Everton – Bournemouth 2-3

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að öðrum heimaleik tímabilsins, gegn Bournemouth kl 14:00, en þeir eru sem stendur sigurlausir í 13. sæti og þetta er tilvalið tækifæri fyrir Everton til að spyrna sér upp á við í töflunni. Þess má geta að Everton vann Bournemouth 3-0 á heimavelli á síðasta tímabili — og hafa þar með unnið 6 af síðustu 7 á Goodison Park gegn þeim. Maður hefur því góða tilfinningu fyrir þessum leik.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Keane, Coleman (fyrirliði), Gana, Iroegbunam, McNeil, Ndiaye, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, O’Brien, Young, Dixon, Garner, Armstrong, Doucouré, Lindström, Beto.

Nokkuð hefðbundin uppstilling, fyrir utan það að Ndiaye fær séns í byrjunarliðinu á kostnað Doucouré, en Ndiaye átti frábæran leik í bikarsigrinum á dögunum.

Fínt að sjá til liðsins í upphafi leiks. Ákefðin greinilega mikil og staðráðnir að bæta upp fyrir úrslitin í síðasta leik. 

Á 8. mínútu átti Gueye frábæra sendingu á Harrison, fram völlinn og inn í teig hægra megin. Harrison átti svo fína lága sendingu fyrir mark en Calvert-Lewin var ekki kominn nógu framarlega til að pota inn. Í kjölfarið stigu áhorfendur á fætur á 9. mínútu til að minnast fyrrum framherja Everton, Kevin Campbell, sem lést nýverið. 

Stuttu síðar fékk Calvert-Lewin skallafæri upp við fjærstöng eftir horn frá McNeil, en boltinn var kominn of nálægt endalínu og færið því orðið of þröngt og skallaði í hliðarnetið.

Everton setti góða pressu á mark Bournemouth upp úr 15. mínútu. Fyrst Iroegbunam, sem brunaði upp kantinn og inn í teig vinstra megin. Reyndi svo skot eða sendingu — köllum það skendingu — sem sigldi framhjá stönginni og sóknarmaður Everton náði að pikka upp. Sendi á Gueye sem kom aðvífandi en skotið frá honum yfir mark. Harrison átti svo skot af löngu færi utan teigs en framhjá marki.

Ndiaye að komast í dauðafæri vinstra megin inni í teig, eftir að hafa fengið stungusendingu í gegnum vörnina en varnarmaður Bournemouth rétt náði að skriðtækla boltann í horn. Ef hann hefði verið örlítið seinna hefði hann klippt niður Ndiaye og gefið víti.

Á 32. mínútu fékk Ndiaye svo dauðafæri eftir horn. Calvert-Lewin gerði vel að skalla boltann frá fjærstöng inn í teig aftur. Skallaði á Tarkowski upp við mark sem lagði boltnn fyrir Ndiaye og hann reyndi skot nálægt marki en varði með vinstri fæti, fékk boltann í hægri fót og var heppinn að missa hann ekki bara milli fóta. Kom þeim til bjargar þar, en þar hefði staðan átt að vera orðin 1-0.

McNeil átti svo skot af löngu færi, á 44. mínútu en beint á Keppa.

Hvorugu liðinu tókst því að skora í fyrri hálfleik en Everton voru mun líklegri, enda með tvö á markið og virtist skapa nóg af færum. Everton með tvöfalt fleiri snertingar í teig andstæðings en Bournemouth (21 vs 11) og eiginlega ekkert að frétta í sóknarleik Bournemouth — ekkert skot á markið. Þeir virkuðu eins og þeir hefði einfaldlega ekki mætti tilbúnir til leiks og áttu afar margar slakar sendingar sín á milli.

0-0 í hálfleik. 

Engin breyting á liðunum fyrir seinni hálfleik sem Everton byrjaði með látum, Iroegbunam þar að verki með skot á mark, sem var varið.

En mark Everton kom loks eftir 50 mínútna leik! Harrison sendi háan bolta inn í teig af hægri kanti sem Calvert-Lewin lagði fyrir samherja beint með kassanum. Sendi þar á Keane sem þrumaði inn framhjá Keppa. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton!!

Everton gekk á lagið og pressaði vel á Bournemouth í kjölfarið og náðu strax að vinna af þeim boltann og skapa þrýsting á vörn Bournemouth. Gueye náði skoti á mark en boltinn í jörðina sem tók kraftinn úr skotinu.

Á 54. mínútu fékk Coleman algjört dauðafæri. Harrison setti Coleman inn fyrir vörnina hægra megin í teig, með frábærri stungusendingu, og Coleman sólaði varnarmann og komst einn upp að marki. Þurfti bara að setja boltann framhjá Keppa en Keppa náði einhvern veginn með ótrúlegum hætti að slengja hendi í boltann og setja yfir markið. Coleman líklega að reyna að setja hann í þaknetið innanvert — hefði betur reynt lágt skot, en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Þarna hefði staðan átt að vera 2-0! 

