Everton – Man United 2-2 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Everton og Manchester United áttust við í kvöld í vináttuleik á Premier League Summer Series æfingamótinu, í Atalanta í Bandaríkjunum. Flautað var til leiks kl 21 að íslenskum tíma.

Mótherjar Everton í kvöld voru efstir í töflu mótsins með 6 stig eftir tvo leiki, en West Ham voru búnir að klára sinn þriðja leik þannig að vitað var að allt betra en 2-3ja marka tap United myndi þýða að þeir væru sigurvegarar mótsins. Ekki að úrslitin úr þessum leik/þessu móti skipti miklu máli — leikformið er það sem þetta snýst um og samkeppni um stöður í liðinu fyrir komandi tímabil.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Keane, O’Brien, Gana, Iroegbunam, Ndiaye, Alcaraz, Garner, Beto.

Varamenn: Travers, Tyrer, Aznou, Clarke, Onyango, Heath, Thomas, Armstrong, McNeil, Chermiti, Barry.

Fyrir leik sýnist mér þetta vera nokkuð hefðbundin uppstilling, með fjögurra manna varnalínu, Iroegbunam og Gana á miðjunni, og Beto frammi. N’Diaye byrjar líklega á vinstri kanti, og annað hvort Alcaraz eða Garner eru á hægri kanti, en hinn í holunni. En þá að leiknum…

Fyrsta færi leiksins kom á 5. mínútu þegar United náðu skyndisókn og Cunha var mættur fremstur inn í teig. Pickford kom vel út á móti og lokaði vel fyrir markið, þannig að Cunha reyndi að setja boltann framhjá honum, sem endaði með markspyrnu.

Everton svaraði með frábærri aukaspyrnu frá Garner, langt frá marki, sem markvörður United þurfti að hafa sig allan við til að slá til hliðar út í teig (hægra megin frá Everton séð). Boltinn fór hins vegar beint á O’Brien, hægra megin í teignum, sem var óvaldaður og náði föstu skoti á mark, en í stöngina og út. Þar hefði Everton átt að vera komið yfir í leiknun.

Everton náði hins vegar að setja boltann í netið á 15. mínútu eftir frábæra sendingu frá hægri kanti og frábært hlaup frá Beto, fyrir utan það að hann lagði af stað örlítið of snemma, þannig að þó hann næði góðri stjórn á boltanum — og komst auðveldlega framhjá markverði United — þá var markið sem hann skoraði dæmt af.

United menn voru stálheppnir þar í tvígang, og sú lukka hélt áfram yfir á hinn vallarhelminginn þegar þeir fengu vítaspyrnu, fyrir ósköp litlar sakir. Tarkowski rétt strauk með hendinni yfir bringuna á Amad, miðjumann United, sem kastaði sér niður með miklum tilþrifum og plataði dómarann, sem dæmdi víti. Ekkert VAR til að fara yfir ákvarðanir dómara og Bruno Fernandes skoraði örugglega úr vítaspyrnunni. 0-1 fyrir United, en þetta hefði aldrei verið vítaspyrna í úrvalsdeildinni. Eintómur farsi.

United náði svo þremur skotum á mark í sömu sókninni á 28. mínútu, en vörnin hélt vel. Pickford varði skot af löngu færi frá Fernandes, en boltinn barst til Mbuemo (eða var það Cunha?) sem átti tvö skot beint í fæturna á varnarmanni. Ekkert til að hafa of miklar áhyggjur af.

Everton náði svo að jafna á 40. mínútu eftir að Mykolenko stal boltanum af varnarmanni United með frábærri tæklingu rétt utan teigs hægra megin. Boltinn barst til Gana sem var fljótur að hugsa og sneri og náði að senda háan bolta á fjærstöng þar sem N’Diaye skoraði með viðstöðulausu skoti í hliðarnetið hægra megin. Staðan orðin jöfn, 1-1.

Everton fékk annað færi á 43. mínútu, pínu óvænt, þegar hár bolti barst inn í teig þar sem O’Brien var í góðri stöðu, en hann hafði lítinn tíma til að athafna sig og skallaði rétt framhjá samskeytunum.

United reyndu skot af löngu færi rétt fyrir lok hálfleiks, en auðveldlega varið hjá Pickford.

1-1 í hálfleik, United með undirtökin en Everton með betri færi og væri yfir ef ekki hefði verið fyrir þetta djók víti.

Beto komst næstum einn á móti markverði strax í upphafi seinni hálfleiks, eftir sendingu inn í teig, þar sem hann náði að snúa af sér varnarmann. En rétt áður en hann náði að skjóta á mark náði varnarmaður United að blokkera skotið.

Örskömmu síðar kom frábær sending inn í teig þar sem Beto hefði verið réttstæður og komist einn á móti markverði ef Keane hefði bara látið boltann vera, í stað þess að taka hann niður og reyna skot. Oh well.

United menn vildu fá annað víti, eftir að boltinn virtist fara í hendina á Garner á 55. mínútu, en dómarinn ekki sammála. Sá ekki endursýninguna.

Á 58. mínútu komst Everton í fína sókn þar sem eiginlega voru of margir Everton menn í færi, því að Beto þvældist fyrir Alcaraz, sem líklega var í betra færi, og færið fór því forgörðum.

Fjórföld skipting hjá Moyes á 60. mínútu þegar Aznou kom inn á fyrir Tarkowski (Mykolenko þar með færður í miðvörðinn), Barry kom inn á fyrir Beto, Onyango fyrir Gana og McNeil fyrir Alcaraz.

United komust aftur yfir á 70. mínútu og það var út af einstaklingsframtaki hjá Mason Mount, sem fékk boltann inn í teig vinstra megin (frá þeim séð), sneri fljótt og reyndi skot í hliðarnetið sem fór inn. Erfitt fyrir Pickford að sjá skotið, því O’Brien var fyrir sjónlínunni. Staðan orðin 1-2 fyrir United. 

En Everton náði að jafna á 75. mínútu eftir skyndisókn. Oyango komst inn í teig og reyndi sendingu á McNeil, sem var nálægt D-inu. Mér sýndist McNeil reyna að framlengja boltann til vinstri á mann í dauðafæri, en varnarmaður United reyndi hreinsun, sem fór í samherja og þaðan rúllaði boltinn í netið. 2-2!

Lítið að frétta næstu 10 mínúturnar, þangað til Armstrong og Chermiti komu inn á fyrir Iroegbunam og Ndiaye á 84. mínútu.

United fengu fínt færi á 86. mínútu þegar Mount náði með stungu að koma Dogu (?) inn fyrir vörnina vinstra megin (frá þeim séð) og hann náði skoti. þó Mykolenko næði að trufla hann, en Pickford varði vel.

Ekki urðu færin fleiri. 2-2 jafntefli því niðurstaðan.

Næsti leikur gegn Roma á laugardaginn á heimavelli, eftir um tæpa viku.

Leave a Reply