Mynd: Everton FC.
Everton á leik við Newcastle í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar en flautað verður til leiks á Goodison Park kl. 16:30. Everton tók fjögur stig af Newcastle á síðasta tímabili — unnu 3-0 heima og gerðu 1-1 jafntefli úti en með sigri í dag getur Everton komist upp að hlið Manchester United — sem er pínu spes.
Uppstillingin: Pickford, Young, Keane, Tarkowski (fyrirliði), Garner, Mangala, Doucouré, Ndiaye, McNeil, Harrison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginia, Begovic, Dixon, O’Brien, Gana, Iroegbunam, Armstrong, Lindström, Beto.
Vandræðin í bakvarðastöðunum halda áfram en hvorki Coleman, Patterson eða Mykolenko eru í hóp. Einnig er Branthwaite fjarri góðu gamni, en það kom fram fyrir leik að hann og Mykolenko eru að glíma við minniháttar tognum. Tveir markverðir og tveir kjúklingar á bekknum…
Nokkuð fjörugur fyrri hálfleikur. Jafnræði með liðunum framan af — Newcastle menn hins vegar nokkuð mistækir og gáfu boltann oft á leikmenn Everton. Það minnkaði eftir því sem leið á og manni fannst Newcastle enda fyrri hálfleikinn sterkar.Á 10. mínútu fengu Newcastle menn horn og sendu háan bolta á nærstöng (vinstri) sem spilafíkillinn Tonali framlengdi, með skalla, yfir á fjærstöng og þar var Guimarães hjá Newcastle á auðum sjó og náði skoti á mark. Boltinn framhjá Pickford en Ndiaye bjargaði með ótrúlegum hætti á línu.
Fyrsta færi Everton kom á 15. mínútu þegar Young sendi frábæra sendingu fram á Calvert-Lewin, sem komst í skotstöðu af nokkuð löngu færi en skaut beint á markvörð.
Newcastle menn svöruðu tveimur mínútum síðar með skoti frá Murphy, en skotið arfaslakt og beint á Pickford.
Doucouré kom svo boltanum í netið á 19. mínútu. Gerði vel í að stinga sér inn fyrir vörnina, fékk háan bolta sem hann skallaði í netið, en markið dæmt af, réttilega, vegna rangstöðu. Lagði örlítið of snemma af stað. Kannski eins gott, því hefðin á tímabilinu sýnir að Everton vinnur ekki leik nema lenda undir fyrst.
Á 31. mínútu fengu Newcastle menn víti þegar Tarkowski tók Tonali í smá glímu inni í teig. Algjörlega glórulaust hjá Tarkowski. Báðir reyndar að toga í hvorn annan og boltinn víðsfjarri en dómarinn samt sendur í skjáinn og dæmdi víti. Skunkurinn Gordon fór á punktinn og gerðist skúrkur, því Pickford giskaði á rétt horn og varði vítið! Allt vitlaust á pöllunum!
Newcastle menn færðu sig hins vegar upp á skaftið eftir vítið og dómineruðu boltann. Náðu hins vegar ekki að nýta sér það til að skapa almennilegt færi.
0-0 í hálfleik.
Engin breyting á liðunum í hálfleik en Gueye kom inn á fyrir Mangala á 56. mínútu.
Seinni hálfleikur rólegur framan af og engin færi fyrr en á 65. mínútu þegar Newcastle menn komust inn í teig hægra megin og reyndu sendingu fyrir mark. Boltinn breytti stefnu af Keane og fór þaðan á rammann og Pickford þurfti að hafa sig allan við að verja.
Aðeins tveimur mínútum síðar komst Calvert-Lewin í dauðafæri nálægt marki, náði skoti á mark en Pope varði meistaralega. Boltinn barst til Calvert-Lewin aftur og manni sýndist Everton eiga að fá víti því Calvert-Lewin var sparkaður niður í teig þegar hann var að gera sig tilbúinn til að hamra boltann í netið, í dauðafæri alveg upp við mark. Endursýning sýndi hins vegar að varnarmaður náði að koma löppinni fyrir boltann og það var Calvert-Lewin sem sparkaði í hann. Newcastle menn heppnir þar. Uppfært eftir leik: Einn vinkill, sem VAR greinilega skoðaði ekki, sýndi að Burns stígur á ökklann á Calvert-Lewin rétt áður en Calvert-Lewin sparkaði í hann — sem sýnir að þetta var púra víti. Newcastle menn STÁLheppnir þar.
Á 82. mínútu fékk Anthony Gordon dauðafæri. Fékk stungu inn fyrir og komst einn á móti markverði en lúðraði boltanum yfir markið. Það var klárlega svona Nelson-„haha!“-moment, eins og í Simpsons þáttunum.
Everton svaraði stuttu síðar með háum bolta frá Ndiaye, frá hægri, yfir á McNeil sem hlóð í skot í fyrsti snertingu en hitti boltann afar illa nokkuð nálægt marki.
Á 90. mínútu reyndi Joalinton skot af nokkuð löngu færi og setti boltann langt framhjá. Það var síðasta færi Newcastle og Garner átti síðasta orðið — reyndi skot beint úr aukaspyrnu á síðustu sekúndunum en hátt yfir.
0-0 jafntefli því niðurstaðan og Everton uppskar því eitt stig, sem skrifast líklega aðallega á skipulagða varnarvinnu. Sóknin hefði mátt vera líflegri og ekki laust við að maður sá svolítið eftir öllum boltunum sem töpuðust við það að reyna langar sendingar fram á Calvert-Lewin. Hefði kannski mátt öðru hverju byggja upp hraða sókn með spili. En, við grátum ekki stig á móti liði sem hefði komist í 4. sæti með sigri.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Young (7), Tarkowski (6), Keane (7), Garner (7), Mangala (6), Doucoure (7), Harrison (6), McNeil (6), Ndiaye (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Gueye (6), Iroegbunam (6).
Leikmenn Newcastle fengu 6 á línuna, fyrir utan 7 á markvörðinn (Pope), 7 á einn varnarmann (Burn) og 7 á einn miðjumann (Guimaraes).
Maður leiksins, að mati Sky Sports var Jordan Pickford.
Áfram Everton!
Glæsilegt mark hjá Everton/Doucoure en því miður er það rangstaða… en vonandi er þetta hvatning fyrir liðið… 🙂
Hvað var Tarky að gera?
heiladauður harðhaus
…….held það geti bara enginn svarað því.
VEL GERT Pickford!
Þarna bjargaðir þú Tarkowski!
Fínt að fá stig — það gulltryggir það að Anthony Gordon komi til með að sofa illa í nótt.
Ég er ekki fúll að everton geri jafntefli, notið færin sem liðið fær
Ég var að sjá á X að risinn Burns í liði Newcastle stígur ofan á hægri fótinn á DCL þegar DCL er að reyna að skjóta með þeim vinstri. -Pjúra víti.
https://x.com/NilSatisNews/status/1842639949453037896
Ég var fullviss um að þetta væri víti þegar ég sá þetta í beinni og skipti um skoðun þegar ég sá þetta í endursýningu. En þetta sjónarhorn tekur af allan vafa. Þetta er víti — allan liðlangan daginn.
…já sama segi ég eftir að hafa séð atvikið frá þessu sjónarhorni.
Pickford og Keane í liði vikunnar að mati BBC:
https://www.bbc.com/sport/football/articles/cj31vy2433xo