Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Arsenal – Everton 4-0 - Everton.is

Arsenal – Everton 4-0

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Keane, Coleman (fyrirliði), McNeil, Gana, Obama, Doucouré, Iwobi, Maupay.

Bekkurinn: Begovic, Holgate, Mina, Godfrey, Coady, Vinagre, Davies, Gray, Simms.

Ég missti af byrjuninni á leiknum, en mér sýndist nokkuð jafnræði með liðum framan af. Leikjaplan Everton var agaður varnarleikur, halda Arsenal í skefjum og bíða færis, enda á útivelli á móti efsta liði deildar og það gekk bara merkilega vel þar sem Arsenal gekk ekkert að skapa nokkurn skapaðan hlut. Everton fékk meira að segja eina frábæra skyndisókn þar sem þeir komust fjórir á tvo en nýttu það illa. Það verður að nýta svona, sérstaklega á sterkum útivelli. 

Arsenal menn refsuðu á 35. mínútu þegar Saka bjó til mark upp úr engu. Lúrði milli varnarmanna (Keane og Mykolenko), alveg við öftustu varnarlínu — og hvorugur dekkaði hann. Fékk svo sendingu — tók létta snertingu með hægri og tók boltann svo með vinstri strax með sér í hlaupinu innar í teiginn og komst þar með í dauðafæri og þrumaði yfir Pickford, upp í vinkilinn. 1-0 fyrir Arsenal og leikjaplanið fokið út í veður og vind.

Arsenal menn komu boltanum svo í netið rétt fyrir lok hálfleiks, þegar Gana var að dóla með boltann í öftustu línu og sóknarmaður náði að stela boltanum af honum með því að pota til næsta manns (Martinelli), sem skoraði en var dæmdur rangstæður. Þeim dómi var hins vegar snúið við í skoðun hjá VAR, sem dæmdi markið gott og gilt. 2-0 fyrir Arsenal og ef það var ekki game over í fyrra markinu, þá var það núna.

Ein breyting á liði Everton í seinni hálfleik: Idrissa Gueye fékk að fjúka eftir mistökin í seinna markinu og Holgate kom inn á fyrir hann og tók einnig stöðu hans á velli.

Lítið að frétta þangað til á 60. mínútu þegar Coleman og Maupay fóru út af fyrir Godfrey og Gray — Godfrey þar með í hægri bakvörð og Gray á toppinn og það var eins og sóknarleikur Everton lífgaðist aðeins upp við þetta, allavega til að byrja með. McNeil átti til dæmis flott skot rétt innan teigs sem markvörður Arsenal þurfti að hafa sig allan við til að verja.

En Arsenal menn bættu við marki eftir hraða sókn upp hægri kant. Godfrey náði ekki að stoppa Trossard, sem komst inn í teig vinstra megin og sendi fyrir á Ödegaard. Hann náði að breyta stefnu boltans á mark í fyrstu snertingu og Tarkowski — var á réttum stað — en náði ekki að hreinsa, boltinn í fótinn á honum og inn. 3-0. Eftir það var þetta bara spurning um skaðaminnkun. 

Sem gekk brösulega… Arsenal fengu tvö góð færi í kjölfarið en tókst ekki að skora og við getum þakkað Pickford fyrir allavega það seinna. Davies kom inn á fyrir Doucouré á 78. mínútu, en fjórða markið kom stuttu síðar, potað inn af stuttu færi, eftir að þeir náðu að opna vörn Everton upp á gátt. 

Everton fékk eitt frábært færi til að minnka muninn í blálokin, eftir fína vinnu hjá Gray og Davies, en einhvern veginn náðu Arsenal menn að forða boltanum frá því að fara yfir línuna. Sá ekki almennilega hvað olli og færið var ekki endursýnt. Það gildir þó einu. 

Tap staðreynd í kvöld, enda kannski það sem maður bjóst við fyrir leik.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Keane (6), Tarkowski (6), Mykolenko (6), Gueye (4), Iwobi (6), Doucoure (5), Onana (6), McNeil (7), Maupay (5). Varamenn: Holgate (6), Gray (6), Godfrey (6), Davies (6).

4 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Ja hérna, hvernig á þetta að ganga upp.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var fínt……í 40 mínútur, hætti að fylgjast með í hálfleik, þá voru úrslitin hvort sem er ráðin og bara spurning um hvað Arsenal skoraði mörg mörk.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Everton heldur áfram að slá met hvort sem þau eru eftirsóknarverð eða ekki.
    Með þessu tapi varð Everton fyrsta félagið til að tapa 100 leikjum í efstu deild gegn sama félaginu.

    Týpískt Everton.

    • GunniD skrifar:

      Everton hefur reyndar spilað langflesta leiki í efstu deild af öllum liðum.