Mynd: Everton FC.
Everton á leik við Carlisle á sunnudaginn kl. 13:30 í 4. umferð FA bikarsins en Carlisle eru þessa stundina í 11. sæti D-deildarinnar ensku. Everton bar sigurorð af Dagenham & Redbridge á útivelli í 3. umferð á meðan Carlisle sigruðu Yeovil en mótherjar beggja liða í 3. umferð voru í botnbaráttu D-deildarinnar.
Eftir ósanngjarnt tap gegn City í deildarbikarnum í síðasta leik er ljóst að FA bikarinn er það eina sem liðið hefur að keppa að á tímabilinu því rétt er að benda á að fjórða sætið er endanlega gengið okkar mönnum úr greipum. Hér er ekki verið að mála skrattann á vegginn heldur einfaldalega litið raunsætt á stöðuna: Það eru 15 leikir eftir og ef liðið vinnur alla þá leiki (sem er ekki að fara að gerast) gefur það 45 stig sem myndi þýða að liðið endi með 74 stig — sem, ef marka má undanfarin tímabil, rétt slefar upp í 4. sæti. Stundum.
FA bikarinn hlýtur því að vera forgangsatriði hjá liðinu sem þýðir jafnframt að deildarleikirnir verði notaðir til að koma mönnum í leikform, eins frústrerandi og það mun reynast í framhaldinu fyrir okkur sem fylgja liðinu að málum. Á móti kemur að hvert sæti ofar á töflunni gefur auka pening og mögulega sæti í Europa League en það hefur reynst okkar mönnum tvíeggja sverð (eins og við þekkjum). Dagskipunin hlýtur því að vera FA bikarinn.
Mikil flóð geysuðu nýlega í Carlisle, sem eru staðsettir mjög norðarlega í Englandi, en um 2000 heimili og fyrirtæki lentu illa í því og Carlisle þurfa leika sína heimaleiki annars staðar á meðan gert er við völlinn. En eins og við er að búast af stuðningsmönnum okkar ágæta félags stóðu þeir fyrir söfnun innan sinna raða til að hjálpa Carlisle við að koma sínum málum í gott stand aftur. Síðast þegar fréttir bárust var söfnunin komin upp í tæpa eina og hálfa milljón íslenskra króna. Vel gert.
Nick Mernock, formaður Evertons Fans Forum, sagði við þetta tækifæri: “Like Everton, Carlisle United are a beacon of their community and we believe our upcoming game presents an opportunity for us, the fans, to play our part.“
Af leikmannamálum er það að frétta að Mirallas verður metinn á leikdegi og Robles er líklegur til að vera í markinu. McCarthy er jafnframt ekki langt undan. Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, Cleverley, Mirallas/Osman/Kone (engin leið til að spá fyrir um það), Barkley, Deulofeu, Lukaku.
Hvað Carlisle liðið varðar er Jabo Ibehre þeirra helsti markaskorari en hann byrjaði tímabilið af miklum krafti, skoraði einhver sjö eða átta mörk fyrsta mánuðinn. Hann hefur þó eitthvað dalað undanfarið.
Af ungliðum okkar er svo það að frétta að Jonjoe Kenny fór að láni til Oxford í einn mánuð.
Carlisle eru annars næstir á sunnudaginn klukkan 13:30. Hver er ykkar spá?
Ekki gleyma heldur skráningu á árshátíð Everton á Íslandi þann 13. febrúar en við þurfum að fá svör frá ykkur sem allra fyrst. Þetta hefur verið hin besta skemmtun undanfarin ár og við viljum náttúrulega sjá ykkur sem allra flest. Ef þið getið _ekki_ mætt setjið þá einfaldlega 0 í fjölda þeirra sem mæta. Ekki hika við að mæta með gesti heldur.
verður þessi leikur á ölveri á morgun
Eitthvað segir mér að það verði mikið rætt og ritað eftir þennan leik og minnst af því jákvætt.
Algjörlega, við munum væla mikið yfir meiðslum eftir tuddaskap heimamanna.
Úrslitin verða samt eftir bókinni. 🙂