Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Dómsúrskurðurinn (seinni helmingur) - Everton.is

Dómsúrskurðurinn (seinni helmingur)

Mynd: Everton FC.

Þessi grein er seinni hluti greinar sem birtist í gær um dómsmál úrvalsdeildarinnar gegn Everton en lesa má fyrri hlutann hér

Við höldum áfram þar sem frá var horfið í síðustu grein, og það voru fjögur atriði sem Everton tilgreindi, sem mögulegar ástæður þess að sýna ætti linkind í þessu máli — enda snerist málið aðeins um 10-20M punda tap umfram það sem var leyfilegt. Atriðin eru hér að neðan, ásamt svari úrvalsdeildarinnar við hverjum lið:

1) Everton vildi meina að ekki megi telja kostnað vegna nýs vallar með í PSR útreikningum.

Þessu hafnaði úrvalsdeildin, þar sem ekki mátti bókfæra upphæðina (sem rifist var um), fyrr en deiliskipulag lá fyrir.

2) Markaðsvirði leikmanna minnkaði um tugi milljóna vegna Covid.

Þessu hafnaði úrvalsdeildin þar sem þetta féll ekki innan þess ramma sem úrvalsdeildin leyfði sem tap vegna Covid.

3) „Leikmaður X“ var ekki lögsóttur vegna brota á samningi (10M punda tap).

Þessu hafnaði úrvalsdeildin „on grounds of principle and uncertainty“.

4) Upphæðin sem Everton borgaði til úrvalsdeildarinnar (5.8M) rann allavega að hluta til ungliðastarfs (sem á að vera undanskilið PSR).

Þetta síðasta atriði fannst manni kannski lítilvægast af þessu öllu, enda upphæðin lægri en allt hitt, og því kannski viðbúið að úrvalsdeildin myndi hafna þessu. Það kom svo í ljós að upphæðin fer að mestu í að borga lífeyri til fyrrum leikmanna og aðeins brot af því fer til ungliðastarfs.

En hér er þó rétt að staldra við og spyrja sig: Þegar kemur að PSR — af hverju er í lagi að undanskilja a) kostnað við nýjan völl (ef deiliskipulag er afgreitt nógu snemma), b) rekstur á kvennaliði, c) uppbyggingu æfingasvæðis og d) stuðning við ungliða-starfsemina — en það má ekki undanskilja frá PSR greiðslur sem renna til lífeyris fyrri leikmanna? Hvernig stendur á því? Er það ekki akkúrat kostnaður sem væri í anda PSR að undanskilja?

Breytt vörn

Á þessum tímapunkti gafst Everton upp á að reyna að sannfæra úrvalsdeildina, gekkst undir það að hafa brotið á PSR reglunum og breytti vörn sinni í það að lágmarka upphæðina, enda búið að slá út af borðinu allar tilraunir til að sýna fram á að kostnaðurinn væri undir mörkum. 

Everton vildi enn draga frá vaxtagreiðslur af láni vegna vallarins og undanskilja upphæðina sem rann til úrvalsdeildarinnar vegna ungliðastarfsins. Skv. þeim útreikningum Everton ætti tapið því ekki að nema tæpum 20M punda, eins og úrvalsdeildin hélt fram, heldur um 7.9M punda.

Einnig benti Everton á nokkur atriði sem ætti að líta til þegar refsing væri ákvörðuð:

– Það var Covid heimsfaraldur í gangi á þessum tíma.

– Stríð geisaði í Úkraínu sem þvingaði félagið til að rifta 200M punda viðskiptasamningum (sem hefði gefið 10M per tímabil). 

– Ekki var hægt að sjá fyrir þau fjárhagsleg áföll sem fylgdu Covid og stríðinu í Úkraínu, sem hefði leitt til þess að skynsamleg fjárhagsleg plön hefðu fokið út um gluggann.

– Nota hefði mátt 9.3M punda í vaxtagjöld við nýja völlinn til lækka, á efnahagsreikningi, upphæð taps (fyrir skatt).

