Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Liverpool vs Everton - Everton.is

Liverpool vs Everton

Mynd: Everton FC

Þrítugasta umferð ensku Úrvalsdeildarinnar hefst á laugardaginn, kl. 11:30, með stórleik en þá mætir Everton á Anfield. Landsleikjahléið er nú loksins að baki en það reyndist ekki bara hálf óvelkomin pása eftir tvo sigra Everton í röð (með 7-0 markatölu) heldur reyndist það báðum liðum dýrt. Everton missti Coleman í fótbrot og Funes Mori í hnémeiðsli en Liverpool liðið varð fyrir blóðtöku líka þegar þeir misstu Lallana í meiðsli. Hvað Coleman varðar kemur Holgate líklega til með að leysa hann af hólmi en Holgate hefur spilað 9 leiki með Everton á tímabilinu og hefur enn ekki tapað leik. Funes Mori hefði að öllum líkindum ekki byrjað gegn Liverpool hvort eð er, því hann missti sæti sitt í miðverðinum aftur til Jagielka fyrir tveimur leikjum síðan og Jagielka átti flotta innkomu í liðið og hjálpaði til við að halda hreinu í báðum leikjunum síðan þá. Fyrir landsleikjahlé leit út fyrir að Everton hefði misst Morgan Schneiderlin í meiðsli út tímabilið en þær kærkomnu fréttir bárust að meiðsl hans væru minni en haldið var í fyrstu og hann á því séns í leikinn.

Form þessara tveggja liða á árinu 2017 er mjög ólíkt, því Liverpool náðu aðeins einum sigurleik í deild allan janúarmánuð og febrúar að auki. Samtals léku þeir 12 leiki á því tímabili, sigruðu tvo, gerðu fjögur jafntefli og töpuðu 6 leikjum. Einn af þessum sigrum var reyndar gegn Plymouth í FA bikarnum en það hjálpaði þeim lítið því þeir töpuðu í næstu umferð fyrir Wolves og höfðu stuttu áður dottið út gegn Southampton í EFL bikarnum. Þeir hafa þó eitthvað náð að rétta úr kútnum í mars, tveir sigrar og eitt jafntefli.

Everton liðið hefur verið á blússandi siglingu á árinu 2017 og aðeins tapað einum deildarleik á því tímabili. Liðið virðist auk þess hafa tryggt sér sæti í Evrópudeildinni á næsta ári, sem var markmiðið fyrir tímabilið — allavega þarf eitthvað óvænt að gerast til að svo verði ekki, eins og að Leicester vinni Meistaradeildina. Allt héðan í frá er því bara bónus en með hagstæðum úrslitum gegn Liverpool væru aðeins þrjú stig í fjórða sætið, eins og staðan er í dag og það myndi setja ansi mikla spennu í baráttuna um fjórða sætið. Það getur allt gerst ennþá.

Ástæða góðs gengis Everton síðan um áramót liggur í breyttu leikskipulagi en Koeman vék frá 4-2-3-1 kerfinu sem hann notar gjarnan — hjá Everton með þá Mirallas, Deulofeu, Lennon, Bolasie og Valencia á köntunum. Breytingin fólst í því að fórna einum frammiliggjandi kantmanni fyrir miðjumann og síðan þá hefur Everton aðeins tapað einum deildarleik (frá því um miðjan desember, um það bil). Við það gaf Koeman ungliðanum Tom Davies tækifæri, en hann er aðeins 18 ára og fyrirliði U19 ára landsliðsins enska. Tækifærið nýtti hann afskaplega vel og hefur verið fastamaður á miðjunni hjá Everton, eins og við þekkjum. Það verður gaman að sjá hvernig hann reynist í derby leiknum, en hann hefur komið með flotta innspýtingu á miðjuna á tímabilinu og er uppalinn í Liverpool borg þannig að hann lifir fyrir svona leiki (líkt og Baines og Barkley). Með þessu náði Koeman að finna gott jafnvægi milli sóknar og varnar — 26 mörk skoruð í síðustu 10 Úrvalsdeildarleikjum og aðeins 7 mörk á sig — þar af sjö sinnum haldið markinu hreinu. Einnig hefur Barkley blómstrað í þessu leikskipulagi en aðeins De Bruyne og Eriksen hafa skapað fleiri færi í ensku Úrvalsdeildinni á tímabilinu og aðeins Gylfi Sigurðsson er með fleiri stoðsendingar á árinu.

Meiðsladeildin er stærsta áhyggjuefnið í augnablikinu en auk Coleman og Funes Mori eru þeir Bolasie og McCarthy frá og Schneiderlin tæpur, eins og áður sagði. Við spáum því að Schneiderlin verði orðinn nægilega góður (uppfært: 31. mars: Schneiderlin missir af leiknum) og líkleg uppstilling því: Robles, Baines, Williams, Jagielka, Holgate, Gana Gueye, Schneiderlin Barry, Davies, Barkley, Calvert-Lewin, Lukaku. Hjá Liverpool er Lallana meiddur og Jordan Henderson tæpur. Uppfært 31. mars: Klopp sagði á blaðamannfundi að þeir Lallana, Henderson og Sturridge myndu allir missa af leiknum vegna meiðsla.