En það kom ekki að sök því Everton skoraði strax í kjölfarið. Tveir leikmenn Everton (Gueye og Ndiaye) voru við vítateigsjaðarinn, skiptust á að leita að skotfæri, sem kom ekki. En boltinn barst svo til McNeil, sem sá hlaup hjá Calvert-Lewin í gegnum vörnina. Ein stutt frábær stungusending setti Calvert-Lewin inn fyrir, einan á móti Keppa sem kom út á móti og reyndi að kasta sér á boltann, en Calvert-Lewin setti boltann yfir hann. 2-0 fyrir Everton!!

McNeil var næstum búinn að endurtaka leikinn stuttu síðar þegar þeir komust þrír Everton leikmenn á tvo varnarmenn en stoðsendingin frá McNeil aðeins of langt frá Calvert-Lewin og varnarmaður náði að hreinsa áður en Harrison komst í boltann, en hann var fyrir opnu marki. Þarna hefði staðan geta verið orðin 3-0 (4-0 í raun, ef færið hjá Coleman er tekið með).

Upp úr þessu var allt annað að sjá til Everton sem uxu mjög og öðluðust mikið sjálfstraust. Héldu áfram að skapa færi og hver sóknin á fætur annarri buldi á vörn Bournemouth sem höfðu ekkert fram að færa. Ndiaye komst í skotfæri innan teigs á 65. mínútu og náði skotinu. Boltinn fór í fótinn á varnarmanni sem gerði Keppa auðveldara fyrir að verja. Ndiaye komst svo í flott færi eftir skyndisókn — gerði allt gríðarlega vel nema að klára færið. Hefði átt að skora þar. Harrison átti svo skot af löngu færi stuttu síðar, en beint á Keppa. 

Það virkaði eins og það væri bara eitt lið á vellinum og Bournemouth réði ekkert við Ndiaye, sem fór illa með bakvörð þeirra og náði stórhættulegri fyrirgjöf fyrir mark. Calvert-Lewin var reiðubúinn að pota inn en varnarmaður hreinsaði í horn á síðustu stundu. Tarkowski átti svo skalla úr horninu en í utanvert hliðarnetið.

Stjóri Bournemouth stokkaði upp í liði sínu með fimmtu skiptingunni á 76. mínútu. Helmingurinn af útleikmönnunum sem byrjuðu leikinn þar með komnir út af. 

Iroegbunam átti svo skot af löngu færi á 80. mínútu en skotið auðvelt fyrir Keppa.

Boruenouth náðu sína fyrsta skoti á mark á 81. mínútu og Pickford þurfti að hafa smá fyrir því að verja, en gerði það þó. Á 83. mínútu tók Dyche Ndiaye út af og setti Doucouré inn á og Goodison Park stóð á fætur fyrir honum og heiðruðu með lófataki. Frábær leikur frá honum! Á sama tíma kom Beto einnig inn á fyrir Calvert-Lewin.

En við þetta hrundi leikur Everton gjörsamlega. Ég á varla orð til að lýsa þessu, þetta var svo ótrúlegt. Á 87. mínútu var eins og einhver hefði veifað töfrasprota yfir liði Bournemouth og það lifnaði yfir þeim. Liðið sem gat ekki jack shit fram að því (afsakið frönskuna) og höfðu varla náð tveimur sendingum saman. En allt í einu náðu þeir marki, þvert gegn gangi leiksins, þegar þeir fóru tveir á Coleman og náðu að komast framhjá honum og senda fyrir. Mykolenko náði ekki að hreinsa og sóknarmaður Bournemouth komst upp að fjærstöng og minnkaði muninn. Staðan orðin 2-1 og þannig var það við lok venjulegs leiktíma.

6 mínútum var hins vegar bætt við og það fór verulega um mann við að sjá það því að það var eins og bensíntankurinn væri búinn hjá Everton. Bournemouth í nær stanslausri sókn allan uppbótartímann og Pickford kom okkar mönnum nokkrum sinnum til bjargar. Hann gat þó ekki komið vörnum við þegar þeir náðu marki á 91. mínútu og svo öðru, að sjálfsögðu rétt fyrir lokaflautið. Lokaniðurstaðan 2-3.

Þetta var algjört rán um hábjartan dag, það er ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi. Ég er gjörsamlega dofinn eftir þessar lokamínútur. Enn á ný sannast að liðið verður að klára færin sín, því að það er ekki einu sinni hægt að treysta á 2-0 forystu.

Einkunnir Sky Sports: Everton: Pickford (6), Coleman (5), Tarkowski (5), Keane (6), Mykolenko (5), Gueye (6), Iroegbunam (7), Harrison (8), McNeil (8), Ndiaye (8), Calvert-Lewin (8). Varamenn: Beto (6), Doucoure (5).

Það segir ákveðna sögu að — ekki bara var maður leiksins að mati Sky Sports Ndiaye (sem átti það aldeilis skilið) heldur voru fjórir (fjórir!) leikmenn í byrjunarliði Everton sem fengu 8 í einkunn (sem er pínu óvenjulegt fyrir taplið) en aðeins einn í byrjunarliði Bournemouth náði upp í 8.

