Mynd: BBC
Í kvöld var komið að síðasta heimaleik Everton á tímabilinu og hann var gegn Crystal Palace. Liðinu mistókst í síðasta heimaleik að slíta sig endanlega frá botnbaráttunni og nú voru góð ráð dýr. Liðið þurfti nauðsynlega sigur til að tryggja veru sína í efstu deild 70. árið í röð og allt annað bauð upp á naglbít og hjartalyf á síðasta degi sem og að þurfa að treysta á önnur lið, sem er aldrei gott. Þetta leit mjög illa út í hálfleik, eftir að hafa lent 0-2 undir en með ótrúlegri frammistöðu í seinni hálfleik náðu þeir að snúa taflinu við og landa þremur stigum í hús. Maður getur ekki lýst því hvað þetta er mikill léttir!
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Doucouré, Gomes, Iwobi, Gordon, Richarlison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Begovic, Godfrey, Kenny, Allan, Davies, van de Beek, Dele Alli, Welch, Gray.
Frábært stemning á pöllunum fyrir leik sem og utan vallar. Ég reyndi að hringja í formanninn okkar á pöllunum rétt fyrir leik og hávaðinn var slíkur á Goodison að við gátum lítið sem ekkert talað saman.
Lítið um færi framan af. Áhorfendur púuðu vel á leikmenn Palace á meðan þeir voru með boltann og fögnuðu vel og innilega þegar Everton vann boltann. Bæði lið að banka á dyrnar án þess að skapa sér almennileg færi þó.
Fyrsta færið aukaspyrna frá Everton rétt utan teigs sem Richarlison setti í ofanverða slá og yfir. En svo kom fyrra reiðarslag þegar Crystal Palace fengu aukaspyrnu langt utan teigs og upp úr því skoruðu þeir með skalla. 0-1 fyrir Crystal Palace.
Á 36. mínútu fór Ayew í ruddalega tæklingu á Gordon út við hliðarlínu. Báðir fætur á lofti en takkarnir ekki á undan en maður hefur alveg séð meira en gult spjald fyrir svona, sem er það sem hann fékk. Það var því skrifað í skýin að Ayew myndi skora annað mark Palace. Dreptu mig ekki. Staðan orðin 0-2.
Eitt færi kom hjá Everton undir lok fyrri hálfleiks þegar Mykolenko sendi fyrir frá vinstri en Richarlison náði ekki almennilegum skalla á mark.
0-2 í hálfleik. Útlitið alls ekki gott og ekkert — ekki neitt — í fyrri hálfleik sem gaf til kynna að þetta myndi breytast nokkuð.
Ekki batnaði sálarástandið á manni heldur þegar Burnley skoruðu úr víti gegn Aston Villa rétt fyrir hálfleik. Allt að ganga á afturfótunum hjá okkar mönnum og helstu andstæðingarnir komnir yfir! Lampard brást við með því að skipta Deli Alli inn á í hálfleik fyrir Gomes.
Þegar allt virtist ómögulegt steig upp ólíkleg hetja í stöðunni 0-2 á 54. mínútu. Aukaspyrna kom utan af velli sem Holgate lagði fyrir Keane með skalla og Keane afgreiddi boltann snyrtilega í hliðarnetið, með utanfótar snuddu, innan teigs en af nokkuð löngu færi og hvaða striker sem er hefði verið stoltur af því marki.
Staðan allt í einu orðin 1-2 og aftur leikur í gangi, eftir mikla lágdeyðu! Smá vonarglæta!
Gray kom svo inn á fyrir Gordon á 60. mínútu en ekki laust við að maður væri nokkuð vel ósáttur við að sjá Gordon fara af velli! Helsti baráttumaður liðsins undanfarna mánuði.
Everton fékk hálffæri í kjölfarið — en Palace menn fengu ennþá betra færi en sem betur fer sá Pickford við þeim og varði glæsilega. Gríðarlega mikilvæg varsla og reyndist ákveðinn vendipunktur í leiknum, eins og átti eftir að koma í ljós.