Öll augu verða á Lukaku sem er í fantaformi þessa dagana, hefur skorað níu mörk í sínum 6 síðustu deildarleikjum (og hefur reyndar verið að skora í landsleikjum í millitíðinni líka). Hann varð á dögunum fyrsti erlendi leikmaðurinn í ensku Úrvalsdeildinni til að ná að skora 80 mörk fyrir 24ra ára aldur og er einn af þeim sem tilnefndir voru sem leikmaður mars mánaðar í ensku Úrvalsdeildinni (úrslitin verða kynnt á næstunni). Einnig gaman að segja frá því að ekkert lið hefur dreift markaskoruninni á jafn marga leikmenn og Everton, eða 15 talsins.

Áður en við látum þessu lokið er rétt að óska Evertonmanninum og landsliðsmanninum, Herði Björgvini Magnússyni, til hamingju með sitt fyrsta A-landsliðsmark fyrir Ísland. Vonandi mörg slík á leiðinni.

En, Liverpool næstir kl. 11:30 á laugardaginn. Leikurinn er í beinni á Ölveri — ekki missa af honum!

16 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Þetta verđur eitthvađ. Þađ er alltaf hnùtur ì maganum à manni ì nokkra daga fyrir leiki viđ Liverpool en èg er samt alltaf bjartsýnn of fer alltaf til ađ horfa à sigurleik. Mìn spà er 0-2 og þeir sem skora verđa Baines ùr vìti og Mirallas

  2. Gestur skrifar:

    Ég er á leiðinni á leikinn

  3. Finnur skrifar:

    Það sem mætti bæta við þetta hér að ofan er að Everton er efst í formtöflunni þegar leikir á árinu 2017 er skoðaðir:
    http://www.twtd.co.uk/league-tables/competition:premier-league/daterange/fromdate:2017-Jan-01/todate:2017-Jun-01/type:home-and-away/

    • Orri skrifar:

      Sæll Finnur.Við værum í góðum málum ef þessi tafla gilti.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Sjáumst á Ölveri strákar. Verður vonandi einhver mæting strákar.

    • Gunnþór skrifar:

      Elvar ætlar þú á őlver þannig að liverpool sigrar í dag ?

  5. Orri skrifar:

    Gott kvöld Ingvar.Hvar er spáin ????

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Ég er skíthræddur um að menn mæti ekki nógu vel stemmdir til leiks og við töpum þessu 2-1.
      En vonum það besta ☺

      • Orri skrifar:

        Góðan dag Ingvar.Þá ætla ég að snúa þessu við og segja 1-2 fyrir okkur.

  6. Holmar skrifar:

    Maður er óvenju bjartsýnn fyrir þennan leik og það er eiginlega svolítið óþægilegt, þá verða vonbrigðin meiri.

    Slæmt að missa Coleman og Schneiderlein þar sem liðið var að smella svo vel saman. Virtist sem Morgan væri púslið sem vantaði og Koeman búinn að finna bestu uppstillinguna. En við verðum að treysta á hinn taplausa Holgate og hinn síunga Barry.

    Ef Lukaku vill meina að hann sé of stór fyrir Everton þarf hann að sýna það gegn toppliðunum og vonandi að hann geri það á morgunn. Hann ætti að geta reynst varnarmönnum Liverpool erfiður ljár í þúfu, miðverðir þeirra hafa ekki verið mjög sannfærandi í þeim leikjum sem ég hef séð hjá þeim í vetur.

    Við erum með fleiri scousera í liðinu og vonandi að það skili sér í meiri baráttu hjá okkar mönnum, hitaleik, rauðum spjöldum og bláum mörkum!

    NSNO!

  7. Diddi skrifar:

    er sammála Carragher um að Koeman þarf að lesa yfir hausamótum leikmanna fyrir þennan leik og ná inní skelina og koma fyrir winners mentaliteti…….. liðið hefur nefnilega farið í þessa leiki með því hugarfari að tapa helst ekki en ekki með því hugarfari að vinna. Moeys setti reyndar þetta inní hausinn á leikmönnum fyrir alla stóra leiki og árangurinn dæmir það. Everton getur vel unnið liverp á morgun en það þarf þá að stilla upp almennilegu liði og sækja á þá. Okkur til tekna er að lawrenson sá mikli fótboltaspekingur spáir liverp sigri og það er ávísun á sigur okkar 🙂

  8. Finnur skrifar:

    Skemmtilegt viðtal við Jamie Carragher:
    http://www.evertonfc.com/news/2017/03/31/carragher

    „As a defender, I think there’s a moment you know it’s not far away, retirement, and it happened twice for me against Romelu.“