Mynd: Everton FC.
Everton tók á móti Southampton á Goodison Park kl. 18:45 í kvöld en þetta var síðasti leikur þriðju umferðar deildarbikarsins. Fyrri leikur þessara liða á Goodison Park á tímabilinu lauk með 2-1 sigri Everton, á öðrum leik tímabilsins. Með sigri hefðu þeir mætt Leicester á útivelli í næstu umferð en það var ekki í spilunum í kvöld.
Uppstillingin: Stekelenburg, Baines (fyrirliði), Zouma, Keane, Kenny, Schneiderlin, Davies, Bernard, Dowell, Lookman, Tosun.
Varamenn: Joao Virginia, Digne, Holgate, Gana Gueye, Niasse, Richarlison, Walcott.
Sem sagt, svipað upplag og í síðasta leik, nema nokkuð um mannabreytingar, sérstaklega í framlínunni. Bernard fékk sinn fyrsta byrjunarleik með Everton (kom inn fyrir Richarlison) og Dowell tók stöðu Gylfa fyrir aftan Tosun, sem kom inn á fyrir Calvert-Lewin í síðasta leik. Lookman still upp á hægri kanti fyrir Walcott.
Gana fékk líka að hvíla á miðjunni en Schneiderlin kom inn fyrir hann. Stekelenburg í markinu enda má gera ráð fyrir að hann spili deildarbikarleikina á tímabilinu. Baines tók jafnframt stöðu Digne í vinstri bakverði en að öðru leyti var varnarlínan óbreytt frá síðasta leik.
Engin sjónvarpsútsending var í boði í kvöld, þannig að við þurftum að láta okkur nægja að hlusta á leikinn á Everton útvarpsrásinni. Á þeirri stöð eru þeir náttúrulega afar hliðhollir Everton og vildu meina að Everton hefði dóminerað fyrri hálfleik, spilað flottan fótbolta og ógnað mjög marki Southampton. Lookman sérstaklega líflegur og Bernard skeinuhættur líka. Southampton áttu einstaka spretti líka, þar með talið eitt skot í stöng þegar Everton missti athyglina um stund. En að sjálfsögðu náði Danny Ings svo að skora, gegn gangi leiksins, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.
0-1 fyrir Southampton í hálfleik.
Seinni hálfleikur hljómaði meira frústrerandi. Southampton að tefja við hvert tækifæri og dómarinn lét það afskiptalaust. Sóknin hljómaði bitlaus en það breyttist þegar Richarlison og Walcott komu inn á — sérstaklega sá síðarnefndi sem jafnaði leikinn þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum.
Everton fékk svo gullið tækifæri til að klára leikinn á síðustu sekúndum venjulegs leiktíma, eftir varnarmistök hjá Southampton, en tókst ekki og þrátt fyrir pressu frá Everton tókst þeim ekki að setja mark á Southampton, sem voru sáttir við jafnteflið og vítaspyrnukeppnina.
Jonjoe Kenny valinn maður leiksins af þulunum á meðan leikmenn voru að koma sér fyrir í vítaspyrnukeppnina.
Við munum uppfæra þessa frétt um leið og fréttir berast af vítaspyrnukeppninni. Munið Refresh takkann.
Vítin eru réttu megin vallar, hjá Gwladys street, langt frá stuðningsmönnum Southampton.
Leighton Baines fyrstur á punktinn og skoraði rétt svo, neðanverð sláin og rétt svo inn fyrir línuna. MARK. 1-0
Danny Ings svaraði fyrir Southampton. MARK. 1-1.
Tosun næstur og náði að skora þó markvörður hefði hendi á boltanum. MARK. 2-1
Davies næstur punktinn fyrir Southampton. MARK. 2-2.
Richarlison næstur en lúðraði boltanum yfir slána. 2-2
Hojberg skoraði örugglega fyrir Southampton. MARK 2-3.
Zouma á punktinn. Varð að skora og gerði það örugglega. MARK. 3-3
Target næstur en Stekelenburg sá við honum! VARIÐ!
Walcott lét verja frá sér og næsta víti því lykilatriði. VARIÐ
Suares skoraði úr sínu víti og Everton því úr leik í Carabao bikarnum eftir 3-4 tap í vítaspyrnukeppni. :/
Leikurinn er ekki sýndur neins staðar, sýnist mér.
Held það standi í lögum Alheimsins að þegar Danny Ings spilar á móti Everton þá skorar hann mark.
það eru nú fleiri tilgreindir í þeim lögum, því miður 🙁
Hef enga trú á að við vinnum þennan leik. Þetta er þessi skítabikarkeppni þar sem við komumst aldrei neitt áleiðis og því ætti það að breytast í kvöld??🙁
Bannað að vinna tvo leiki í röð
Vorum að skora 😁
Okkur er alveg fyrimunad ad vinna marga !eiki I rod.
Hægt að sjá highlights úr leiknum hér:
http://www.evertonfc.com/evertontv/archive/2018/10/02/everton-11-southampton-34-pens-extended-highlights
Að gera 7 breytingar fyrir þennan leik er bara rugl. Það er ekki eins og Everton sé busy í Evrópu leikjum. Engin ástæða að hvíla svona marga kappa því Everton veitir ekki af því að gefa þessum bikarkeppnum gaum.
http://www.hitc.com/en-gb/2018/10/06/paul-merson-criticises-everton-manager-marco-silva/ Í fyrst skipti í mjög langan tíma sem ég er sammála Kóka(Merson), algjörlega óásættanlegt að spila ekki okkar sterkasta liði í þessari keppni. Bikarkeppnirnar eru okkar stærstu vonir um að komast í Evrópukeppni og þær á ekki að taka léttvægt. Þessir aumingjans menn eru ekkert of góðir að spila einn og einn leik í miðri viku, þeir fá jú borgað fyrir það.