Man City – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Stórleikur helgarinnar var viðureign Everton við Manchester City á heimavelli þeirra síðnefndu, en þetta var 8. umferðin í ensku úrvalsdeildinni.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Ndiaye, Dewsbury-Hall, Alcaraz, Beto.

Varamenn: Travers, King, Aznou, Coleman, Röhl, Iroegbunam, McNeil, Dibling, Barry.

Nokkuð var um fjarveru í herbúðum beggja liða. Hjá okkar mönnum vantaði náttúrulega Grealish, sem má ekki spila á móti sínu eignarliði, og Branthwaite, sem var enn að jafna sig af meiðslum. Alcaraz kom því inn fyrir Grealish en Dewsbury-Hall, sem hafði tekið út eins leikja bann (vegna dómaramistaka), kom inn á fyrir Dibling, sem er á bekknum.

Hjá City vantaði Rodri, sem var frá vegna meiðsla, en Marmoush og Ait Nouri voru að vinna sig inn í hópinn aftur eftir meiðsli. En það er svo sem alveg sama hvaða menn eru meiddir hjá þeim, þeir gætu stillt upp tveimur sterkum liðum í úrvalsdeildinni í einu, þegar allir eru heilir hjá þeim.

Með sigri gátu City menn jafnað toppliðið Arsenal að stigum (tímabundið allavega) en ef Everton sigraði hefði liðið nálgast meistaradeildarsæti. Það er þó meira en að segja það að landa sigri á útivelli gegn City.

Alcaraz hóf leikinn á vinstri kanti, Dewsbury-Hall í holunni og Ndiaye á hægri kanti.

City menn meira með boltann, eins og við var að búast, en náðu ekki að skapa mikið.

Fyrsta skotið frá City á 11. mínútu af löngu færi, en framhjá marki. Pickford líklega með það. En á 13. mínútu fékk Everton algjört dauðafæri þegar Ndiaye komst inn í sendingu frá aftasta manni og brunaði inn í teig. Náði að senda lágan bolta fyrir mark þar sem Beto var mættur og þurfti bara að pota inn, en hitti boltann illa. Þar hefði staðan átt að vera 0-1.

City menn reyndu annað langskot á 16. mínútu en aftur framhjá marki. Savinho komst svo inn fyrir hægra megin eftir flotta stungusendingu, en skotið frá honum afleitt, laust og beint á Pickford.

Everton nokkuð nálægt því að skora á 24. mínútu, þegar O’Brien skallaði háan bolta inn í teig í átt að eigin marki, en boltinn fór í ofanverða slána og út. 

City menn komust svo í ágætis stöðu inni í teig á 30. mínútu og náðu skoti sem var blokkerað í horn (sem ekkert kom úr). Beto í færi strax hinum megin, þegar Ndiaye náði stungu á hann inn fyrir í teig, en skotið hjá honum, hægra megin í teig, fór rétt framhjá stöng vinstra megin — og hann var svo dæmdur rangstæður, en það hefði farið í VAR, það var svo tæpt.

Ekki mikið að frétta næstu 10 mínúturnar, City menn mikið með boltann en komust lítið áleiðis gegn sterkri pressu Everton. Á 41. mínútu átti Everton svo frábært færi þegar Ndiaye fór illa með varnarmenn City inni í teig hægra megin, og náði skoti sem Donnarumma, í marki City, þurfti að verja yfir slána.

City menn komust í skyndisókn skömmu síðar, þegar þeir unnu boltann af Garner — sem var um það bil að senda langa sendingu upp í hægri hornið á Ndiaye. Þeir komust með þessu í yfirtölu á vörn Everton og boltinn endaði hjá Doku, vinstra megin í teig, nálægt marki, en skotið frá honum var afleitt — beint í kviðinn á Pickford og í horn (sem ekkert kom úr).

Þeir fengu hins vegar horn stuttu síðar og frían skalla á mark, en hittu ekki á rammann. Þeir fengu eitt tækifæri í lok hálfleiksins líka, með skoti innan en Pickford varði vel.