– Everton lögsótti ekki „leikmann X“, sem áður var nefndur.

– Everton hafði frumkvæði af því að koma gögnum til úrvalsdeildarinnar við rannsókn málsins og átti í náinni samvinnu við úrvalsdeildina til að leiða málið til lykta. 

– Félagið herti sultarólina verulega eftir þetta, eins og mjög svo magrir félagaskiptagluggar í kjölfarið sýndu (og það þegar liðið var í bullandi fallbaráttu og þurfti sárlega liðsstyrk).

– Everton hafði ekki farið yfir strikið viljandi til að reyna að skapa sér ólöglegt samkeppnisforskot á önnur lið, þannig að refsing ætti ekki að felast í stigafrádrætti.

 – Everton hafi fram að þessu (og þaðan í frá) reynt að sníða sér stakk eftir vexti.

Úrvalsdeildin sagðist ekki hafa tíma til að svara öllu þessu og vísaði í að réttarhöld væru nærri, en flestum af þessum atriðum var þó hafnað. Til dæmis var Covid röksemdafærslunni hafnað með þeim orðum að þegar væri nú þegar búið að gefa út tilslakanir vegna faraldursins. Einnig væri ekki hægt að sýna fram á jákvæða útkomu fyrir Everton, t.d. vegna mögulegrar lögsóknar á hendur „leikmanni X“. En það stakk mann svolítið að lesa svarið við samvinnu Everton við málsókninni…

„The Premier League accepts that in principle cooperation could be a mitigating factor but rejects the suggestion that the facts of this case can constitute mitigation“.

Enginn afsláttur þar.

Nefndin kveður upp úrskurð

Í 9. kafla tekur umfjöllun óháðu Nefndarinnar við, sem hafði það hlutverk að meta málsatvik og ákveða refsingu. 

Strax er tilgreind afstaða Nefndarinnar gagnvart upphæðarinnar sem rann til ungliðastarfs, annars vegar, og hins vegar vaxtagreiðslna vegna láns til byggingar nýs leikvangs. Önnur atriði voru afgreidd seinna.

En, í báðum þessum liðum, sýnist manni sem Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að Everton gæti ekki notað þessi tvö atriði sem eftir voru sér til framfæris og Everton því talið hafa verið 19.5M punda í mínus, en ekki 7.9M eins og haldið var fram. Ég treysti mér ekki til að reyna að útskýra þá niðurstöðu, enda auðvelt að tapa þræðinum í lagamáli og tæknilegum útfærslum á t.d. lánum, sem notaðar voru sem forsendur.

Svo tók við umfjöllun um refsingu. Lögmenn úrvalsdeildarinnar vildu meina að til aukinnar refsingar ætti að koma þar sem Everton hefði haldið áfram að eyða um efni fram, þrátt fyrir að PSR viðvörunarljósin væru blikkandi. Nefndin hins vegar hafnaði þeirri röksemdafærslu úrvalsdeildarinnar og sagði að Everton hefði hvorki viljandi verið að brjóta reglurnar né reynt að skapa sér samkeppnisforskot (e. sporting advantage) með þessu. Sú niðurstaða gæti verið mikilvæg í framtíðar-dómsmálum Leicester og Burnley (og fleiri liða) sem vilja bætur frá Everton vegna þessa máls. 

Lögmenn úrvalsdeildarinnar héldu því fram að til refsihækkunar ætti að koma sú staðreynd að ekki hafi allur sannleikurinn komið fram í útskýringum á lánastrúktúr Everton og að sumt hafi verið rangt. Sérstaklega tóku þeir reyndar einnig fram að ekki væri verið að saka Everton um óheiðarleika í því máli. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar frá Everton væru að einhverju leyti rangar, en að Everton hefði ekki viljandi reynt að skauta framhjá reglunum. Bent var hins vegar á að ábyrgð Everton, til að koma upplýsingunum réttum til skila, væri afar rík og mikilvæg, og væri þetta því þáttur sem myndi auka „sekt Everton“ (án þess þó að nefna hvort það hafi komið beint til refsihækkunar).

