Everton – Wolves 4-0

Mynd: Everton FC.

Í kvöld var komið að hálfgerðum bikarúrslitaleik þegar Everton tók á móti Wolves í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Úlfarnir voru aðeins einu sæti frá okkar mönnum og það sæti er örlagasæti, eins og við vitum, þannig að okkar menn máttu illa við því að missa þá upp fyrir sig. Sérstaklega í ljósi þess stóra verkefnis sem framundan er hjá Everton fram að áramótum.

Ritari var úti á lífinu á meðan á leik stóð, en ekki tókst að ná varamanni til að skrifa skýrsluna þannig að þið verðið að láta ykkur nægja eftirfarandi glefsur, sem ritari hripaði niður af bar í miðbænum. Og það með símanum, skal taka fram, enda engin tölva við höndina en Halli formaður Everton klúbbsins var ritara til halds og trausts og ekki hægt að hugsa sér betri sessunaut.

Ritari missti af blábyrjun en fyrri hálfleikur leit vel út! Ákefð, einbeiting… Satt best að segja væri ég væri til í að horfa á þennan leik aftur í fullri lengd á morgun. 

Ashley Young átti flott mark úr aukaspyrnu á 10. mínútu og Tarkowski setti svo mark eftir aukaspyrnu en það var því miður dæmit af. Sem betur fer kom það ekki að sök, því Mangala setti mark með glæsilegu langskoti á 33. mínútu. 

Við gætum ekki beðið um meira en tveggja marka forskot í hálfleik, eins og staðan er í dag en frammistaðan í fyrri hálfleik virkaði flott. 2-0 í hálfleik fyrir Everton!

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Bráðskemmtilegur – og úrslitin ekki síðri. Ákefð og fjör. Wolves menn voru afar gjafmildir í seinni hálfleik – gáfu tvö sjálfsmörk, sem við þökkum þeim kærlega fyrir.

Og ég verð að segja að það er óþolandi samt að vera alltaf svo mörgum mörkum yfir að maður er farinn að fylgjast með úrslitum annarra liða. Óþolandi, segi ég! 😀

4-0 sigur staðreynd og úrslitin í dag (eiginlega bara öll) eru jólaveisla fyrir okkur. Mjög gott veganesti fyrir restina af desember mánuði.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (8), Tarkowski (8), Branthwaite (7), Mykolenko (7), Mangala (8), Gana (7), McNeil (8), Doucoure (7), Ndiaye (7), Calvert-Lewin (8). Varamenn: Harrison (5), Broja (7), Lindstrom (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports var Ashley Young.

Einkunnir Wolves voru, hreint út sagt, skelfilegar. Þrír í byrjunarliðinu með 6 en restin í fjörkum og fimmum (þar með talið varamenn).

Við Halli (formaður) biðjum annars kærlega að heilsa öllum lesendum! 🙂

7 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Ætti að vera 3-0

  2. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Maður er hálfhræddur við 2 – 0 í hálfleik miðað við fyrri reynslu. Hefði náttúrlega átt að vera 3 – 0. Vonandi verða okkar menn jafn sprækir í seinni hálfleik.

  3. Tryggvi Már Ingvarsson skrifar:

    Góða skemmtun út á lífinu – ekki á hverjum degi sem maður er í sigurliðinu 💙

  4. Eirikur skrifar:

    Hefði alveg verið til í þessa markaveislu þegar við vorum á vellinu í Everton klúbbnum. Gerðum 6 góð mörk í þessum leik sem öll áttu að standa. Nú er bara að sjá hvað gerist í hádeginu á morgun 🙂

  5. Eirikur skrifar:

    Búið að fresta leiknum í dag. Svekjandi fyrir þá sem voru búnir að gera sér ferð á leikinn. Spurning hvenær verður hægt að koma honum fyrir. Hvað halda menn er þetta okkur í hag?

    • Finnur skrifar:

      Tja… Everton U21 reið á vaðið og vann Liverpool 0-2 á dögunum (og það á Anfield). Kvennalið Everton fylgdi þar á eftir með 1-0 sigri á Liverpool á Goodison Park stuttu síðar og Everton U18 náðu þriðja sigrinum á Liverpool í tímabilinu (3-2 á Goodison Park) fyrir aðeins örfáum dögum.

      Ég var því eiginlega pínu svekktur að leiknum skyldi vera frestað…

      En ég er alls ekki viss um að það henti þeim betur að reyna að skjóta þessum derby leik inn í sín plön einhvers tímann síðar á tímabilinu…

  6. Finnur skrifar:

    Náði loks að horfa á alla útsendinguna af þessum leik, í boði Everton FC:
    https://www.evertonfc.com/videos/479085cf-b65c-4991-9f9e-7e49c723ff4b

    Everton mun betra liðið í fyrri hálfleik og átti fyllilega skilið að vera tveimur mörkum. Wolves náðu til að byrja með að skapa sér færi, yfirleitt gegn gangi leiksins, en voru bitlausir fyrir framan markið og það sem rataði á markið var Pickford með.

    Fín frammistaða hjá okkar mönnum og Ashley Young (úr aukaspyrnu) og Mangala (með langskoti) skoruðu báðir með glæsileg mörk. Ég var hins vegar ósammála þulinum sem sagði að mark Tarkowski hefði átt að standa — því Mangala var klárlega rangstæður og braut þar á varnarmanni Úlfanna, sem hafði mikil áhrif á færið sem Tarkowski fékk.

    Seinni hálfleikur svipaður og sá fyrri — Calvert-Lewin náði að þvinga tvö sjálfsmörk út úr miðverðinum Craig Dawson hjá Úlfunum. Það fyrra eftir horn og góða pressu frá Calvert-Lewin. Það seinna eftir aukaspyrnu utan af velli, þar sem Dawson stýrði skoti frá Calvert-Lewin í eigið net. Grunar reyndar að boltinn hafi hvort eð er verið á leiðinni í netið.

    Í millitíðinni skoraði Ndiaye svo mark sem var dæmt af þar sem Calvert-Lewin hoppaði upp í 50/50 bolta á móti markverði og var dæmdur brotlegur. Fannst það pínu harður dómur…

    Wolves áttu eitt stangarskot áður en þeir fengu á sig fjórða markið, en Everton var líklegra liðið til að bæta við fimmta markinu en Úlfarnir að minnka muninn (enda Harrison með tvö ákjósanleg færi undir lokin).

    Everton einfaldlega nokkrum kílómetrum á undan Wolves og verðugir sigurvegarar.