Everton – Fulham 1-3

Mynd: Everton FC

Everton tekur á móti Fulham á Goodison Park í dag kl. 14:00 en þetta er fjórði síðasti heimaleikur Everton á tímabilinu.

Fulham menn komu upp úr Championship á síðasta tímabili og menn bjuggust við að þeim myndi ganga brösulega að ná 40 stigum og tryggja sér áframhaldandi veru í deildinni, en annað kom á daginn, því lengi vel virtust þeir vera með föst tök á Evrópusæti. En eitthvað gerðist hjá þeim þegar að þröskuldinum kom, 40 stigum, því þeir náðu 39 stigum og rákust svo á vegg. Þeir hafa ekki unnið leik í deild frá því um miðjan febrúar, en síðan þá eru þeir búnir að gera jafntefli við Úlfana og tapa fyrir Brentford, Arsenal, Man United, Bournemouth og West Ham. Eitt stig í 6 leikja hrinu, sem er náttúrulega relegation form, eins og Bretinn kallar það. Til að bæta gráu ofan á svart er stjörnu-markaskorarinn þeirra, Mitrovic, í banni í leiknum, þannig að þetta er góður tími til að mæta þeim, sérstaklega á heimavelli.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Keane, Godfrey, Gana, McNeil, Garner, Iwobi, Gray, Maupay.

Varamenn: Begovic, Coady, Holgate, Mina, Patterson, Davies, Mills, Samuel-Smith, Simms.

Athyglisvert að sjá að Godfrey fær að halda stöðu sinni í byrjunarliðinu en flyst yfir á hægri bakvörð að öllum líkindum. Garner fær sæti í byrjunarliðinu í fyrsta skipti með Everton.

Fulham menn byrjuðu leikinn vel, með þó nokkru sjálfstrausti. Meira en maður vonaðist eftir frá þeim og þeir náðu góðu spili. En þeir sköpuðu sér engin færi til að byrja með og því ekki mikil pressa á Pickford. Everton með fyrsta færi leiksins á 4. mínútu þegar Garner vann boltann framarlega á velli, fann Gray sem komst inn í teig en skotið ekki nógu gott.

Willian reyndi skot af löngu færi á 10. mínútu, vel utan teigs en skotið mjög slakt. Laust og beint á Pickford. Engin hætta.

Tarkowski lagði upp hættulegt skotfæri fyrir Wilson, hjá Fulham, þegar hann átti slaka hreinsun út úr teig. Wilson reyndi skot á mark, við D-ið en hitti boltann sem betur fer ekki nógu vel.

Þeir reyndu svipað skot á 23. mínútu og það tókst öllu betur. Fór í innanverða stöngina og út í teig. Garner og sóknarmaður Fulham reyndu báðir við boltann en einhvern veginn endaði boltinn hjá Reed sem var á auðum sjó, óvaldaður í miðjum teignum og setti hann framhjá Pickford — sem var samt ekki langt frá því að ná að verja. Smá heppnisstimpill á þessu marki. 0-1 fyrir Fulham.

Fulham allt of sterkir í fyrri hluta fyrri hálfleiks en svo breytti Dyche úr 4-4-2 yfir í 4-2-3-1 og eftir það batnaði leikur Everton til muna.

Everton fékk dauðafæri á 38. mínútu eftir aukaspyrnu utan af kanti. Tarkowski vann skallaeinvígi og sendi boltann nær marki þar sem Maupay fékk skallafæri eiginlega alveg upp við mark. Hann hins vegar skallaði boltann beint á markvörð sem sló hann út í teig. Ekki lengra en til Tarkowski, þó, sem þurfti bara að halda boltanum niðri í skotinu, en skaut rétt yfir samskeytin hægra megin. Illa farið með tvö frábær færi í röð.

En Everton náði að jafna á 35. mínútu eftir að Gana vann boltann á miðsvæðinu með flottri tæklingu. Garner sendi fljótt fram á við á McNeil, sem var umkringdur en lék á Fulham mann og þrumaði boltanum frá D-inu yfir í hægri hornið niðri! Staðan orðin 1-1!

Maupay fékk annað dauðafæri á 40. mínútu eftir þríhyrningaspil milli hans og McNeil sem setti Maupay inn fyrir. Þurfti bara að setja boltann framhjá markverði en tókst það ekki. Honum er bara einfaldlega fyrirmunað að skora.

Iwobi fann McNeil á hægri kanti með löngum bolta fram á 44. mínútu. McNeil sendi boltann fyrir mark, beint á Gray sem var í dauðafæri inni í teig og reyndi að stýra boltanum á mark en hann skoppaði rétt framhjá marki Fulham. Heppnir þar.

1-1 í hálfleik.

Meistari Ingvar Bærings sá um umfjöllunina um seinni hálfleik fyrir ritara, sem þurfti að bregða sér frá. Við þökkum honum kærlega fyrir og gefum honum orðið:

Everton byrjaði seinni hálfleik vel og Mykolenko átti skot úr ágætis færi sem fór af varnarmanni í horn, en úr því varð ekkert.

Stuttu seinna átti McNeil hálf misheppnaða fyrirgjöf sem varð að lúmsku skoti en í stöngina fór boltinn og Fulham slapp með skrekkinn.

