þegar hann fékk háan bolta inn í teig, en skallaði framhjá. Everton lagði svo allt kapp á að minnka muninn en á 87. mínútu reyndi Röhl sendingu inn í teig, og sú sending var gjörsamlega arfaslök, boltinn eiginlega bara rúllaði á varnarmann Brentford inni í teig. Hann leit upp og sendi langan bolta fram völlinn á Thiago, sem komst einn á móti Pickford og setti boltann framhjá honum. 1-4. Og þarna hugsaði maður aftur þarna væri þetta komið.

En það kom mark frá Barry á lokamínútunum þegar Grealish gerði frábærlega, hægra megin í teig, og sendi háan bolta fyrir á fjærstöng þar sem Barry skallaði inn. Báðir framherjar okkar þar með komnir á blað, þökk sé Grealish.

En þetta var too little too late, eins og þulurinn orðaði það. Brentford sigurvegarar í dag.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6); O’Brien (5), Tarkowski (5), Keane (5), Mykolenko (6); Garner (6), Ireogbunam (5); Dibling (5), McNeil (5), Grealish (7); Barry (5). Varamenn: Beto (7), Rohl (6), Armstrong (6).

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hræðilegur fyrri hálfleikur, ef sá seinni verður eins þá væri kraftaverk að ná stigi eða bara að halda stöðunni eins og hún er.
    McNeil getur ekki blautan og ætti ekki að fá að spila meira í dag, vil fá Armstrong eða Röhl inn á í staðinn.

  2. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Everton búið að tapa sjö af síðustu átta upphafsleikjum sínum á nýju ári. Spurning um að fara að taka af þeim eggnog-ið á gamlárskvöld…

  3. Eirikur skrifar:

    Dibling ekki tilbúinn í þessa deild. Held að Röhl fái ekki framlengingu. Jákvætt var að mér leist vel á Armstrong og báðir senterar okkar skoruðu.

Leave a Reply