0-0 í hálfleik. Everton með besta færi fyrri hálfleiks.

City menn voru áfram mikið með boltann en lítið að frétta af sóknarlínu þeirra og Everton hafði átt í fullu tré við þá fyrsta klukkutímann, rétt tæplega. Því að á 57. mínútu náði kantmaður þeirra að komast inn fyrir vinstra megin, þegar hann fékk langa stungusendingu fram, og komst upp að endalínu og senda fyrir mark. Þar var Haaland algjörlega óvaldaður og stangaði boltann inn. 1-0 fyrir City.

En Everton var hins vegar ekki langt frá því að jafna stuttu síðar, á 60. mínútu, þegar Garner náði skoti á mark sem varnarmaður varði í horn með hendi inni í vítateig. Hefði kannski verið hart að dæma víti á það, en maður hefði ekki orðið hissa ef sum önnur lið hefðu fengið víti þar.

En í staðinn skoruðu City menn hinum megin og aftur var Haaland skilinn eftir óvaldaður inni í teig Everton. Hann fékk boltann og náði skoti á mark, af nokkuð löngu færi. Pickford sá skotið illa þar sem Tarkowski var á milli og til að bæta gráu ofan á svart þá fór boltinn í aðra löppina á Tarkowski, á leið sinni gegnum klofið á honum, og rétt framhjá Pickford, sem hafði engan séns að bregðast við stefnubreytingunni. 2-0 fyrir City. Game over.

Markið gerði ekki bara út um vonir Everton, heldur drap algjörlega niður leikinn. City skiptu yfir í hundleiðinlegan reitabolta og þríhyrningaspil beint af æfingasvæðinu (geisp). Samt kannski ekki hægt að halda því fram að boltinn sem þeir spila venjulega sé neitt sérstaklega skemmtilegur áhorfs.

Roehl og Iroegbunam komu inn á fyrir Gana og Alcaraz á 70. mínútu og fimm mínútum síðar kom Barry inn á fyrir Beto. Í kjölfarið bjó Ndiaye til flott skallafæri fyrir Roehl á 76. mínútu en skallinn frá honum rétt framhjá nærstöng vinstra megin.

Dibling og McNeil komu svo inn á fyrir Dewsbury-Hall og Ndiaye á 86. mínútu, en náðu ekki að breyta gangi leiksins.

Eftir þetta var eins og slokknaði svolítið á athyglinni hjá okkar mönnum, því tvisvar komst Haaland einn inn fyrir vörn Everton eftir langa stungusendingu í uppbótartíma. Fyrst klúðraði hann færinu með afleitri fyrstu snertingu, sem hleypti varnarmönnum réttu megin við hann til að blokkera skotið og í seinna skiptið sá Pickford við honum með frábærri vörslu.

2-0 tap niðurstaðan í dag, þrátt fyrir fína frammistöðu fyrsta klukkutímann. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Tarkowski (6), Keane (6), Mykolenko (7), Gana (7), Garner (6), Alcaraz (6), Dewsbury-Hall (6), Ndiaye (8), Beto (6). Varamenn: Iroegbunam (6), Rohl (6).

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi mæta okkar menn vel gíraðir í leikinn, helst á sama tíma og city, og gefa þeim alvöru leik. Ég reikna ekki með einu einasta stigi út úr þessum leik en vonast bara eftir góðri frammistöðu.

  2. Gestur skrifar:

    Moyes vill ekki vinna sex efstu liðinn, sem er alveg galið. Everton verður aldtei stórt félag undir stjórn Moyes og þess vegna á félagið að leita að nýjum stjóra.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Barnalegur varnarleikur gaf City tvö mörk.

  4. Þorri skrifar:

    Sælir félagar.Er sammála þetta var mjög lélegur varnar leikur hjá Everton í dag.En Gestur það sem fjárhagsstaðan hjá Everton er ekki góð þá er David Moyes besti kosturinn eins og staðan er í dag Koma svo áfram Everton

Leave a Reply