
Mynd: Everton FC.
Everton lék við Bournemouth í dag í fjórðu umferð ensku FA bikarkeppninnar og þetta reyndist einhver mesti stöngin-út dagur (bókstaflega) sem maður hefur séð lengi hjá okkar liði.
Uppstillingin: Pickford, Young, Branthwaite, Tarkowski, O’Brien, Gana, Garner, Ndiaye, Doucouré, Lindström, Beto.
Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Harrison, Alcaraz, Iroegbunam, Sherif, Dixon, Heath.
Það kom í ljós rétt fyrir leik að Mykolenko kenndi sér meins í kálfa. Ekki voru meiðslin talin alvarleg, en hann var hvíldur til öryggis og tók Young taki stöðu hans í vinstri bakverðinum.
Hvað bekkinn varðar þá innihélt hann enn á ný tvo markverði og nokkuð um kjúklinga (Sherif, Dixon og Heath) en þar var einnig að finna nýja leikmanninn, Alcaraz, sem við fengum að sjá koma inn á.
Fjörug byrjun á leiknum, annars — Bournemouth áttu skot að marki strax á upphafssekúndunum, en blokkerað af varnarmanni. Everton var örlítið lengur að komast inn í leikinn en áttu þó fyrstu tilraun sem rataði á rammann í leiknum, þegar fyrirgjöf frá Ndiaye breytti um stefnu af varnarmanni og Kepa þurfti að verja.
Á 19. mín reyndi hafsent Bournemouth að skýla boltanum út af (í markspyrnu) en Ndiaye stal bara af honum boltanum áður en kom að því að boltinn færi yfir endalínu. Brunaði svo í átt að marki, lék á varnarmann og reyndi skot af mjög stuttu færi undir Kepa í marki Bournemouth, en Kepa varði vel og hélt þeim í leiknum. Ndiaye óheppinn að skora ekki.
Þetta reyndist vendipunktur því að Bournemouth menn brunuðu í sókn og uppskáru víti þegar Tarkowski felldi sóknarmann þeirra. Engin snerting á boltann. Alltaf víti — en þulurinn vildi reyndar meina að það hefði verið rangstaða í aðdragandanum. Ekkert VAR í dag. Semenyo á punktinn og skoraði, þó að Pickford hefði giskað á rétt horn og náð að breyta stefnu boltans — en inn fór hann þó.
Tarkowski var aftur gjafmildur á 43. mínútu, þegar hann sendi slaka háa sendingu út úr teig, eftir útspark, beint á Bournemouth mann sem brunaði í sókn og reyndi skot. Eftir smá pinball inni í teig endaði boltinn hjá Jebbison sem komst einn á móti Pickford — sem varði — en boltinn fór aftur í Jebbison og hrökk þaðan inn í markið. Einhvern veginn tókst þeim að böðla boltanum í netið og staðan orðin 0-2 fyrir Bournemouth.
Mjög slakur fyrri hálfleikur hjá Everton, sérstaklega hjá Tarkowski, sem átti skelfilegan fyrri hálfleik, en Lindström og Beto voru einnig slakir.
Everton tveimur mörkum undir í hálfleik.
Engin breyting á liðunum í hálfleik en allt annað að sjá til Everton, allavega eftir að Harrison og Alcaraz var skipt inn á fyrir Lindström og Doucouré á 65. mínútu. Mun meira með boltann og beittari.
Eitt af fyrstu verkefnum Alcaraz var að fá aukaspyrnu rétt utan teigs Bournemouth á 71. mínútu. Hann tók hana sjálfur og setti boltann í stöngina, nálægt samskeytunum hægra megin. Það hefði aldeilis verið góð byrjun á hans ferli fyrir Everton að setja mark strax í sínum fyrsta leik! Bournemouth menn heppnir þar.
Iroegbunam kom inn á fyrir Garner á 74. mínútu en Everton hélt áfram að gera harða hríð að marki Bournemouth. Aðeins mínútu síðar átti Ndiaye skalla, eftir horn, þar sem boltinn fór yfir markvörð en var svo varinn með skalla af línu. Boltinn barst út úr teig og Harrison átti frábæra fyrirgjöf á fjærstöng þar sem O’Brien skallaði í stöng þar sem hann var alveg upp við mark. Bournemouth menn aftur heppnir þar.
Harrison átti svo, örskömmu síðar, fyrirgjöf sem sigldi í gegnum teiginn og endaði í innanverðri stöng og út aftur. Enn á ný Bournemouth voru heppnir. Þriðja stangarskot Everton í seinni hálfleik.
Iroegbunam fékk ákjósanlegt færi innan teigs á 80. mínútu en setti boltann yfir slána. Bournemouth menn svöruðu með skoti innan teigs sem Pickford varði vel. Frákastið fór hins vegar út í teig og Bournemouth maður þrumaði að marki en blokkerað af varnarmanni.
Keane kom inn á fyrir Gueye á 84. mínútu og strax í kjölfarið reyndi Iroegbunam skot innan teigs, en rétt yfir slána.
Kluivert fékk síðasta færi leiksins eftir skyndisókn, en setti boltann yfir mark þegar hann var kominn einn á móti Pickford.
Og þar við sat. 0-2 tap Everton staðreynd. Nú er bara að svara þessu tapi með hörku frammistöðu á miðvikudaginn, gegn Liverpool á Goodison Park.
Missti af fyrri hálfleik en sá meirihlutann af seinni.
Everton grátlega óheppnir að ná ekki að skora mark eða jafnvel jafna.