Everton – Tottenham 0-3

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur 9. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar var við Tottenham á Hill Dickinson leikvanginum. Flautað var til leiks kl. 16:30.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Beto.

Varamenn: Travers, Aznou, Coleman, Iroegbunam, Alcaraz, Röhl, McNeil, Dibling, Barry.

Branthwaite var enn frá vegna meiðsla, en fréttir bárust af því að hann þurfti að fara í uppskurð til að taka á einhverju sem leit út fyrir að vera smávægilegt, en hann var ekki að ná að jafna sig af almennilega. Annars var þetta okkar sterkasta lið, enda kom Grealish inn í liðið aftur eftir City leikinn, sem hann mátti ekki leika (þar sem hann var formlega enn leikmaður City).

Nokkuð var um meiðsli í herbúðum Tottenham en vitað var að Romero, Udogie og Solanke myndu allir vera frá. Það kom hins vegar pínu á óvart að Richarlison myndi ekki vera í byrjunarliðinu, en við fögnuðum því, enda hefður þessi fyrrum leikmaður okkar reynst erfiður ljár í þúfu. Randal Kolo Muani fékk því sinn fyrsta byrjunarleik með Tottenham en Richarlison byrjaði á bekknum.

Fjörug byrjun á leiknum. Everton átti dauðafæri strax á 3. mínútu eftir að Ndiaye fór illa með vinstri bakvörð Tottenham og sendi fyrir innan teigs frá hægri. Boltinn fór til Grealish, með viðkomu fyrst í Beto, en Grealish náði föstu skoti nálægt marki vinstra megin. Skotið fór hins vegar í fótinn á varnarmanni og Tottenham sluppu þar aldeilis með skrekkinn.

En það voru Tottenham sem komust yfir á 18. mínútu, eftir hornspyrnu frá hægri (frá þeim séð). Boltinn varst á fjærstöng þar sem Bentancour náði að beina fyrirgjöfinni, fyrir mark aftur með öxlinni og Van De Ven skallaði inn við hægri stöng. 0-1 fyrir Tottenham. Þetta reyndist fyrsta markið sem Everton fékk á sig úr föstu leikatriði á tímabilinu. 

En Everton jafnaði á 24. mínútu, einnig eftir hornspyrnu, þegar O’Brien skallaði inn frábæra fyrirgjöf frá Garner. En því miður var Ndiaye rangstæður, þar sem hann stóð við hlið markvarðar spyrnti á móti markverði, þannig að markið var dæmt af. Því miður, en líklega réttur dómur. Pínu soft samt.

Bentancour átti svo stórhættulegt skot á 34. mínútu en rétt framhjá stönginni.

En Tottenham bættu svo við öðru marki úr hornspyrnu og það var megn skítalykt af því. Van de Ven hleypur að Pickford, ýtir honum í átt að marki og skallar svo inn. Klárlega brot á Pickford, en ekkert dæmt. Staðan orðin 0-2 fyrir Tottenham, hálf óverðskuldað. 

Og staðan var 0-2 í hálfleik. Fyrsta tap Everton á Hill Dickinson blasti við.

Beto var reyndar óheppinn að skora ekki á 54. mínútu þegar hann náði hjólhestaspyrnu af stuttu færi, eftir sendingu frá Ndiaye, en markvörður Tottenham náði algjöru „reaction save“ á síðustu stundu.

Richarlison var skipt inn á (fyrir Tottenham) ekki löngu síðar og hann komst í dauðafæri þegar Tarkowski náði ekki að bægja hættunni frá, þegar hár bolti barst í áttina að marki Everton. En Richarlison, sem var einn á móti markverði, skaut beint í kviðinn á Pickford.

O’Brien og Beto var svo skipt út af fyrir Rohl og Barry á 65. mínútu og Ndiaye náði skoti að marki á 71. mínútu, sem breytti stefnu af tveimur varnarmönnum en einhvern veginn náði markvörður Tottenham að verja á síðustu stundu. Boltinn einfaldlega vildi ekki inn.

Stuttu síðar hefði Gueye svo átt að fá víti þegar hann var keyrður niður af Kudus inni í teig. Alltaf brot utan teigs — óþolandi. Það var einfaldlega ekkert að falla með okkar mönnum í dag. Alcaraz kom svo inn á fyrir Gana á 86. mínútu.

Everton náði að setja fína pressu á Tottenham í seinni hálfleik, án þess að skapa nægilega góð færi, en Tottenham mennirnir með okkur í salnum á Ölveri supu hveljur ítrekað og leið greinilega ekki vel undir pressu Everton.

En á 89. mínútu náðu Tottenham menn að klára leikinn með þriðja markinu og þar með var þetta búið.

0-3 niðurstaðan í dag en úrslitin ekki í samræmi við frammistöðuna — svona er þetta stundum. Tölfræðin yfir heppnaðar sendingar í „final third“ var athyglisverð: 122 hjá Everton, 46 hjá Tottenham.

Fimm leikja taplaus hrina (þrír sigrar, tvö jafntefli) á Hill Dickinson þar með á enda.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (7), Keane (5), Tarkowski (6), Mykolenko (6), Gueye (7), Garner (6), Ndiaye (7), Dewsbury-Hall (6), Grealish (6), Beto (6). Varamenn: Barry (6), Rohl (6).

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Craig Pawson er dómari, við eigum ekki séns.

  2. Eirikur skrifar:

    Ekki okkar dagur. Tvö mörk úr föstum leikatriðum er ekki gott. Skil ekki að menn haldi að Miko sé einhver sóknarsinnaðu bakvörður.
    Hefði mögulega orðið annar leikur ef Grealish hefi skorað í byrjun leiks.

Leave a Reply to Eirikur