Lögmenn úrvalsdeildarinnar vildu meina að Everton hafi ekki sagt rétt frá um tilraunir til sölu á „leikmanni Y“ sumarið 2020 og að hann hafi því í raun ekki verið til sölu, þrátt fyrir að Everton hafi haldið því fram. Bentu á að eitthvert skjal um ‘leikmenn til sölu’ innihélt ekki nafn hans á einhverjum tímapunkti og svo var samningur hans framlengdur, þrátt fyrir að samningurinn væri ekki að klárast. Það átti að vera sönnun þess að hann hafi ekki verið til sölu. Nefndin hins vegar komst að þeirri niðurstöðu að úrvalsdeildin hefði ekki náð að sanna sitt mál þar og kom það því ekki til refsihækkunar. Þess má geta að Everton gerði tvo samninga við leikmenn sumarið 2020, Michael Keane og Anthony Gordon. 

Lögmenn Everton bentu á að hægt hefði verið að undanskilja vaxtagreiðslur vegna lána sem fóru í uppbyggingu nýs leikvangs eftir að deiliskipulag lá fyrir. Jafnframt hafi tilgangur þess kostnaðar verið eitthvað sem úrvalsdeildin hefur litið á sem mjög jákvæða fjárfestingu og hvatt önnur lið til að leggja í. Nefndin hafnaði þessu þó og það kom því ekki til refsilækkunar.

Lögmenn Everton bentu á að félagið hafi í kjölfarið sýnt mikla viðleitni til að taka á hallarekstri, en þrátt fyrir mótmæli lögmanna úrvalsdeildarinnar tók Nefndin þau rök Everton til greina. 

„Leikmaður X“ var næstur á lista (þessi sem var handtekinn), en lögmenn Everton tiltóku að Everton hefði, með réttu, átt að lögsækja leikmanninn fyrir brot á samningi en hafi ekki gert það, og hafi það verið fyrst og fremst vegna andlegrar velferðar leikmannsins. Nefndin sló það út af borðinu þar sem það hafi verið ákvörðun Everton að lögsækja ekki og að engin sönnunargögn væru til um sálarástand leikmannsins þegar sú ákvörðun var tekin. Einnig var óljóst hvort dómurinn í svoleiðis máli (gegn leikmanninum) hefði fallið með Everton og (ef svo) hvort leikmaðurinn hefði átt möguleika á að greiða þá fjármuni til baka. Þetta voru því ekki fjármunir „í hendi“ og því ekki tekið til greina. Ég sé ekki betur en að Nefndin hafi litið þetta svipuðum augum og hver önnur meiðsli sem geta endað feril leikmanns, og komi því ekki til refsilækkunar.

Hvað viðskiptasamninga við USM um nafnarétt á nýja vellinum varðaði, var Everton í viðræðum við Usmanov um að flýta greiðslum, sem hefði annars átt að koma til tímabilið 2025/6. Þær samningaviðræður voru langt komnar, en þegar að innrás Rússa kom þurfti Everton að slíta þeim viðræðum. Engin gögn lágu fyrir dómi um líkindi þess að peningarnir væru á leiðinni og útkoman úr þeim viðræðum hlyti því að vera óljós. Þess vegna var það ekki tekið til greina. Jafnframt voru rök Everton um verðbólgu vegna stríðsins ekki tekin gild, þar sem þetta væri bara venjulegur hlutur sem fyrirtæki þurfa að glíma við í rekstri sínum.

Skv. dómsúrskurðinum var greinilega mikið rætt um áhrif Covid á leikmannamarkaðinn og sérfræðingar kallaðir til. Marcel Brands hafði útbúið skjal sem innihélt lista af leikmönnum sem áætlað var að hægt væri að selja fyrir allt að 80M punda. Sérfræðingur bar vitni og sýndi fram á að reynslan sýndi að stærsti markaður Everton, þegar kom að sölu leikmanna, væri önnur lið í ensku úrvalsdeildinni. Úrvalsdeildin hélt því þar af leiðandi fram að Covid hefði haft lítil áhrif þegar kom að getu Everton til að selja leikmenn. Markaðsöfl, frekar en Covid, réðu því að erfitt hafi verið að selja leikmenn og Nefndin tók þau rök til greina. Einnig var tiltekið að tilslakanir PSR vegna Covid hafi nú þegar verið ætlað að vinna upp covid tap, þannig að ekki væri hægt að tvítelja það tap.

