Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton vs Hajduk Split - Everton.is

Everton vs Hajduk Split

Mynd: Everton FC.

Everton á leik annað kvöld kl. 19:05 við króatíska liðið Hrvatski Nogometni Klub Hajduk Split S.D.D., eða Hajduk Split eins og þeir eru gjarnan nefndir. Þetta er fyrri leikur Everton í tveggja leikja umspili um að komast í riðlakeppni Europa League, Everton á heimaleikinn fyrst og það er eins gott að ná hagstæðum úrslitum þar sem útileikurinn verður erfiður, enda áhorfendur Hajduk Split þekktir fyrir mikinn hávaða og læti. Þeir slógu út Leski Sofia og Bröndby á fyrri stigum þessarar keppni en hafa á síðustu þremur tímabilum endað keppni sína í Europa League á þessu stigi málsins. Athygli vekur að stjóri þeirra er Spánverjinn Joan Carrillo, sem hefur, hjá fjórum félögum, nánast aldrei enst meira en eitt ár í starfi, þrátt fyrir að hafa unnið ungverska meistaratitilinn með Videoton tímabilið 2014-15.

Hajduk Split er atvinnumannaklúbbur sem stofnaður var 1911 og tekur heimavöllur liðsins, Poljud Stadium, 35 þúsund manns í sæti. Þeir eru þessa dagana í öðru sæti eftir fimm umferðir í efstu deild (tíu liða) í Króatíu og hafa á tímabilinu aðeins tapað fyrir toppliðinu, erkiféndunum í Dinamo Zagreb. Hajduk eru einn sigursælasti klúbbur Króatíu með 9 deildarmeistaratitla í fyrrum Júgóslavíu og 6 deildarmeistaratitla í Króatíu og eitthvað svipað magn af bikarmeistaratitlum. Á alþjóðasviði hafa þeir lengst komist í fjórðungsúrslit Champions League, samtals þrisvar sinnum, nú síðast tímabilið ’94-’95. Þeir hafa þeir einnig náð í undanúrslit UEFA Cup og UEFA Cup Winners Cup en mun lengra er síðan það gerðist. Gullaldarár þeirra voru 1970-1980 þegar þeir unnu nánast deild eða bikar á hverju ári og voru sterkir í Evrópukeppnum en heldur hefur dregið af þeim síðan og þeirra síðasti titill kom árið 2013 þegar þeir unnu Króatísku bikarkeppnina.

Þeir eru með nokkra sterka leikmenn innanborðs sem geta ógnað Everton, eins og greining Liverpool Echo tiltók. Einna skeinuhættastur hljómar kantmaðurinn Ante Erceg, sem hefur skorað 17 mörk í 39 leikjum fyrir þá. Þeirra helsti sóknarmaður, Marko Futacs, er hins vegar meiddur.

Meiðsladeild Everton er svipuð og áður, fyrir utan Sandro sem er tæpur fyrir leikinn vegna ökklameiðsla og verður metinn á leikdegi. Funes Mori, Bolasie og Coleman eru frá til lengri tíma og Barkley og McCarthy missa einnig af leiknum vegna meiðsla. Líkleg uppstilling: Pickford, Baines, Jagielka, Keane, Martina/Holgate/Kenny, Gana, Davies, Klaassen, Mirallas, Calvert-Lewin, Rooney.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U23 hófu titilvörn sína með 0-0 jafntefli við West Ham á útivelli og Everton U21 tapaði 2-1 gegn Notts County í fyrsta leik í Checkartrade Trophy. Mark Everton skoraði Anton Donkor. Leandro Rodriguez, sem Roberto Martinez keypti fyrir unglingaliðið, fékk í vikunni frjálsa sölu aftur til Úrúgvæ.

En aftur að leiknum: Óvíst er hvort leikurinn við Hajduk Split verði sýndur í sjónvarpinu og Everton ákvað því að sýna leikinn beint af Youtube síðu sinni. Vel gert. Sjá nánar hér.

 

1 athugasemd

  1. Georg skrifar:

    Flott upphitun Finnur.

    Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur. Það væri flott að vinna þetta þægilega svo við séum vel settir þegar við förum til Króatíu. Best væri að halda hreinu.

    Mín spá er 2-0. Rooney og Mirallas með mörkin.

    Frábært hjá klúbbnum að varpa leiknum live á youtube þar sem enginn útsending var frá leiknum á ensku (eða íslensku). HRT 2 í króatíu og beIN Sport Arabia voru einu rásirnar að sýna leikinn og ekkert gaman að horfa á leik með lýsendur sem maður skilur ekki.

    Við þurfum að bíða allavega fram á mánudag að sjá Gylfa. En svakalega er maður sáttur að þetta hafi loksins klárast.