Newcastle – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að lokaleiknum í úrvalsdeildinni tímabilið 2024/25 þegar Everton mætir Newcastle á þeirra heimavelli. Allir leikir umferðarinnar hefjast kl. 15 (eins og venja er) og þó að Everton hafi ekki að miklu að keppa þá geta úrslitin í þessum leik haft afgerandi áhrif á stöðu þeirra liða sem eru að keppast um sæti í Meistaradeildinni, því tvö lið geta hoppað yfir Newcastle í lokaumferðinni ef Newcastle gerir svo mikið sem jafntefli (eða tapar) í dag.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Keane, O’Brien, Young, Gana, Garner, Ndiaye, Alcaraz, Harrison, Beto.

Varamenn: Virginia, Begovic, Patterson, McNeil, Doucouré, Chermiti, Welch, Broja, Calvert-Lewin.

Margar breytingar í dag, því að Branthwaite er ekki í hóp og því kemur Keane inn á fyrir hann. Coleman meiddist í síðasta leik og því tekur Young stöðu hans í hægri bakverði. Jafnframt byrja Doucouré og McNeil á bekknum, en inn á í staðinn fyrir þá koma þeir Alcaraz og Harrison.

Heldur þunnskipaður bekkur en þar er að finna tvo markmenn og einn kjúkling. En á móti kemur að það er nóg af framsæknum mönnum á bekknum (og aðeins einn varnarmaður), þannig að hægt verður mögulega að reyna að breyta framgangi leiksins ef Everton lendir undir.

Það var erfitt að horfa upp á þetta fyrstu 10 mínúturnar, þar sem Newcastle voru fljótir að setja pressu á vörn Everton, sem komst varla inn á vallarhelming Newcastle. Því að um leið og leikmenn Everton unnu boltann af Newcastle reyndust þeir fljótfærir og mistækir í sendingum eða tóku rangar ákvarðanir, sem leiddi til þess að þeir misstu boltann alltaf strax aftur og pressan hélt áfram.

Fyrstu skotin á mark komu þó frá Everton. Fyrst Alcaraz, beint úr aukaspyrnu af löngu færi, en Pope, í marki Newcastle, varði. Það síðara frá Garner, nokkuð utan teigs, sem Pope varði einnig. 

Fyrsta skotið frá Newcastle á mark kom ekki fyrr en eftir eftir hálftíma leik en Pickford varði það skot vel. Frákastið fór til Isak sem reyndi skot í fyrstu snertingu, en Pickford varði aftur.

Gordon sýndi það stuttu síðar að hann er enn sami svindlarinn. Komst framhjá Young á vinstri kanti en í stað þess að hlaupa framhjá henti hann sér bara niður til að fiska aukaspyrnu. Þulirnir skoðuðu þetta í endursýningu og komust að því að þetta hefði ekki einu sinni verið snerting. Augljós dýfa og ætti að vera gult spjald, en nei. Dómarinn féll í gryfjuna og til að bæta gráu ofan á svart gaf hann Young gult spjald (uppfært: nei, hann fékk víst ekki gult, eins gott).

Á 35. mínútu náði Botman skalla að marki en skallinn í jörðina og upp aftur við slána, en Pickford þurfti bara að pota aðeins í boltann til að koma honum yfir slána.

Á 38. mínútu náði Everton að skapa frábært skallafæri þegar Mykolenko náði frábærri sendingu fyrir mark frá vinstri. Beto reyndi að skalla en boltinn of hár, en Alcaraz kom á hlaupinu fyrir aftan hann og náði hörkuskalla á mark, rétt undir slána, en Pope reddaði þeim aldeilis þar. Besta færi fyrri hálfleiks.

0-0 í hálfleik.

Gordon fór út af í hálfleik og það var ágætt að sjá. Good riddance.

Strax í upphafi leiks voru Newcastle menn heppnir að sleppa við að fá dæmda á sig hendi. En á 52. mínútu komst Everton í skyndisókn þar sem Alcaraz komst inn í teig og reyndi skot, lágt hægra megin, en aftur varði Pope meistaralega og hélt þeim inni í leiknum.

Taugatitringurinn jókst eftir því sem leið á og fréttir bárust af því að Chelsea væru komnir yfir í sínum leik. Þar með gat Villa tekið Meistaradeildarsætið af Newcastle, ef staðan Newcastle næðu ekki að sigra.

Og ástandið versnaði fyrir þá á 65. mínútu þegar Alcaraz skoraði fyrir Everton. Fín sókn sem byrjaði á því að Idrissa Gana Gueye komst inn í sendingu þegar Newcastle voru að byggja upp hraða sókn, og endað með hárri fyrirgjöf frá vinstri frá Mykolenko, beint á kollinn á Alcaraz sem setti boltann í hliðarnetið fjær með föstum skalla. 0-1 fyrir Everton og þar með Newcastle ekki lengur í Meistaradeildarsæti, eins og staðan var!

Isak reyndi skot af löngu færi á 67. mínútu en Pickford ekki í miklum erfiðleikum með það.

Tvöföld skipting hjá Everton á 76. mínútu: Ndiaye og Alcaraz út af fyrir McNeil og Doucouré.

Beto fékk fínt færi, einn á móti varnarmanni (og markmann) eftir mistök í vörn Newcastle en setti boltann framhjá marki.

Calvert-Lewin inn á fyrir Beto á 88. mínútu og á 94. mínútu fékk hann dauðafæri, komst einn á móti markverði, en lét Pope verja frá sér. Illa farið með gott færi.

7 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Mér finnst liðið hafa verið líflegt á köflum. Beto búinn að vera flottur og fer ekki í sumar. Pickford hefur veirð fínn eins og vanalega.

  2. Eirikur skrifar:

    DLC Getur ekki skorað. Enn með þessa tvo í miðverðinum héldum við hreinu. Vel gert Everton

  3. Orri skrifar:

    Þetta var vel gert hjá okkar mönnum ì dag við enduðum þetta tímabil með stæl.

  4. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Fín frammistaða og flott úrslit í dag hjá okkar mönnum.

    Þrír sigrar í röð er mjög góður endir á tímabilinu — ekki hægt að kvarta yfir því.

  5. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Góður endir eftir erfiða byrjun. Vonandi verðu allt upp á við á nýjum velli. Liðið stóð sig vel í dag.

  6. Odinn skrifar:

    48 stig hver hefði trúað þessu um áramótin

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Frábær sigur og frammistaða flestra leikmanna mjög góð. Alcaraz var frábær í dag og ég vona svo sannarlega að hann verði leikmaður Everton næstu árin.

Leave a Reply