Hvað samvinnu við úrvalsdeildina í rannsókn málsins varðar, þá viðurkenndi Nefndin að Everton hefði unnið náið með úrvalsdeildinni. Nefndin leit hins vegar svo á að ekki sé hægt að nota það sem rök fyrir refsilækkun, þar sem það hafi verið Everton í hag að vinna með úrvalsdeildinni. Þetta verður að teljast afar sérkennileg afstaða — því þetta gildir um alla sem eru samvinnuþýðir í að leysa eigin sakamál (alltaf er verið að vonast eftir mildari dómi, ekki satt?). En einnig var tilgreint, sem kannski skiptir meira máli, að upplýsingarnar sem komu frá Everton um lánamálin voru ekki alltaf réttar, þó ekki hafi verið um að ræða tilraun til að afvegaleiða, og því var þetta ekki metið til refsilækkunar.

Refsing ákvörðuð

Úrvalsdeildin krafðist stigafrádráttar. Everton sagði að sekt væri eðlilegri niðurstaða og til vara: bann við leikmannaskiptum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að sekt myndi hafa lítið að segja þar sem Moshiri væri auðugur bakhjarl og því væri stigafrádráttur eina rétta refsingin. Engin formúla væri til í dag, sem ákvarði réttan fjölda stiga til að draga frá, þannig að það kæmi í hlut Nefndarinnar að ákveða refsinguna.

Í grunninn til mat Nefndin það svo að vandræði Everton við að halda sig innan PSR rammans væru fyrst og fremst vegna leikmannakaupa en ekki vegna byggingu nýs vallars. Dómsúrskurði líkur með því að tilgreina 10 stiga refsingu sem kemur strax til gildis. 

Lokaorð

Það er erfitt að neita því að ábyrgðin liggur hjá Everton og að stærstum hluta er tapið vegna leikmannakaupa, þó ekki sé hægt að líta framhjá því að rifist sé um hvernig ein stór upphæð vegna vallarins er bókfærð (og svo ófyrirséður kostnaður). Þetta varð þess valdandi að Everton endaði röngu megin við strikið og þegar reyna átti að grípa í handbremsuna og rétta fjárhaginn af voru aðstæður orðnar þannig að það var illmögulegt.  Það sem varð liðinu að falli var of mikil bjartsýni í aðdraganda drepsóttar og heimskreppu (vegna stríðsins í Úkraínu). Ætlunin var alltaf að spenna bogann svolítið hátt og fjárfesta í liðinu en röð atvika ollu því að bókhaldið fór aðeins yfir þegar að kom að PSR reglunum. 

Það sem situr samt eftir í manni er að vissulega er um að ræða mistök sem felast í því hvenær kostnaður er bókfærður. En þetta er kostnaður sem úrvalsdeildin ætti að líta á sem jákvæðan kostnað og því hæpið að knésetja klúbb út af þessu. Nýr völlur er jú góður fyrir bæði Everton sem og úrvalsdeildina sjálfa og er til eftirbreytni fyrir aðra klúbba. 

Að lokum má geta þess að PSR reglunum var meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að klúbbar eyddu um efni fram og enduðu í gjaldþroti.

Þessar reglum var alls ekki ætlað að hanka lið á einhverjum tæknifeilum í bókhaldi og senda þau í gjaldþrot. Fyrir utan það að refsingin fyrir að lýsa klúbbinn gjaldþrota hefði verið einu stigi minna en refsingin sem Everton fékk, sem segir ákveðna sögu.

1 athugasemd

  1. Ari S skrifar:

    Takk fyrir þetta Finnur. Þetta er mjög skrýtið allt saman.