Lítið að gerast þó fram að 76. mínútu þegar Deli Alli reyndi skot sem var blokkerað en boltinn barst til Richarlison sem einhvern veginn skoraði. Ég sá ekki hvernig hann fór að því og missti af endursýningunni í einhverri geðshræringu. Staðan orðin 2-2 og allt brjálað á pöllunum. Ég öskraði svo hátt að ég held að einn krakkinn í salnum á Spot hafi pissað á sig, honum brá svo mikið! 🙂 Enda var mjög mikilvægt að tapa ekki þessum leik, því stigið opnaði á að jafntefli myndi nægja gegn Arsenal til að loka þessu tímabili með bros á vör.
En ótrúlegt en satt þá reyndist það ekki einu sinni nauðsynlegt því Everton náði að komast yfir með geggjuðum skalla frá Calvert-Lewin eftir aukaspyrnu langt utan af velli. Markið eiginlega alveg eins og fyrsta mark Palace. Kannski pínulítið ljóðrænt! 🙂
Allt brjálað í kjölfarið innan sem utan vallar. Áhorfendur bæði flykktust inn á völlinn og tendruðu blysin. Maður hefur ekki séð svona fagnaðarlæti síðan legend-ið Tony Hibbert skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið… úr aukaspyrnu… í æfingaleik! „When Tony Hibbert scores, we riot!“
Sjö mínútum bætt við, þrátt fyrir að Alex Ferguson væri hvergi nálægt og það held ég hafi verið einar lengstu 7 mínútur lífs míns, en eins og Nóbelsskáldið sagði: „Þegar öllu er á botninn hvolft þá fer allt einhvernveginn, þótt margur efist um það á tímabili“. Og þessi umferð fór vissulega á besta veg, þrátt fyrir að við höfum efast um það nánast allt tímabilið.
Ég reyndi að hringja í formanninn á pöllunum strax eftir leik en það var ekkert hægt að tala saman. Þannig að við sögðum ekki neitt — hlustuðum bara báðir á geggja stuðningsmenn Everton að syngja úr sér lungun á pöllunum! Þvílíkt adrenalínskot!
En að alvörunni aftur. Ég get ekki lýst því hvað það hefur verið erfitt að horfa ofan í hyldýpið í þetta langan tíma og ímynda sér hvað hefði getað gerst ef við hefðum horft upp á fall í lok tímabils. Ég sá fyrir mér að það hefði þurft að selja bestu leikmenn liðsins og reyna að byggja allt upp á nýtt úr Championship sem hefði þýtt ennþá þrengri fjárhagsramma. En sem betur fer þýða þessi þrjú stig að Everton slítur sig endanlega frá botnbaráttunni (loksins!) og Lampard getur hafið uppbyggingu sína á liðinu af alvöru án þess að þurfa að hafa áhyggjur af falldraugnum. Ég hlakka til að sjá hvað næsta tímabil ber í skauti sér og spyr: voru ekki Leicester næstum því fallnir árið áður en þeir unnu Úrvalsdeildina? 😉 Áfram Everton!
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Mykolenko (6), Coleman (6), Keane (7), Holgate (6), Iwobi (6), Gomes (4), Doucoure (6), Gordon (6), Richarlison (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Gray (7), Alli (8).
Maður leiksins: Deli Alli — sem ég verð reyndar að viðurkenna að kemur mér pínu á óvart, en skiptir engu — það eru stigin þrjú sem skipta öllu máli.
Mér líður eins og það sé runninn upp dómsdagur. Er gjörsamlega farinn á taugum, get ekki hugsað um neitt annað en þennan bévítans leik og allt það hræðilega sem gæti gerst ef hann tapast.
Ég vona bara að okkar menn mæti klárir og vel stemmdir í slaginn, því þetta gæti verið mikilvægasti leikur Everton síðan 1998.
Vonandi verður Gomes ekki í liðinu, það myndi amk róa mínar tæpu taugar örlítið.
koma svo við vinnum þennan helvitis leik
Andre Gomes er í byrjunarliðinu. Nú set ég risastórt spurningamerki við Lampard. Er hann að reyna að koma liðinu niður?? Þetta verður slátrun.
