Everton – Sevilla (Opel Cup) 0-1 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Everton hefur keppni í Opel Cup í Þýskalandi með leik við Sevilla kl. 11 og svo leik við Mainz kl. 14. Leikirnir eru klukkutíma hver (30 mínútur hvor hálfleikur).

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Holgate, Coleman, Delph, Gomes, Bernard, Gylfi, Walcott, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Steklenburg, Gibson, McCarthy, Pennington, Davies, Broadhead, Schneiderlin, Adeniran, Mirallas, Connolly, Hornby, Gordon, Foulds.

Sevilla byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu strax undirtökunum og héldu þeim allan fyrri hálfleik. Það tók Everton töluverðan tíma að komast inn í leikinn en samt Everton öll færi fyrri hálfleiks.

Fyrsta (hálf)færið kom eftir skyndisókn þar sem Theo Walcott var næstum kominn einn inn á móti markverði en sá markvörður kom mjög langt út úr teig og náði að hreinsa. Sweeper keeper, eins og það er kallað.

Calvert-Lewin fékk fínt færi eftir fyrirgjöf frá hægri en reyndi skot í staðinn fyrir að henda sér á boltann og skalla í netið. Hefði betur átt að reyna það, því hann átti lítinn séns á að stjórna boltanum með fætinum.

Calvert-Lewin fékk annað færi á 19. mínútu þegar hann fékk sendingu inn í teig frá Gylfa og átti frábæra fyrstu snertingu sem kom honum framhjá varnarmanni og alveg upp að marki. Hann náði skoti framhjá markverði, sem kom hratt út á móti, en því miður fór boltinn framhjá marki einnig.
0-0 í hálfleik eftir 30 mínútna leik.

Meira jafnræði með liðum í seinni hálflleik en minna um færi. Seville menn fengu eitt skotfæri utarlega í teignum en sóknarmaður þeirra hitti boltann illa og Pickford varði auðveldlega.

Seville fengu svo vafasamt víti á 45. mínútu þegar Holgate var sagður brotlegur fyrir litlar sakir. Sóknarmaður Sevilla sendi Pickford í hornið og reyndi skot á mitt markið. Pickford náði að slengja fæti í boltann en hraðinn á bolta var of mikill og hann endaði því í netinu. 1-0 fyrir Sevilla og það reyndist úrslitamarkið.

Calvert-Lewin var reyndar ekki langt frá því að jafna með skalla á 53. mínútu. Fékk háa sendingu frá vinstri og náði hörkuskalla en markvörður náði að verja í horn.

Fleiri urðu færin ekki. Sevilla unnu leikinn á einu marki.

Næsti leikur er í dag, gegn Mainz, klukkan 14:00.

Comments are closed.