Everton – Aston Villa 0-1

Mynd: (Moyes á sínum yngri árum) Everton FC.

Klukkan 19:30 hefst fyrsti leikur Everton á tímabilinu undir stjórn David Moyes, sem hefur — eins og okkur ætti að vera vel kunnugt um — tekið við stjórn Everton í annað skipti, eftir 11 ára tímabil frá 2002-2013.

Við bjóðum Moyes hjartanlega velkominn aftur til starfa og óskum honum velgengni. Um leið þökkum við Dyche og hans hjálparsveinum kærlega fyrir unnin störf. Þeim tókst hið ómögulega, að taka við Everton liðinu í bullandi fallbaráttu og þrátt fyrir -80M punda net spend undanfarið og 8 stiga frádrátt að auki tókst honum að — ekki bara bjarga liðinu frá falli — heldur (ef ekki hefði komið til stigafrádráttar) næstum stýra því upp í efri hluta deildar með 48 stig.

Og nú ætla ég að nördast aðeins… Ef við ímyndum okkur að leikir síðasta tímabils hefðu verið spilaðir í sömu röð og leikirnir á þessu tímabili (svo þetta sé samanburðarhæft) myndi stigasöfnunin líka svona út (fjólubláa línan er síðasta tímabil, bláa er núverandi):

Bleika (lárétta) línan sýnir þann stigafjölda sem var nóg í fyrra til að falla ekki og gula (lárétta) línan eru þau 38 stig sem hefur eiginlega alltaf nægt. Oft er miðað við 40 stig, en frá stofnun úrvalsdeildar hefur það verið meira í líkingu við 38 stig.

Það er margt sem vekur athygli mína í þessu grafi hér að ofan:

  • Byrjunin á tímabilinu var afleit, eins og við þekkjum (fimm leikja tap). Þetta átti líklega stóran þátt í að þetta endaði hjá Dyche eins og raun ber vitni.
  • Að öðru leyti er eiginlega ekki mikill munur á tímabilinu núna og í fyrra, því liðið er að safna stigum nokkurn veginn jafn hratt og á síðasta tímabili, þegar liðið endaði með 48 stig (að undanskildu 8 stiga frádrátt, vegna dómsins).
  • Fólk talar um að gengð hafi dalað undanfarið, en Everton fékk nákvæmlega jafn mörg stig úr síðustu sjö leikjum og liðið fékk úr þeim sömu sjö leikjum á síðasta tímabili.

Sem sagt, fyrir utan slöku byrjunina, þá er sáralítill munur á þessu tímabili og því síðasta, sem segir manni að Moyes tekur við miklu betra búi en ef hann hefði tekið við af Benitez eða Lampard.

En nú fara í hönd nýir tímar. Vonandi getur Moyes tekið næsta skrefið með liðinu. Áfram Everton!

En þá að leiknum við Aston Villa…

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, Mangala, Ndiaye, Doucouré, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Begovic, O’Brien, Keane, Patterson, Armstrong, Sherif, Lindström, Beto.

Sem sagt, Moyes gerir ekki miklar breytingar á uppstillingu, sem er skiljanlegt þar sem hann hefur nánast engan tíma fengið með liðinu. Ein breyting á uppstillingunni frá síðasta úrvalsdeildarleik og hún er líklega tilkomin vegna meiðsla Broja. Þannig að þetta er hefðbundin fjögurra manna varnarlína, Gana og Mangala á miðsvæðinu, Ndiaye og Harrison á köntunum. Doucouré líklega í holunni og Calvert-Lewin frammi.

Missti af upphafsmínútunum — tafir á því að útsendingin byrjaði á Ölveri. En Everton hefði með réttu átt að lenda undir á 16. mínútu þegar Young ætlaði að reyna sendingu aftur á Pickford, en sendi beint á Ollie Watkins, sóknarmann Villa, sem þakkaði kærlega fyrir sig og brunaði einn á móti Pickford, sem kom út á móti. En sem betur fer brenndi hann af — setti boltann framhjá fjærstöng hægra megin.

