Wolves – Everton 2-0 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að þriðju umferð deildarbikarsins (Carabao Cup) en flautað verður til leiks kl. 18:45 að íslenskum tíma. Leikið er á heimavelli Wolves, en Everton vann þá fyrr á tímabilinu á útivelli 3-2. Þetta er þó mjög breytt byrjunarlið hjá Everton sem hefur þennan leik.

Uppstillingin: Travers, O’Brien, Keane, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Iroegbunam, Garner, McNeil, Alcaraz, Dibling, Barry.

Varamenn: King, Azonu, Mykolenko, Patterson, Gueye, Ndiaye, Dewsbury-Hall, Grealish, Beto.

Sem sagt, helling af breytingum frá síðasta leik. Til að byrja með verður Pickford alveg hvíldur og það eru þrír miðverðir í byrjunarliði Everton — en enginn vinstri bakvörður, þó að tveir vinstri bakverðir séu á bekknum. Ætli O’Brien verði ekki spilað úr stöðu aftur, nú í vinstri bakverði? Nema Garner verði í vinstri bakverði og kannski Coleman verði notaður framar á vellinum? Kemur í ljós.

Restin líklega hefðbundin, nema hvað Tyler Dibling fær sitt fyrsta start fyrir Everton og það verða því líklega þríeykið, McNeil, Alcaraz, Dibling, sem verða fyrir aftan Barry, fremsta mann.

Wolves gera nokkrar breytingar á byrjunarliði sínu frá leiknum gegn Everton fyrr á tímabilinu, en þeir skipta einnig um markvörð og þrír aðrir koma inn í liðið sem léku ekki gegn Everton (Krejčí, Doherty og Strand Larsen). Tveir í byrjunarliðinu spiluðu allan síðasta leik gegn Everton (S. Bueno og Munetsi) og fjórir byrjuðu leikinn hann en var svo skipt út af (Hugo Bueno, André, Hwang Hee-Chan, og Arias). Það er því ljóst að fleiri byrjunarliðsleikmenn Wolves halda sinni stöðu í byrjunarliðinu en raunin er hjá Everton, og í raun má líta svo á sem sóknarmaðurinn Strand Larsen hefði byrjað leikinn gegn Everton ef hann hefði ekki verið meiddur (eða að reyna að þvinga í gegn sölu).

Wolves menn byrjuðu betur í leiknum en fjöruðu nokkuð fljótt út og Everton virtist hafa góð tök á leiknum eftir það. Fyrsta færið á 18. mínútu og það fékk Tyler Dibling, þegar hann komst inn fyrir hægra megin, en setti boltann framhjá marki.

Næsta færi Everton var algjört dauðafæri og það kom eftir langt innkast frá hægri á 26. mínútu. Keane náði þá fríum skalla á mark af stuttu færi og náði að setja boltann upp í samskeytin hægra megin en markvörður varði glæsilega í horn.

En það voru Wolves menn sem komust yfir, gegn gangi leiksins, þegar þeir náðu loks skoti á mark, frá vinstri inni í teig, sem Travers varði vel en frákastið fór til hægri á leikmann Wolves sem náði skoti, sem fór í Keane og inn. Wolves komnir í 1-0 forystu, frekar óverðskuldað.

Einhver hálffæri litu dagsins ljós í kjölfarið en ekkert til að tala um.

1-0 í hálfleik og þó að tölfræðin sýndi að Wolves hefðu verið meira með boltann þá fengu þeir ekkert dauðafæri á móti einu frá Everton. Maður hefði sjálfur kannski sagt að bæði lið hefðu fengið eitt dauðafæri, en markið þeirra var reyndar „deflection“ mark, kannski spilar það inn í tölfræðina.

Tvær breytingar í hálfleik, Barry og Dewsbury-Hall inn á fyrir Beto og Alcaraz.

Ekki mikið að frétta í upphafi seinni hálfleiks og Moyes fékk nóg. Setti Ndiaye og Grealish inn á fyrir Dibling og McNeil á 59. mínútu.

Grealish skapaði flott færi fyrir O’Brien með hárri sendingu frá vinstri yfir á fjærstöng þar sem O’Brien var mættur, reyndar með varnarmann í sér, en náði að stýra boltanum á mark, en alltof máttlaust.

Grealish var næstum búinn að fá víti á 70. mínútu þegar hann var klipptur niður, eftir að vera kominn framhjá varnarmanni, en brotið átti sér stað rétt utan vítateigs vinstra megin. Garner tók aukaspyrnuna og setti boltann í slána. Pínulítið svoleiðis dagur, hugsaði maður.

