Everton – West Ham 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti West Ham í lokaleik 6. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar en West Ham hafa byrjað tímabilið afleitlega og eru í næst-neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með þrjú stig. Stóru fréttirnar hjá þeim var að þeir ráku af þeim sökum, fyrir leikinn, stjóra sinn, Graham Potter.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Beto.

Varamenn: Travers, Aznou, Patterson, Coleman, Iroegbunam, McNeil, Alcaraz, Dibling, Barry.

Óbreytt lið hjá Everton frá síðasta leik og gott ef þetta er ekki bara um það bil sterkasta liðið, fyrir utan Branthwaite — en Keane hefur svo sem átt fína byrjun á tímabilinu. Beto og Barry ennþá að bítast um framherjastöðuna og annar hvor þeirra þarf að fara að stíga upp.

Tvær breytingar á liði West Ham: Ward-Prowse var tekinn úr hópnum, sem maður var pínu undrandi yfir, enda gríðarlega öflugur í föstum leikatriðum. Fulkrug leiddi línu hjá þeim og tók við því hlutverki af Wilson, sem fór á bekkinn.

Everton var mun meira með boltann frá upphafi, nánast 70% fyrstu 20 mínúturnar. En færin létu á sér standa í byrjun. Fyrsta færið kom ekki fyrr en á 15. mínútu eftir að Tarkowski sendi háan bolta inn í teig, þar sem Beto var óvaldaður en náði bara að stýra boltanum beint á markvörð. Ndiaye átti skotfæri mínútu seinna, eftir skyndisókn frá Everton, en sama niðurstaða. Beint á markvörð West Ham.

En Everton var allavega byrjað að banka á dyrnar og náðu að brjóta ísinn eftir hornspyrnu, Akkilesarhæl West Ham og styrkleika Everton. Markvörður þeirra náði reyndar að kýla boltann út úr teig eftir hornspyrnuna, en Garner sendi háan bolta inn í teig jafnóðum, beint á kollinn á Keane, sem náði frábærum skalla, utarlega í teignum, og boltinn fór í sveig yfir markvörð West Ham. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton!

Everton tók aðeins fótinn af bensíngjöfinni það sem eftir lifði og West Ham fengu fyrir vikið að vera meira með boltann, þannig að þetta endaði 50%/50% possession í hálfleik. En þeim tókst ekki að að skapa sér almennilegt færi í fyrri hálfleik. Þeir áttu sitt fyrsta hálffæri á 26. mínútu, þegar langt innkast var framlengt inn í teig og þeir náðu skalla, en boltinn fór beint á Pickford. Æfingabolti.

Ndiaye skapaði svo skallafæri fyrir Dewsbury-Hall á 34. mínútu, þegar sá fyrrnefndi lék á bakvörð West Ham við horn vítateigsins og sendi háan bolta inn fyrir mark, en Dewsbury-Hall setti boltann rétt framhjá stönginni.

Það var síðasta færið í fyrri hálfleik þar sem Everton fór með verðskuldaða 1-0 forystu í búningsklefann og voru líklegra liðið til að bæta við. Lítil ógnun frá West Ham í fyrri hálfleik — ansi margir farþegar í liðinu hjá þeim í fyrri hálfleik.

Bæði lið óbreytt í seinni hálfleik.

Everton byrjaði af krafti og áttu tvö færi í upphafi seinni hálfleiks, fyrst skot frá O’Brien, serm var nálægt stönginni hægra megin, en skotið blokkerað í horn. Hið seinna kom strax í kjölfarið, skotfæri hjá Gana utan teigs, en rétt yfir markið.

Garner fékk frábært skotfæri eftir horn, þegar boltinn var hreinsaður frá marki stuttu síðar. Tók viðstöðulaust skot sem markvörður West Ham náði að verja.

Á 61. mínútu var maður farinn að ókyrrast, því að Everton virtist ekki ætla að ná að loka þessum leik, sem er saga sem við þekkjum alltof vel. Tölfræðin sýndi að West Ham hafði bara náð tveimur snertingum inni í teig Everton í seinni hálfleik og þulirnir sögðu — þetta verða þeir að laga.

Strax í kjölfarið sendi O’Brien of stuttan skallabolta á Pickford sem Summerville, sóknarmaður West Ham, komst inn í og náði skoti á mark. En sem betur fer kom Pickford O’Brien til bjargar og náði að verja með fæti í horn.

Og þetta var viðvörunarbjallan sem var hunsuð, því Bowen náði að jafna á 65. mínútu. Þeir náðu skyndisókn þar sem Bowen fékk boltan hægra megin inni í teig, utarlega, og náði góðu skoti, sem fór í Keane og breytti um stefnu framhjá Pickford — sem hefði líklega annars varið skotið. Þetta reyndist fyrsta (og hingað til eina) markið sem andstæðingar Everton ná að skora á Hill Dickinson og það reyndist eitthvert skíta deflection heppnis-mark.

Og þetta mark algjörlega breytti gangi leiksins. West Ham menn allt í einu með skottið uppi og um tíma leit þetta meira að segja út fyrir að vera að fara að enda illa hjá Everton. En það raungerðist þó ekki.

Barry kom inn á fyrir Beto á 68. mínútu og Dibling fyrir Ndiaye á 81. mínútu. Mínútu síðar fékk Garner fínt skotfæri, beint úr aukaspyrnu, á 82. mínútu, en setti boltann rétt framhjá marki vinstra megin.

Á 89. mínútu lagði Grealish upp skotfæri fyrir Garner — alveg nákvæmlega eins og á móti Brigthon, og — líkt og þá — náði Garner flottu þrumuskoti á mark, en í þetta skiptið vildi boltinn ekki inn.

Fimm mínútum bætt við, en fleiri urðu færin ekki. 

Klárlega tvö töpuð stig í kvöld — og hefði getað orðið þrjú, með smá (meiri) heppni hjá West Ham.

Stigið lyfti Everton þó upp í efri hluta deildar en West Ham menn í sömu stöðu — næst-neðstir.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

7 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sorry en ég held að við töpum þessum leik, 0-2

  2. Diddi skrifar:

    þetta er búið að liggja í loftinu en bregst Moyes við? Nei

  3. Diddi skrifar:

    sá sem að sá þennan Barry og datt í hug að kaupa hann dýrum dómum ætti að verðlauna og þetta er alls ekki boðlegt hjá okkar mönnum

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað gera lið þegar ekkert gengur? Jú þau fara til doktor Everton. Doktor Everton læknar hvaða krankleika sem er, hvort sem það er markaþurrð eða skortur á stigum.
    Djöfull er þetta lið okkar stórlega ofmetið.
    Einhver ætti endilega að segja Grealish að hann megi líka skjóta á markið.

  5. Diddi skrifar:

    Dibling fær kannski að prófa 25 mín þegar hann verður 35 ára

  6. AriG skrifar:

    Fyrri hálfleikur góður en seinni mjög lélegur. James Garner langbesti leikmaður Everton í þessum leik. Vel hann bestan eftir fyrstu 6 umferður aldrei lélegur. Finnst Moyes alltof íhaldsamur. Vill henda bæði Beto og Barry á bekkinn. Prófa að setja Alcarez inná miðjuna fyrir aftan sóknarmanninn. Setja Ndiaye fremstan. James Garner í hægri bakvörðinn hvíla OBrien var skelfilegur í þessum leik. Prófa að setja Dibling í byrjunarliðið og bakka með Dewsbarry-Hall með Gana. Annað óbreytt.

Leave a Reply to Diddi