Byrjunin á seinni hálfleik lofaði góðu en þegar fimm mínútur voru liðnar af honum átti Fulham sína fyrstu sókn þegar þeir fóru upp vinstri kantinn upp að endamörkum, eða þar um bil og leikmaður Fulham sendi boltann út í teiginn þar sem Harry Wilson stóð og beið eftir honum. Hann kláraði færið og kom þeim yfir á ný. Fáránlega auðvelt og Fulham búið að reyna svipaða tilburði allan leikinn án þess að nokkur Evertonmaður áttaði sig á þessu.

Fjórum mínútum síðar fékk Fulham hornspyrnu sem þeir sendu út á D-bogann. Þar beið Pereira einn og óvaldaður, því það var auðvitað enginn leikmaður Everton búinn að átta sig á að það væri hægt að skjóta þaðan. Hann átti gott skot sem Pickford varði í horn en úr því varð ekkert.

Patterson kom inn á í stað Godfrey sem hafði hlotið höfuðmeiðsli og var fluttur snarlega á spítala.

Fulham var miklu betri aðilinn í seinni hálfleik, fyrir utan fyrstu fimm mínúturnar og Everton hreinlega í nauðvörn frá fimmtugustu mínútu.

Á 68. mínútu gerði Daniel James svo endanlega út um leikinn þegar hann skoraði þriðja mark Fulham.

Dyche reyndi að hressa aðeins upp á Evertonhræið með því að setja Davies inn á fyrir Gana en hann gerði sama og ekkert eftir að hann kom inn á.

Gray nældi sér svo í gult spjald með pirringsbroti á 70. mínútu en sem betur fer varð ekkert úr aukaspyrnunni.

Á 74. mínútu gerðust þau undur að Everton komst í þokkalega sókn og Iwobi átti skot sem Leno gerði vel í að verja í horn en ekki tókst Everton að nýta sér það. Simms kom inn á í staðinn fyrir Maupay, en það hafði ekkert að segja. Maupay hefði að mínu mati aldrei átt að byrja leikinn og sá sem ákvað að kaupa hann á skilið að vera dýft í tjöru og fiður og látinn marsera upp og niður Goodison road.

Ekkert markvert gerðist eftir þetta þrátt fyrir sex mínútur af uppbótartíma.

Ef ég ætti að nefna eitthvað jákvætt við þennan leik, þá væri það bara það að Taylor dómari sem venjulega er hræðilegur, var það ekki í dag.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Godfrey (5), Tarkowski (6), Keane (6), Mykolenko (6), Gueye (6), Garner (7), Iwobi (7), McNeil (7), Gray (5), Maupay (5). Varamenn: Patterson (6), Davies (6), Simms (6).

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég sé að Dyche hefur ákveðið að byrja leikinn með 10 menn, tel Maupay ekki með.
    Nú er kjörið tækifæri fyrir Everton að slíta sig aðeins frá fallsæti, þeas ef önnur úrslit verða eftir þessari frægu bók. En þar sem þetta er Everton þá getur maður ekki leyft sér að vera bara pínu bjartsýnn.
    Ég yrði ekkert hissa þó Everton gerði í brækurnar eins og þeir eru vanir að gera í hvert sinn sem svona staða skapast.
    Svo er þessi bévítans Willian hjá Fulham, hann fer alltaf illa með okkur.
    Ég held að við töpum þessum leik 1-2.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Og svo er gerpið hann Anthony Taylor dómari, þá er Everton tveimur færri.

  2. Gestur skrifar:

    Vörnin farin að leka eins og fyrr á leiktíðinni. Alveg rosalega bitlaust fram á við og ég er sammála Ingvari með Maupay, frekar slappur

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Maupay gæti ekki skorað þó hann væri eini karlleikarinn í klámmynd.

    Það verður eitthvað meira en kraftaverk ef Dyche nær að halda liðinu í deildinni en ég er farinn að hallast að því að hann hafi verið ráðinn með það í huga að koma liðinu upp aftur, ekki endilega til að halda því uppi.
    Þetta byrjaði skítsæmilega hjá honum en nú finnst mér vera farið að fjara undan liðinu og fallið blasir við.
    Þessa stöðu getum við þakkað Kenwright og engum öðrum. Hann hefði getað selt Everton til sheik Mansour en hann vildi kaupa Everton áður en hann snéri sér að Man. City.
    Það gat Kenwright ekki hugsað sér þar sem sheikinn ætlaði sér að henda út allri stjórninni og ráða fólk sem vissi hvað það væri að gera.
    Einhverjir halda að þar sem stjórn Everton hefur ekki mætt á heimaleik síðan í byrjun árs að þau séu í raun hætt störfum eða á leiðinni að hætta.
    Ég held ekki.
    Ég held að þau séu bara að bíða eftir að stuðningsmenn gefist upp og hætti að mótmæla.
    Ég held að þau verði öll mætt á fyrsta heimaleik næsta tímabils í Championship deildinni.
    Ég er viss um að við losnum aldrei við Kenwright fyrr en hann hrekkur upp af.
    Ég tel mig ekki vera illmenni en….

  4. Hallur skrifar:

    þetta er svo sorglegt þessi staða sem klúubburinn er í