Garner næstur með flott skot á mark innan teigs, niðri í hægra hornið en markvörður varði glæsilega. En pressa Everton hélt áfram.

Coleman út af fyrir Mykolenko á 78. mínútu.

En Wolves menn skoruðu aftur, gegn gangi leiksins. Komust í skyndisókn og gerðu allt rétt. Svona er þetta bara stundum. 2-0 fyrir Wolves.

Keane átti geggjað flikk aftur á bak eftir horn, og náði að setja boltann á mark, en því miður beint á markvörð.

Það reyndist síðasta færi leiksins og Wolves sigruðu því í kvöld. Ekki beint verðskuldað, en svona er þetta. 

Sky Sports gefa ekki út einkunnir fyrir þennan leik en Garner líklega maður leiksins.

3 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    það að einhverjir örfáir fleiri leikmenn hafi verið í byrjunarliði úlfanna breytir engu fyrir mig, staðreyndin er sú að yfirlýsingar tarkowski um að áhersla verði lögð á að vinna bikara í ár eru holur hljómur þegar asni eins og moyes er við stjórnvölinn, sjáið í liverpool leiknum þar sem hann gerir eina breytingu og svo tvöfalda á 86. mín. Enda hefur hann ekki enn unnið á anfield sama hvaða lið hann hefur haft í höndunum og sama hvaða skítaliði liverpool hann hefur mætt. Hann er kannski rétti maðurinn til að rétta af skútu og tuttugu sinnum betri en Dyche en hann er mjög takmarkaður því miður

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Við erum aldrei að fara vinna þessa djöfulsins keppni er það?
    Góðu fréttirnar eru þær að við ættum ekki að þurfa að horfa upp á drasl eins og McNeil í byrjunarliðinu aftur, gjörsamlega gagnslaus leikmaður. Annars hefði maður átt að geta sagt sér það sjálfur þegar Tarkowski fór að blaðra um mikilvægi þess að fara langt, eða jafnvel vinna þessa keppni, að Everton færi ekki lengra. Það fer alltaf svoleiðis þegar þeir byrja að gaspra.
    Mér fannst Garner líklega okkar besti maður í kvöld og hann var óheppinn að skora ekki.
    Ndiaye og Grealish voru líflegir, svona til að byrja með, þegar þeir komu inn á en Wolves voru nokkuð fljótir að ná tökum á þeim. Iroegbunam var ekki góður og ég hefði frekar viljað sjá hann fara útaf í hálfleik en ekki Alcaraz í staðinn fyrir Dewsbury Hall, sem mér reyndar finnst frekar ofmetinn. Dibling heillaði mig akkúrat ekkert, en hann er ungur og reynslulítill og mun vonandi eiga betri leiki en í kvöld. Barry þarf fleiri leiki í byrjunarliðinu með Ndiaye, Grealish og væntanlega Dewsbury Hall fyrir aftan sig, ekki McNeil, Iroegbunam og Dibling. Ég skil ekki hvers vegna Coleman var í vinstri bakverðinum, er Aznou virkilega svona slakur að honum sé ekki treystandi? Og hefði þá ekki verið gáfulegra að hafa Mykolenko í byrjunarliðinu?
    Djöfull var þetta pirrandi!!! Og alveg týpískt Everton að leikmaður skori sitt fyrsta mark fyrir nýja félagið sitt gegn þeim og hinn drullinn sem skoraði, var að skora sitt annað mark fyrir Wolves, þið megið giska einu sinni gegn hverjum fyrsta markið var.
    West Ham næst, ætli það verði ekki fyrsti tapleikurinn á HD og Potter heldur starfinu.

  3. AriG skrifar:

    ÉG ætla vera mjög neikvæður núna. Finnst Barry algjört drasl hræðileg kaup. Dibling er greinilega ekki tilbúinn en örugglega efnilegur. Stórfurðulegt að leigja út Armstrong. Fannst heilt yfir Everton hræðilegir í þessum leik. Ættum að prófa Ndiaye spila sem fremsti sóknarmaður allavega prófa það. James Garner langbestur í leiknum. Vill að Ndiaye spili fremstur Alcarax fyrir aftan hann og hafa Grealish og Dibling á vængjunum. Gana og Garner fyrir aftan þá. Mykolenko sem vinstri bakvörður og hinir eins og áður.

Leave a Reply to Diddi