Everton svaraði á 27. mínútu þegar Mykolenko fann Calvert-Lewin sem setti boltann rétt framhjá stönginni hægra megin.

Á 38. mínútu fékk Everton aftur fínt tækifæri þegar Mykolenko (sýndist mér) náði lágri sendingu utarlega inn í teig. Fann þar Doucouré, sem reyndi að pota boltanum framhjá Martinez í markinu, en hann sá við honum og varði.

Villa menn náðu skoti á mark, innan teigs stuttu síðar, en beint á Pickford. Ekki mikil hætta.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fengu bæði lið algjört dauðafæri. Fyrst Calvert-Lewin, sem náði að taka vel á móti sendingu nálægt marki og ná skoti á marki, sem fór framhjá markverði en var bjargað á línu af varnarmanni.

Hinum megin náðu Villa menn skoti á marki, utarlega í teig en rétt framhjá stöng vinstra megin.

0-0 í hállfeik.

Engar breytingar á liðunum í hálfleik.

Hvorugu liðinu tókst að skapa sér almennilega færi fyrr en á 51. mínútu, þegar Villa menn náðu að brjóta ísinn með marki frá Watkins. Hann fékk frábæra stungusendingu fram, var réttstæður og komst einn á móti markverði. Brást ekki bogalistin, því miður. 0-1 fyrir Villa.

Lindström kom svo inn á fyrir Harrison á 59. mínútu.

Á 62. mínútu hefði Everton getað fengið tvö víti, í sömu sókninni, eftir horn, þegar Calvert-Lewin var snúinn niður í teignum og Lindström var hrint þegar hann ætlaði að skalla að marki. Ekkert dæmt. Mér leiðist að þurfa alltaf þrjú brot í sömu sókn til að fá viti. Lykilatriði í leiknum.

Lítið að frétta frá báðum liðum þangað til á 81. mínútu, þegar Beto og O’Brien komu inn á fyrir Young og Doucouré.

Mangala átti svo fínt skot að marki, rétt innan teigs, á 92. mínútu, sem breytti stefnu af varnarmanni, en markvörður Villa varði vel.

Í uppbótartíma fékk Calvert-Lewin frábært færi, eftir snögga sókn Everton í kjölfarið á aukaspyrnu, en hann hitti ekki markið. Þar fór sénsinn til að jafna.

0-1 því niðurstaðan.

Frammistaðan ekki slæm, svo sem, og þó nokkuð um góð færi, en niðurstaðan vonbrigði.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Young (5), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Mangala (7), Gueye (6), Harrison (4), Doucoure (5), Ndiaye (6), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Lindstrom (6).


4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þori ekki að spá fyrir um þetta en yrði sáttur með stig.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með val Moyes á byrjunarliðinu. Harrison er ennþá drasl, amk á hægri kantinum og Doucoure getur ekki sent boltann á samherja þó líf hans lægi við. Hins vegar verð ég að segja að spilamennskan er mun betri en maður á að venjast og Everton meira að segja að skapa færi. Reyndar bara hálffæri, en færi samt.

  3. Gestur skrifar:

    Mér finnst þetta sama súpan, enda hafði Moyes ekki mikinn tíma til að breyta um hráefni

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hér er spurning.
    Leikmönnum hvaða liðs má hrinda, án þess að víti sé dæmt, þegar þeir eru í þann mund að skalla boltann í opið mark?
    Svar. Leikmönnum Everton.
    Annars var mun betra að sjá liðið í þessum leik heldur en síðustu sex mánuði eða svo sem gerir það algjörlega óskiljanlegt að Dyche hafi ekki verið rekinn fyrr.
    Veit ekki hvern ég myndi velja mann leiksins, amk ekki DCL, hann getur ekki skorað og má mín vegna fara, held að ég muni ekki sakna hans.

Leave a Reply