Öll lið eru mikið betur spilandi en okkar. Meira að segja varalið Watford! Til hvers að hafa gomes inná, hann skilar engu hvorki varnar- né sóknarlega! Okkur vantar hugmyndir og þær gætu komið með Dele jafnvel þó hann sé þunnur
Vel sagt Diddi. Með Dele Alli. Það var hann (fannst mér) sem gerði gæfumuninn í leiknum og það var svo áberandi hversu mikill classi kom frá honum í leiknum. Vonandi nær Lampard að laða þessa snilld fram. kv. Ari.
Everton lætur Crystal Palace líta út eins og stórlið
Þetta eru nú ljótu fíflalætin, bæði í leikmönnum Everton og dómurunum.
Það er von
VÁ!!!!!
Þvílík endurkoma!! Þetta var ekki í spilunum í hálfleik.
Við erum loksins safe, ég trúi því varla.
Þetta var varla fyrir hjartveika menn að horfa á síðustu mínúturnar. Hafðist að tryggja sætið þrátt fyrir ömurlegan vetur, það gengur vonandi betur næst. Það má nú alveg taka all hressilega til í leikmannahópnum.
Snilld, sjáum hverju það breytir að hafa góðan playmaker inná! Höfum saknað Rodrigez ekkert smá þó að hann hafi ekki verið duglegur að vinna til baka! En til hamingju öll! Nú stoppar vonandi vitleysan og uppbygging hefst. Er ekki viss um að Lampard……………….
Sjö mínútum bætt við. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Sat innan um 6 púlara að horfa á leikinn og öskraði úr mér lungun í hvert sinn sem Everton skoraði! 🙂
DÍSUS
hann er til! guð er góður!
Everton er besta lið allra tíma – 117 tímabil í efstu deild!!!!
Ekkert annað lið í heiminum kemur nærri okkur
Sigur númer 1,878
Rétt að byrja
EVERTON!!
Þessi sigur hjá Everton var sá 1878. í röðinni. Sem er sturluð staðreynd því það er ártalið þegar félagið var stofnað. Ef rétt er?
Ja, ártalið er allavega rétt. Veit ekki hvernig maður fer að sannreyna hitt… 🙂
þvílikur leikur á ferð ég er bara að segja.Sem betur fer héldum við okkur uppi. ÉG spyr erum menn óhressir með Lampart. Ef hópur verið betri þá held ég að lampart hafi gert betur. Því segi ég.Everton voru ekki með nógu marga góða leikmenn til að vera með þeim bestu. Ég vill að Lampmart verið áfram og það verði hreinsa hjá okkar liði og það hressi lega hvað segir þið um það
Ég sá einhverja grein í gær þar sem verið var að tala um hvar Everton væri í deildinni ef hún hefði byrjað þegar Lampard tók við. Samkvæmt því þá væri Everton í tólfta sæti. Það má þá kannski ætla að liðið væri í topp tíu ef hann hefði verið ráðinn síðasta sumar en ekki 31. janúar.
Ég er nokkuð sáttur með Lampard. Mér finnst frábært að hann hikar ekki við að segja sína skoðun, hvort sem er á dómurum eða á liðinu td eftir bikartapið gegn Palace. Hann byrjaði auðvitað á því að reyna að spila með varnarlínuna frekar hátt á vellinum og að reyna að pressa, en þegar það var alls ekki að virka þá breytti hann því og liðið hefur verið mun betra eftir það. Hann virðist því ekki vera einn af þessum þverhausum sem vilja bara spila á einn veg, sama hvað, heldur lærir hann af reynslunni og stillir liðinu upp þannig að það eigi meiri möguleika á að ná í stig eða þrjú.
Svo verður maður líka að taka með í reikninginn viðsnúninginn á Iwobi.
Ég var einn af þeim sem vildu bara losna við hann, alveg sama hvort félagið fengi pening fyrir hann eða ekki. Nú er svo komið að ég get ekki hugsað mér að hafa hann utan byrjunarliðsins,þvílík breyting á einum manni.
Kannski er Lampard að reyna eitthvað svipað með Gomes, en það virðist vera vonlaust verk að finna aftur þann leikmann sem kom upphaflega að láni frá Barcelona. En hver veit? Kannski tekst að ná einhverju út úr honum með mikilli þolinmæði.
Lampard var ekki maðurinn sem ég vildi fá þegar skemmdarvargurinn var rekinn, en hann hefur unnið mig á sitt band.