20 Athugasemdir

  1. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Hefði alveg verið til í að mæta þeim áður en þeir fengu dýrasta markvörð í heimi að láni…

    Vonandi kemur þetta í seinni.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Er hissa á Dyche, bjóst alls ekki við að Ndiaye fengi að byrja, það kom mér virkilega á óvart. Og af því að Dyche er taktískur snillingur þá smellir hann honum auðvitað á vinstri kantinn og McNeil í tíuna. Þetta er alger snilld hjá honum, eða hvað? Nei.
    Besta staða Ndiaye er í tíunni þar sem hann getur verið meira í boltanum og gerir meira gagn, og McNeil er skárri á vinstri kantinum, þó það sé nú svo sem ekki mikið varið í hann þar, en hann er svo einfættur að það er aumkunarvert að horfa upp á hann í þessari stöðu.
    Mér finnst ég hafa séð þennan leik áður. Everton nær því að skora og hafa skapað sér fleiri skotfæri, alveg eins og gegn Fulham og Wolves í fyrra, þetta hlýtur þá að fara 0-1 fyrir Bournemouth.

  3. Ari S skrifar:

    Það er komin 78. mínúta í leiknum og ennþá engin skipting hjá okkur.

    • Ari S skrifar:

      Bara martröð. Alltaf sama sagan. Til hvers að vera að gera þessar heiðursskiptingar? Þetta hrundi þegar Ndiaje var tekinn útaf. Iroegbunam frábær eins og vanalega. En martröð staðreyn. Ég kvíði fyrir þessu tímabili.

  4. Gestur skrifar:

    Þetta er ekki í lagi

  5. Orri skrifar:

    Það er bara ekki hægt að bjóða okkur uppá svona.

  6. Eirikur skrifar:

    Bakverðirnir okkar voru virkilega slakir síðustu 10 mínúturnar. Ótrúlegt að slaka svona á í restina enn sínir að sjálfstraustið er lítið í liðinu. Þetta voru skelfileg úrslit.

    • Ari S skrifar:

      Mykolenko var hræðilega lélegur. Átti þátt í öllum mörkunum sem við fengum á okkur.

  7. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Jæja, ágústmánuður loksins liðinn. Það eru einhver ár síðan Everton vann leik í ágúst. Nú getur tímabilið farið að hefjast.

  8. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Það var svakalegt að horfa á síðustu 10 mínúturnar. Hvernig getur liðið hrunið svona í lokin eftir að vera búnir að vera nokkuð góðir miðað við síðustu leiki.
    Botnsætið nokkuð öruggt og þar hjálpar markatalan til..

  9. Þór skrifar:

    Reka trúðinn – plís!

    • Ari S skrifar:

      Hann verður ekki rekinn fyrr en við fáum nýjan eiganda. Vonandi gengur það sem fyrst. Þetta tap skrifast fyrst ig fremst á Dyche að mínu mati.

  10. AriG skrifar:

    Kíkti loksins í Ölver og ætlaði að sjá leikinn en það var ekki hægt einhver bilun hjá síminn sport. Ég var mjög pirraður að missa af leiknum en brjálaður að missa 2:0 í 2:3 á ca 10 mín. Þetta á ekki að vera hægt. Það er greinilega eitthvað mikið að hjá Everton sérstaklega varnarleikurinn. Kannski best að geta ekki séð leikinn. Efast um að ég nenni að fara aðra fýluferð í ölver og horfa á þetta hræðilega lið tapa öllum leikjum hingað til.

  11. Einar Gunnar skrifar:

    Það voru komnar fram brosviprur í andlitið, en nei, ekki í boði í dag. Þetta verður mjög erfiður vetur.

  12. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Skiptingin sem réði úrslitum í dag var Doucoure inn fyrir Ndiaye. Bournemouth voru skíthræddir við hann og um leið og hann var farinn, þá þorðu þeir loksins að fara að sækja eitthvað af ráði.
    Skiptingin sem Dyche hefði átt að gera í staðinn var Garner inn fyrir Iroegbunam, það sást vel að hann var orðinn þreyttur eftir 65 til 70 mínútur.

    DYCHE OUT!!

  13. Eirikur skrifar:

    Ég er enn í áfalli eftir seinustu mínútur leiksins.
    Ég veit satt að segja ekki hvernig við eigum að koma til baka frá þessum úrslitum ef að Dyche ætlar að setja alla ábyrgð á liðið. Held að við verðum að láta hann fara, enn ég hef engan áhuga á Moyse sem væri lítil framför. Enn guð hvað þetta verður langt og erfitt tímabil.

  14. Ari S skrifar:

    Ég væri til í að hafa Thomas Tuchel sem stjóra.Ætla bara að segja þetta einu sinni.

  15. Þorri skrifar:

    Vonandi kominn á réttan Stað sko mér finnst að okkar stjóri mætti bara að reka og það ekki seina en strax og fá gamla stjóra mois ef ekki á fara í vaskinn