Sunderland – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur 10. umferðar er viðureign Everton við Sunderland á heimavelli þeirra síðarnefndu en flautað verður til leiks kl. 20:00 í kvöld.

Sunderland enduðu síðasta tímabil í 4. sæti í ensku B deildinni, og voru ekki bara heilum 25 stigum frá því að taka annað sætið (sem gefur sjálfkrafa sæti í úrvalsdeildinni að ári) heldur einnig fjórtan stigum frá Sheffield United, sem voru fyrir ofan þá og ætla mætti að væri því sterkasta liðið í umspilinu. Það voru því líklega ekki margir aðrir en stuðningsmenn Sunderland sem veðjuðu á að þeir kæmust upp í úrvalsdeildina. En, það tókst þeim.

Í venjulegu árferði mætti auk þess búast við því að þeir vermdu botninn á sínu fyrsta tímabili aftur í úrvalsdeildinni, því það er mun styttra síðan hinir tveir nýliðarnir (Burnley og Leeds) voru í Úrvalsdeildinni. En, með sniðugum kaupum, vel skipulögðum leik og hnitmiðuðum skyndisóknum hafa þeir verið spúttnikk lið tímabilsins og gætu með sigri í kvöld setið í öðru sæti úrvalsdeildar eftir 10 leiki. Hversu galið er það? Til samanburðar eru Leeds og Burnley í 16. og 17. sæti eftir að hafa leikið einum leiki meira en Sunderland.

Það er verðugt verkefni sem Everton fær á útivelli í kvöld, en Sunderland eru taplausir á heimavelli á tímabilinu (með þrjá sigra og eitt jafntefli).

Meiðslastaðan er óbreytt hjá Everton, aðeins Branthwaite og Patterson eru frá. Hér er uppstillingin:

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Barry.

Varamenn: Travers, Aznou, Coleman, Iroegbunam, Alcaraz, Röhl, McNeil, Dibling, Beto.

Garner byrjaði leikinn með látum með skoti, eftir að boltinn datt vel fyrir hann, strax á 10. sekúndu, eða eitthvað en skotið rétt framhjá stönginni.

Everton betra liðið frá upphafi og pressaði vel og hleyptu Sunderland ekki inn í leikinn.

Og á 15. mínútu komst Everton yfir með frábæru marki frá Ndiaye. Barry vann boltann á kantinum og Ndiaye tók við honum og dansaði í gengum vörn Sunderland, inn í teig, svo til vinstri og þrumaði inn ofarlega í átt að vinstri samskeytum. 0-1 fyrir Everton.

Á 22. mínútu var Grealish ekki langt frá því að skora þegar hann reyndi skot utan teigs nánast úr kyrrstöðu, en í stöngina og út í teig.

Á 27. mínútu átti Everton að komast í 0-2 þegar Grealish sendi geggjaðan háan bolta frá vinstri, innan teigs, beint á fjærstöng, þar sem Barry lúrði, en fyrir nánast opnu marki setti hann boltann yfir mark.

Á 38. mínútu náðu Sunderland að skapa almennilegt færi, komust einn á móti markverði að því er virtist, en Keane var vakandi og náði að loka á skotið. Gerði mjög vel.

Sunderland færði sig upp á skaftið undir lok fyrri hálfleiks og náðu að skapa glundroða inni í teig Everton og maður velti fyrir sér hvernig þeim tókst ekki að skapa dauðafæri. Taugatrekkjandi mínútur, sem Everton náði að standa af sér.

0-1 í hálfleik.

Sunderland byrjuðu seinni hálfleik með miklum látum með marki frá Xakha strax á 46. mínútu. Smá heppnisstimpill á markinu, þar sem boltinn breytti um stefnu af Tarkowski alveg upp við markið. Pickford annars með það líklega. En staðan orðin 1-1.

Skömmu síðar náðu þeir öðru hættulegu skoti á markið, sem aftur breytti um stefnu, en Pickford náði að verja. Sunderland klárlega mun betur stemmdir í seinni en þeir voru í þeim fyrri. Samt ekki jafn skemmtilegur seinni hálfleikurinn en sá fyrri.

Beto kom inn á fyrir Barry á 56. mínútu, en það sem verra var þá fór Ndiaye út af vegna meiðsla á 62. mínútu (og McNeil þar með inn á), en vonandi eru meiðsli Ndiaye bara lítilsháttar. Það leit svolítið þannig út. Vonum það besta, enda er stór Íslendingaferð að sjá Everton um næstu helgi – 40 og tveir á okkar vegum að mæta á pallana að hvetja Everton til dáða.

Sunderland hefðu getað fengið víti á 72. mínútu þegar sóknarmaður Sunderland sendi fyrir og boltinn fór í hendina á Keane. Báðar, reyndar, ef ég sá rétt, en það er bara sú fyrri sem telur (ekki hendi í seinna tilfellinu, því það er ekki hendi ef boltinn skoppar af eigin líkama beint í hendina). En fyrri hendin hefði hins vegar getað talið — og mér finnst allt of oft sem það hefur verið dæmt þannig (þar sem það lítur út í hægri endursýningu sem menn hafi allan tímann í heiminum til að forðast að fá boltann í hendina) en sem betur fer var það metið svo sem að fjarlægðin hefði verið of lítil. Ekkert víti. Ekki lítill léttir.

Dewsbury-Hall og O’Brien fóru út af fyrir Alcaraz og Iroegbunam á 81. mínútu.

Mykolenko með færi í kjölfarið, vann boltann og náði föstu skoti á markið en markvörður varði. Og fleiri urðu (almennilegu) færin ekki. Jafntefli því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Keane (7), Tarkowski (6), Mykolenko (6), Gueye (6), Garner (6), Ndiaye (7), Dewsbury-Hall (6), Grealish (7), Barry (6). Varamenn: Beto (6), McNeil (6), Alcaraz (6), Iroegbunam (6).

6 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sami grautur í sömu skál, get ekki séð hvernig úrslitin verði okkur í hag í kvöld.
    Hefði viljað sjá Alcaraz byrja og færa KDH annað hvort aftar á miðjuna eða bara á bekkinn, finnst hann góður leikmaður en ofmetinn. Eins Hefði ég vilja sjá Garner í hægri bakvarðar stöðunni og færa O’Brien í miðvörðinn í stað Keane.

  2. Eirikur skrifar:

    Hvernig datt Moyes í hug að setja Mcneil inn á.
    Þetta endar með tapi.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ef við hefðum nú bara framherja…..

  4. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Ég var mjög smeykur við þennan leik og hefði líklega þegið jafntefli fyrirfram. En fyrsta hálftímann voru Everton með góð tök á leiknum og Sunderland menn í töluverðu basli og voru alls ekki að sýna af hverju þeim hefur gengið svona vel á tímabilinu. Barry hefði svo átt að klára leikinn með sínu dauðafæri í fyrri hálfleik — Je. Sús. Kristur.

    En ég var einfaldlega farinn að velta fyrir mér hvort þetta væri einhver Sunderland blaðra (eða sundbolti) sem væri núna sprungin/n. Held samt þegar upp er staðið hafi bæði lið geta gert réttmætt tilkall til þriggja stiga og er það ekki merki um að jafntefli sé sanngjörn niðurstaða? Ég hélt til dæmis að VAR væri að fara að gefa Sunderland víti í seinni hálfleik en það féll — ótrúlegt en satt — með okkar mönnum í kvöld.

    Fulham næst, með stóran hóp Íslendinga pöllunum. Það verður eitthvað! 🙂

Leave a Reply to Finnur Thorarinsson