Wolves – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um þennan leik. Fyrri hálfleikur algjörlega hræðilegur — veit ekki hvernig er hægt fyrir lið að vera kominn 2-0 undir eftir um hálftíma leik með tvo djúpa miðjumenn í uppstillingunni. En, það tókst í kvöld. En þvílíkur viðsnúningur í seinni hálfleik — þó að úrslitin sýni það ekki. En þá að leiknum…

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Holgate, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Gbamin, Iwobi, Gray, Townsend, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Kenny, Delph, Davies, Welch, Gordon, Tosun, Rondon.

Sem sagt, Richarlison byrjaði frammi, sem var gott að sjá. Vitað var að Doucouré myndi vera frá (sem og Calvert-Lewin) en Digne og Mina voru hins vegar hvergi sjáanlegir — sem er alls ekki gott og tveir varnarsinnaðir miðjumenn voru í byrjunarliðinu (Allan og Gbamin). Tosun á bekknum — „var hann ekki farinn?“, hugsaði maður. Greinilega ekki.

Okkar menn voru ansi varnarsinnaðir frá upphafi leiks, enda með tvo djúpa miðjumenn inná. Náðu fyrir vikið að leysa nær allt sem Wolves menn reyndu. Lítið að gera hjá Pickford þangað til Wolves menn fengu horn og þeir náðu skoti beint úr hreinsun en Pickford varði meistaralega. Hann endurtók svo leikinn stuttu síðar með frábærri vörslu á 14. mínútu.

En á 15. mínútu skoruðu Wolves menn mark eftir flott samspil en VAR greip þá glóðvolga í rangstöðunni og markið því dæmt af. Fullt af viðvörunarbjöllum að hringja, enginn að hlusta.

Wolves tókst loks að koma boltanum í netið á 27. mínútu og að sjálfsögðu kom það eftir horn. Einfaldur skalli í grasið og þaðan í netið. Enn á ný fær Everton á sig mark úr föstu leikatriði. 1-0 fyrir Úlfana. Var svo sem skrifað í skýin enda þeir búnir að vera betra liðið.

Á 31. mínútu gaf svo Godfrey Úlfunum mark algjörlega á silfurfati þegar hann reyndi misheppnaða sendingu aftur á Holgate. Raul Jimenez komst inn í sendinguna og sneiddi boltann yfir Pickford sem kom hlaupandi á móti. Staðan orðin 2-0.

Fyrsta almennilega færi Everton kom svo á 37. mínútu þegar miðjumaður Wolves reyndi sendingu fram en hitti boltann illa og gaf í sveig, aftur fyrir sig, á Gray sem var allt í einu orðinn fremstur með boltann. Hann komst næstum einn á móti markverði en varnarmaður náði að trufla og skotið algjörlega arfaslakt (langt framhjá fjærstöng vinstra megin). Súmmeraði upp hans framlag allan leikinn.

Holgate fékk dauðafæri rétt undir lok fyrri hálfleiks eftir aukaspyrnu frá Townsend. Holgate var staðsettur nálægt fjærstöng vinstra megin, og setti boltann einfaldlega yfir markið, enda ekki viðbúinn þegar boltinn kom. Endursýning sýndi þó að Iwobi, sem framlengdi skallann á hann, var líklega rangstæður. VAR hefði því ógilt markið — kannski fyrir bestu, enda alls ekki gott sálfræðilega að fá mark dæmt af vegna VAR þegar liðið er 2-0 undir.

2-0 var staðan í hálfleik. Veit ekki hvað Benitez var að reyna með þessari uppstillingu, en ekki gekk það upp í fyrri hálfleik.

Ein breyting hjá Everton í hálfleik: Fabian Delph inn á fyrir Gbamin. Það kom pínu á óvart, ekki bara að sjá hann inná, heldur að sjá hann taka sér stöðu fyrir aftan Allan, á milli varnar og miðju. Hefði kannski átt von á því öfugu.

En hvað veit maður — leikur Everton batnaði allavega töluvert við þetta og þetta reyndist leikur tveggja hálfleika, eins og oft er sagt. Ömurlegir í fyrri. Líklegri til að taka þrjú stig í seinni.

Leikmenn Everton virkuðu mun einbeittari alveg frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Sneru leiknum eiginlega alveg við, og á ákveðnum tímapunkti náðu þeir ekki bara að jafna tilraunir Úlfanna á mark heldur gott betur. Maður hafði það á tilfinningunni að þeir myndu jafna, en því miður hafðist það ekki.

Úlfarnir voru stálheppnir að fá ekki á sig mark á 55. mínútu þegar þeir voru undir mikilli pressu og markvörður þeirra reyndi hreinsun — beint á Richarlison inni í teig en hann náði ekki að fylgja því eftir með almennilegu skoti á mark. Úrvals tækifæri forgörðum.

Wolves menn svöruðu með skyndisókn sem endaði með skalla í utanverða stöng og út af.

Everton náði loks að minnka muninn á 66. mínútu eftir að Godfrey hafði reynt skot af löngu færi. Varnarmaður Úlfanna reyndi að stoppa skotið en lagði boltann bara fyrir Iwobi í teignum og hann þrumaði framhjá markverði Úlfanna. 2-1 og game on!

VAR kom svo aftur Everton til bjargar á 73. mínútu þegar dómarinn, Martin Atkinson, ætlaði að dæma vítaspyrnu á Holgate fyrir að brjóta af sér utan teigs. Sneri þar með vítaspyrnu í aukaspyrnu og ég verð að segaj að þarna virkaði VAR (aftur) alveg eins og það var hannað.

Gordon kom inn á, fyrir markaskorarann Iwobi, á 78. mínútu og hann reyndist mjög líflegur það sem eftir lifði leiks. Var meira að segja næstum búinn að jafna á 85. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en markvörður varði glæsilega.

Gray fór svo út af fyrir Rondon á 90. mínútu, en sá fyrrnefndi hafði átt mjög dapran leiki og ekki náð að setja mark sitt á leikinn. Óvenjulegt miðað við frammistöðu fyrr á tímabilinu.

Everton lagði allt í sölurnar til að jafna og þetta reyndist örugglega afskaplega taugatrekkjandi lokamínútur fyrir Úlfana en þeir náðu að landa þessu.

Eftir fyrri hálfleik átti maður von á rassskellingu en eftir seinni var maður vonsvikinn að sjá ekki að minnsta kosti eitt stig úr leiknum, jafnvel þrjú. Aðeins gjöf á silfurfati frá Godfrey reyndist það sem skildi liðin að.

2-1 sigur Úlfanna því staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7); Coleman (6), Holgate (6), Keane (6), Godfrey (5); Gbamin (5), Allan (6); Townsend (6), Iwobi (6), Gray (6); Richarlison (6). Varamenn: Delph (7), Gordon (7).

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta verður fróðlegt að sjá. Vonandi girða okkar menn sig í brók og spila almennilega en ég geri mér engar sérstakar vonir.
    Ég spái 1-1.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja þá! Ég var líklega full bjartsýnn að spá jafntefli. Þetta lítur út fyrir að verða önnur rassskelling.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hræðilegur fyrri hálfleikur þó þetta hafi aðeins lagast síðustu mínúturnar en ég held að það hafi nú bara verið vegna þess að Wolves slökuðu aðeins á.