Everton – Leicester 4-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 6 stiga leik við lið í botnslagnum, sem Everton virðist vera smám saman vera að mjakast úr. Því að í dag mætir Leicester í heimsókn á Goodison Park kl. 15:00. Þetta er leikur sem hvorugt lið má við því að tapa en með sigri gæti Everton slitið sig svolítið frá þessum neðstu fjórum liðum (9 stiga forskot og ættu leik til góða).

Þær afar slæmu fréttir bárust fyrir leik að Mangala, sem fór út af meiddur í sigurleiknum gegn Brighton, sé með slitin krossbönd. Mann grunar að hann hafi því leikið sinn síðasta leik fyrir Everton, þar sem hann er lánsmaður frá Lyon til loka tímabils. Einnig kom í ljós að Calvert-Lewin verður frá í nokkrar vikur vegna tognunar og að McNeil gæti þurft aðgerð á hné vegna sinna meiðsla, sem hann hefur verið að glíma við undanfarið. Broja meiddist einnig fyrir nokkru, eins og við þekkjum, en Everton á í samningaviðræðum við Chelsea um að fá annan lánsmann í staðinn.

Þetta er ekki alveg staðan sem maður vildi sjá, en sem betur fer er þó enn smá tími (tveir dagar í viðbót) fyrir Everton að bregðast við.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, N’Diaye, Doucouré, Lindström, Beto.

Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Patterson, Young, Harrison, Iroegbunam, Armstrong, Sherif.

Sem sagt, Garner kemur inn í liðið fyrir Mangala en þetta er fyrsti leikur Garner eftir nokkurn tíma frá vegna meiðsla. Beto kemur svo inn á fyrir Calvert-Lewin. Maður fær blendnar tilfinningar þegar maður horfir á bekkinn, því að aftur eru tveir (!) markverðir á bekknum og enginn framherji með reynslu. Góðu fréttirnar eru þó þær að Iroegbunam virðist vera búinn að jafna sig af sínum meiðslum.

Restin af leikskýrslu kemur síðar. Endilega látið í ykkur heyra í kommentakerfinu!

7 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    1-0 eftir 10 sekúndur, allt annað en sigur í dag er bara slys

  2. Eirikur skrifar:

    Garner geggjaður og Beto komin með tvö og mögulega átt að fá víti. Þetta er eitthvað betra enn Dyche bauð upp á.

  3. AriG skrifar:

    Algjörlega sammála Eiríki James Garner stórkostlegur stoðsendingar hans eru ótrúlegar. Frábær fyrri hálfleikur. Beto loksins vaknaður. Þurfum bara einn sóknarmann nauðsynlega ef Beto meiðist. Einn vængmann og varnarmann þá er þetta komið. Allt annað lið núna. Stefnum á 10 sætið í vor.

  4. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Ég náði ekki að klára þetta komment fyrir leik, en ég ætlaði að benda á að staðan (fyrir Leicester leikinn) en betri nú en staðan var á sama tíma á síðasta tímabili.

    Því eftir 22. umferðir á síðasta tímabili, var staðan á botninum svona:

    16. sæti með 20 stig, -04 í markatölu: Everton
    17. sæti með 20 stig, -13 í markatölu: Nottingham Forest
    18. sæti með 20 stig, -10 í markatölu: Luton Town
    19. sæti með 12 stig, -23 í markatölu: Burnley
    20. sæti með 10 stig, -35 í markatölu: Sheff Utd

    Í ár:

    16. sæti með 23 stig, -09 í markatölu: Everton
    17. sæti með 17 stig, -23 í markatölu: Leicester
    18. sæti með 16 stig, -20 í markatölu: Wolves
    19. sæti með 16 stig, -26 í markatölu: Ipswich
    20. sæti með 06 stig, -37 í markatölu: Southampton

    Þannig að: Baráttan á síðasta tímabili var hvaða lið í 16.-18. sæti myndi fara niður með neðstu tveimur liðunum. Í ár er þetta meira spurning um hvaða tvö lið af þremur í sætum 17.-19. falla með Southampton.

    Sigurinn í dag skerpir enn frekar á þessu, þar sem Everton er komið með 26 sig og snarbætti markatöluna. Vel gert.

  5. Diddi skrifar:

    Orri vinur minn var á leiknum í dag og hringdi í mig áðan. Ég sagði honum að vera bara áfram í Evertonborg fram á vor

Leave a Reply