Mynd: Everton FC.
Everton mætti Middlesbrough í kvöld í fjórðungsúrslitum deildarbikarsins og kláruðu leikinn nokkuð auðveldlega í fyrri hálfleik með mörkum frá Deulofeu og Lukaku.
Uppstillingin fyrir bikarleikinn: Robles, Galloway, Mori, Stones, Coleman, Barry, Osman (fyrirliði), Cleverley, Barkley, Deulofeu, Lukaku. Bekkurinn: Howard, Baines, Gibson, Kone, Mirallas, Lennon, Naismith.
Sem sagt, nokkrar breytingar frá síðasta leik: Robles í markið, Osman í stað McCarthy, Cleverley í stað Kone en að öðru leyti óbreytt. Bekkurinn sterkur og Baines þar mættur sem er mjög kærkomin sjón.
Fín byrjun á leiknum, engin sjáanleg taugaveiklun hjá liðsmönnum Everton sem héldu boltanum ágætlega, virkuðu beittir með boltann og náðu að opna vörn Middlesbrough nokkrum sinnum fyrstu 10 mínúturnar. Það skapaði þó ekki alvöru færi því Middlesbrough náðu alltaf að komast í sendinguna áður en boltinn rataði á mann í ákjósanlegu færi.
Middlesbrough áttu fyrsta skotið á mark í leiknum á 16. mínútu, beint úr aukaspyrnu en Robles varði í horn. Middlesbrough skoruðu reyndar upp úr hornspyrnunni en náðu því með því að brjóta augljóslega á Robles og réttilega var markið dæmt af.
En á 20. mínútu tók Deulofeu ráðin í sínar hendur, fékk boltann á miðju eftir að sókn Middlesbrough endaði snögglega, hljóp með hann upp völlinn, lék á tvo leikmenn Middlesbrough fyrir utan teig og í nánast engu færi tók skotið í hornið niðri vinstra megin og skoraði — óverjandi fyrir markvörð Middlesbrough. Staðan 0-1 og þetta var í fyrsta skipti sem Everton skorar fyrsta mark leiksins á undan andstæðingunum í deildarbikarnum á tímabilinu, ef mér skjátlast ekki. Einnig var þetta fyrsta markið sem Middlesbrough fær á sig á heimavelli í 10 klukkustundir af fótbolta.
Og aðeins átta mínútum síðar var Lukaku búinn að bæta við öðru marki fyrir Everton. Deulofeu tók um það bil þrjátíu skæri á vinstri bakvörð þeirra og virtist ná að dáleiða hann og komast upp að endamörkum. Þar sendi hann háan bolta fyrir sem Lukaku skallaði í netið. 2-0 fyrir Everton sem varð þar með fyrsta liðið sem skorar fleiri en eitt mark gegn Middlesbrough á þeirra heimavelli síðan ágúst 2014.
Middlesbrough náðu skoti á mark innan teigs á 34. mínútu en Robles vel á verði. Downing átti svo skot rétt framhjá úr aukaspyrnu en nokkrum mínútum síðar flautaði dómarinn fyrri hálfleik af og Everton með verðskuldaða tveggja marka forystu.
Ein breyting hjá Middlesbrough í hálfleik, Forshaw (fyrrum Everton leikmaður), inn á.
Seinni hálfleikur var annars tíðindalítill sem er nákvæmlega eins og lið, sem er tveimur mörkum yfir í bikarleik, vill hafa það.
Middlesbrough fengu einhver hálffæri: Downing tók til dæmis skot utan teigs 58. mínútu sem Robles sló yfir slána í horn. Stuani fékk óvaldaður ágætis tækifæri til að minnka muninn með skalla fyrir framan mark á 69. mínútu en hann skallaði yfir. Og nær komust Middlesbrough ekki að jafna.
Everton gerði þrjár skiptingar þegar leið á leikinn, Baines kom inn á fyrir Galloway á 72. mínútu og átta mínútum síðar Mirallas fyrir Deulofeu. Og að lokum Naismith inn á fyrir Lukaku á 85. mínútu.
Mirallas lagði til smá innspýtingu í leikinn og var ekki langt frá því að skora með skoti innan teigs, en markvörður Middlesbrough varði. Besta færi Everton í seinni hálfleik, líklega.
En Everton kláraði leikinn með sóma og liðið því komið í fjögurra liða úrslit deildarbikarsins ásamt Man City, Stoke og annaðhvort Southampton/Liverpool (sem eigast við á morgun).
Pínu vonsvikinn að Mirallas fái ekki að byrja. Annars fínasta byrjunarlið sem á klárlega að vinna leikinn. Spá þessu 0-2 Lukaku og Barkley skora.
Vá hvað þetta er búið að vera fallegur fyrri hálfleikur:) Nú er bara að halda áfram í þeim síðari af sama krafti!
Baines að koma inná!!! Góðar fréttir. Samt er Brendan Galloway búinn að standa sig frábærlega vel. Hann hefur gott af smá hvíld…
Algjörlega frábært, spennandi tímar hjá okkur amk!
Frábær sigur en vá hvað mér fannst seinni hálfleikur leiðinlegur, það var eins og það væri brennandi eldur uppi við mark Boro, allavegana forðuðust Everton menn það eins og heitan eldinn að fara fram. Áhyggjuefni ef við hefðum verið að spila á móti sterkara liði. En frábær sigur samt sem áður 🙂
fyrri hálfleikur flottur, en seinn var bara til að klár 90 mín. Hefði geta orðið hættulegt ef Boro hefði verið hungarað eins og Bournemouth um síðustu helgi!
Drátturinn:
Everton v Manchester City
Stoke v Liverpool
Tveir leikir, heima og heiman.
Var einmitt að vona þetta, verður þetta ekki bara Everton v Liverpool í úrslitum 🙂 Það væri geggjað 🙂
Fyrir okkur sem hugsum stórt! Hvenær er úrslitaleikurinn?
@Finnur
https://en.wikipedia.org/wiki/2015%E2%80%9316_Football_League_Cup
(But lets not get ahead of ourselves here…. eigum ennþá eftir Man City áður en kemur að úrslitaleiknum gegn Stoke!) 🙂
Þeas. úrslitaleikurinn er 28. febrúar 2016
frábær dagur fyrir okkur í dag.