Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Newcastle 0-0 - Everton.is

Everton – Newcastle 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Newcastle í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar en flautað verður til leiks á Goodison Park kl. 16:30. Everton tók fjögur stig af Newcastle á síðasta tímabili — unnu 3-0 heima og gerðu 1-1 jafntefli úti en með sigri í dag getur Everton komist upp að hlið Manchester United — sem er pínu spes.

Uppstillingin: Pickford, Young, Keane, Tarkowski (fyrirliði), Garner, Mangala, Doucouré, Ndiaye, McNeil, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Begovic, Dixon, O’Brien, Gana, Iroegbunam, Armstrong, Lindström, Beto.

Vandræðin í bakvarðastöðunum halda áfram en hvorki Coleman, Patterson eða Mykolenko eru í hóp. Einnig er Branthwaite fjarri góðu gamni, en það kom fram fyrir leik að hann og Mykolenko eru að glíma við minniháttar tognum. Tveir markverðir og tveir kjúklingar á bekknum…

Nokkuð fjörugur fyrri hálfleikur. Jafnræði með liðunum framan af — Newcastle menn hins vegar nokkuð mistækir og gáfu boltann oft á leikmenn Everton. Það minnkaði eftir því sem leið á og manni fannst Newcastle enda fyrri hálfleikinn sterkar.Á 10. mínútu fengu Newcastle menn horn og sendu háan bolta á nærstöng (vinstri) sem spilafíkillinn Tonali framlengdi, með skalla, yfir á fjærstöng og þar var Guimarães hjá Newcastle á auðum sjó og náði skoti á mark. Boltinn framhjá Pickford en Ndiaye bjargaði með ótrúlegum hætti á línu.

Fyrsta færi Everton kom á 15. mínútu þegar Young sendi frábæra sendingu fram á Calvert-Lewin, sem komst í skotstöðu af nokkuð löngu færi en skaut beint á markvörð.

Newcastle menn svöruðu tveimur mínútum síðar með skoti frá Murphy, en skotið arfaslakt og beint á Pickford.

Doucouré kom svo boltanum í netið á 19. mínútu. Gerði vel í að stinga sér inn fyrir vörnina, fékk háan bolta sem hann skallaði í netið, en markið dæmt af, réttilega, vegna rangstöðu. Lagði örlítið of snemma af stað. Kannski eins gott, því hefðin á tímabilinu sýnir að Everton vinnur ekki leik nema lenda undir fyrst.

Á 31. mínútu fengu Newcastle menn víti þegar Tarkowski tók Tonali í smá glímu inni í teig. Algjörlega glórulaust hjá Tarkowski. Báðir reyndar að toga í hvorn annan og boltinn víðsfjarri en dómarinn samt sendur í skjáinn og dæmdi víti. Skunkurinn Gordon fór á punktinn og gerðist skúrkur, því Pickford giskaði á rétt horn og varði vítið! Allt vitlaust á pöllunum!

Newcastle menn færðu sig hins vegar upp á skaftið eftir vítið og dómineruðu boltann. Náðu hins vegar ekki að nýta sér það til að skapa almennilegt færi.

0-0 í hálfleik.

Engin breyting á liðunum í hálfleik en Gueye kom inn á fyrir Mangala á 56. mínútu.

Seinni hálfleikur rólegur framan af og engin færi fyrr en á 65. mínútu þegar Newcastle menn komust inn í teig hægra megin og reyndu sendingu fyrir mark. Boltinn breytti stefnu af Keane og fór þaðan á rammann og Pickford þurfti að hafa sig allan við að verja.

Aðeins tveimur mínútum síðar komst Calvert-Lewin í dauðafæri nálægt marki, náði skoti á mark en Pope varði meistaralega. Boltinn barst til Calvert-Lewin aftur og manni sýndist Everton eiga að fá víti því Calvert-Lewin var sparkaður niður í teig þegar hann var að gera sig tilbúinn til að hamra boltann í netið, í dauðafæri alveg upp við mark. Endursýning sýndi hins vegar að varnarmaður náði að koma löppinni fyrir boltann og það var Calvert-Lewin sem sparkaði í hann. Newcastle menn heppnir þar. Uppfært eftir leik: Einn vinkill, sem VAR greinilega skoðaði ekki, sýndi að Burns stígur á ökklann á Calvert-Lewin rétt áður en Calvert-Lewin sparkaði í hann — sem sýnir að þetta var púra víti. Newcastle menn STÁLheppnir þar.

Á 82. mínútu fékk Anthony Gordon dauðafæri. Fékk stungu inn fyrir og komst einn á móti markverði en lúðraði boltanum yfir markið. Það var klárlega svona Nelson-„haha!“-moment, eins og í Simpsons þáttunum.

Everton svaraði stuttu síðar með háum bolta frá Ndiaye, frá hægri, yfir á McNeil sem hlóð í skot í fyrsti snertingu en hitti boltann afar illa nokkuð nálægt marki.

Á 90. mínútu reyndi Joalinton skot af nokkuð löngu færi og setti boltann langt framhjá. Það var síðasta færi Newcastle og Garner átti síðasta orðið — reyndi skot beint úr aukaspyrnu á síðustu sekúndunum en hátt yfir.

0-0 jafntefli því niðurstaðan og Everton uppskar því eitt stig, sem skrifast líklega aðallega á skipulagða varnarvinnu. Sóknin hefði mátt vera líflegri og ekki laust við að maður sá svolítið eftir öllum boltunum sem töpuðust við það að reyna langar sendingar fram á Calvert-Lewin. Hefði kannski mátt öðru hverju byggja upp hraða sókn með spili. En, við grátum ekki stig á móti liði sem hefði komist í 4. sæti með sigri. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Young (7), Tarkowski (6), Keane (7), Garner (7), Mangala (6), Doucoure (7), Harrison (6), McNeil (6), Ndiaye (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Gueye (6), Iroegbunam (6).

Leikmenn Newcastle fengu 6 á línuna, fyrir utan 7 á markvörðinn (Pope), 7 á einn varnarmann (Burn) og 7 á einn miðjumann (Guimaraes).

Maður leiksins, að mati Sky Sports var Jordan Pickford.

12 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Áfram Everton!

  2. Ari S skrifar:

    Glæsilegt mark hjá Everton/Doucoure en því miður er það rangstaða… en vonandi er þetta hvatning fyrir liðið… 🙂

  3. Eirikur skrifar:

    Hvað var Tarky að gera?

  4. Ari S skrifar:

    VEL GERT Pickford!

    Þarna bjargaðir þú Tarkowski!

  5. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Fínt að fá stig — það gulltryggir það að Anthony Gordon komi til með að sofa illa í nótt.

  6. Óðinn skrifar:

    Ég er ekki fúll að everton geri jafntefli, notið færin sem liðið fær

    • Ari S skrifar:

      Ég var að sjá á X að risinn Burns í liði Newcastle stígur ofan á hægri fótinn á DCL þegar DCL er að reyna að skjóta með þeim vinstri. -Pjúra víti.

      https://x.com/NilSatisNews/status/1842639949453037896

      • Finnur Thorarinsson skrifar:

        Ég var fullviss um að þetta væri víti þegar ég sá þetta í beinni og skipti um skoðun þegar ég sá þetta í endursýningu. En þetta sjónarhorn tekur af allan vafa. Þetta er víti — allan liðlangan daginn.

  7. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Pickford og Keane í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/articles/cj31vy2433xo

Leave a Reply