
Mynd: Everton FC.
Everton átti leik við Wolves í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld og það taldist nýlunda að flautað var til leiks kl. 20:00 á laugardagskvöldi. Pínulítið skrýtið — en líklega er þetta eitthvað sem við þurfum að venjast.
Úlfarnir eru enn í fjögurra liða fallbaráttu við liðin sem komu upp á síðasta tímabili og það hjálpar þeim ekki að þeir misstu sinn besta mann, Cunha, í leikbann — með kjánalegum hætti, í þeirra síðasta leik.
Með sigri í kvöld gat Everton hoppað upp fyrir Tottenham, Manchester United og West Ham í töflunni, sem í gamla daga hefði þótt ansi gott, en eins undarlega og það virðist þá eru þessi lið nú í 13.-16. sæti. Það er eitthvað sem ég efast um að við þurfum að venjast. En með jafntefli fór liðið bara tímabundið upp fyrir Manchester United og Tottenham — sjáum hvernig úrslitin verða í kjölfarið.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Harrison, Doucouré, Lindström, Beto.
Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Patterson, Young, Coleman, Iroegbunam, Alcaraz, Chermiti.
Svo virðist sem það sé eitthvað að rofa til í meiðsladeildinni hjá Everton, því að enginn kjúklingur var á bekknum í kvöld. En á móti kom að bekkurinn var mjög varnarsinnaður, því að það voru tveir markverðir, fjórir varnarmenn (þar af þrír hægri bakverðir!) og aðeins Chermiti (sem er nýkominn úr meiðslum) sem gat komið inn á í framlínunni.
Fín byrjun á leiknum og gott að sjá ákefð frá Everton frá upphafi, eins og verið hefur í undanförnum leikjum.
Á 12. mínútu gerði Everton harða hríð að marki Wolves. Doucouré átti skot á rammann, af nokkuð stuttu færi, en blokkerað af varnarmanni í horn. Upp úr horninu náði Branthwaite skalla að marki en aftur varið í horn. Beto var svo næstum búinn að skora í kjölfarið þegar sending kom inn í teig frá hægri en hann, nálægt marki, náði ekki að stýra boltanum framhjá markverði. Wolves menn heppnir því þar hefði staðan átt að vera 0-1 fyrir Everton.
Á 14. mín fengu Wolves menn horn þar sem Wolves maður náði skalla á mark nálægt fjærstöng, en Pickford gerði vel að verja.
En eftir um hálftíma leik fóru hlutirnir að gerast, þegar Everton komst yfir. Lindström á hægri kanti sá að Harrison var á auðum sjó við teiginn vinstra megin, sendi langa sendingu þvert yfir völlinn og Harrison þakkaði fyrir sig með skoti á mark sem skilaði marki. Var pínu heppinn með hvernig boltinn breytti tvisvar um stefnu af varnarmanni, en endaði netinu! Staðan orðin 0-1 fyrir Everton!
Wolves reyndu að svara strax með tilraun á mark utan teigs, en boltinn fór rétt framhjá stöng hægra megin. Pickford þó líklega með þetta allan tímann, eins og þulirnir minntust á. En þeir náðu því miður að jafna á 38. mínútu, upp úr engu, að því er virðist. Frábær sending á milli miðvarða Everton, Branthwaite óheppinn að ná ekki að stoppa sendinguna en sóknarmaður þeirra kom á hlaupinu og potaði inn. 1-1.
Og þannig var það í hálfleik.
Það var nokkuð rólegt í færum framan af í seinni hálfleik og ekki mikið til að skrifa um þangað til að Moyes gerði tvöfalda skiptingu á 63. mínútu þegar Doucouré og Lindström fóru út af fyrir Alcaraz og Iroegbunam.
Það reyndist hins vegar erfiðara með hverri sekúndunni að horfa á leikinn því Wolves virtust stíga upp með hverri sókn og maður hélt að þeir myndu komast yfir á 70. mínútu, þegar þeir náðu stungu inn fyrir vörnina hægra megin, en Pickford varði skotið.
Everton liðið svaraði, hins vegar, með því að bruna strax í sókn — Alcaraz og Beto komust í sókn á móti tveimur varnarmönnum Wolves, þar sem Alcaraz náði að setja Beto einan á móti markverði, með flottri sendingu. En markvörður varði skotið, sem stefndi í hliðarnetið hægra megin. Wolves menn heppnir þar.
Everton átti svo fína sókn á 84. mínútu þar sem liðið náði vel saman í sendingum en sú sókn endaði með skoti, frá Alcaraz, á mark og markmörður varði.
Young inn á fyrir Garner á 91. mínútu en það breytti litlu. Þulirnir voru á því að Everton hefði gert vel í leiknum með því að stýra Wolves, með þeirra hættulegu kantmönnum, sífellt inn á miðsvæðið þar sem Everton gerði vel að slökkva neistann hjá þeim.
Því miður tókst Everton þó ekki að komast aftur yfir og jafntefli því niðurstaðan.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (7), Gueye (7), Garner (6), Lindstrom (7), Doucoure (6), Harrison (8), Beto (6). Varamenn: Alcaraz (7), Iroegbunam (6).
Maður leiksins að mati Sky Sports var Jack Harrison.
Okkur hefur nú ekki gengið neitt sérstaklega gegn Wolves á útivelli en vonandi breytist það núna, hef samt einhvern veginn á tilfinningunni að þetta verði enn eitt jafnteflið.
Held að okkar menn séu ennþá í sólinni á arabíuskaga. Þeir virka þungir og slappir, sérstaklega Beto. Vonandi kemur þetta í seinni hálfleik.
Wolves heppnir að vera ekki marki undir í hálfleik.
Everton verið lélegir í þessum leik
Þetta var líklega lélegasti leikur liðsins eftir að Moyes kom aftur og mér fannst Evertonliðið heppið að sleppa með jafntefli.
Veit ekki…
Mér fannst Everton fá þrjú af fjórum bestu færum leiksins…
Algjörlega sammála.