Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Áramótaávarp formanns - Everton.is

Áramótaávarp formanns

Mynd: Everton FC.

Komið þið öll sæl og gleðilega hátíð.

Nú er komið að áramótum og er ætlun mín að skrifa ykkur smá pistil um árið sem er að líða.

Nokkuð hefur verið rætt um hversu lélegur árangur liðsins hefur verið undanfarinn mánuð og má það til sanns vegar færa að nokkru leiti. Það hefur þó verið jákvætt að þetta Everton lið er að skora mikið af mörkum eða 29 stk. í deild en á móti kemur að liðið hefur fengið alltof mikið af mörkum á sig, 31 stykki. Samtals eru það því 60 mörk í þessum 19 leikjum, sem þýðir að leikirnir eru nánast ávísun á mörk og þar af leiðandi skemmtun, enda færist það í aukana að ensku sjónvarpsstöðvarnar velji leiki Everton til að sýna beint, sem ætti að færa félaginu auknar tekjur.

12. sæti í deildinni um áramót er þó örugglega ekki staða sem Martinez lagði upp með í haust en meiðsli lykilmanna hafa verið mikið áhyggjuefni og því varla hægt að stilla upp sama liði á milli leikja sem leiðir að sjálfsögðu til skorts á stöðugleika. Menn verða jú ekki allt í einu lélegir fótboltamenn og því hlýtur einnig skortur á sjálfstrausti og meiðsli að hafa spilað stórt hlutverk. Í síðustu leikjum hefur svolítið virkað eins og menn hafi ekki trú á verkefninu og að komast yfir í leikjum, eins og á móti bæði Hull og Newcastle, og ætla að verja eitt-núll stöðu er svolítið hæpið — eins og kom í ljós í báðum þessum leikjum.

Ég lít þó björtum augum á framhaldið og glasið mitt er ennþá hálf fullt. Þá má nú ekki gleyma árangrinum í Evrópukeppninni, sem er búinn að vera algjörlega frábær og það að vinna lið eins og Wolfsburg bæði heima og úti er magnað, sérstaklega þegar litið er til þess að þeir eru í öðru sæti í þýsku Bundesligunni og höfðu ekki tapað heimaleik á tímabilinu þangað til okkar menn mættu í heimsókn.

Það er einnig gaman að rifja upp síðasta vor, þar sem lið okkar spilaði frábæran fótbolta og náðu árangri sem Everton hefur ekki náð áður í Úrvalsdeildinni: 72 stig í hús en því miður dugði það ekki til að ná í Champions League sæti og urðum við því að gera okkur 5. sætið að góðu og þar með Evrópudeildina.

Leikmaður ársins 2014 er, að mínu mati, Kevin Mirallas.

Í lokin er ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg og skoða árið í heild sinni með því að fara yfir árangurinn í hverjum mánuði fyrir sig:

Janúar 2014: Þar spilum við 6 leiki, fjóra í deild og tvo í FA cup. Í deildinni landaði Everton einum sigri, tveimur jafntefli en þurftu að þola eitt tap (samtals markatala 4-6) en tveir sigrar í FA cup (með markatöluna 8-0) bættu það aðeins upp.

Febrúar: Sigur á Aston Villa og Swansea í FA bikar og tvö naum 1-0 töp á útivelli gegn Chelsea og Tottenham.

Mars: Mars var okkur mjög drjúgur — fimm leikja sigurröð (markatala 12-4) og eini dökki bletturinn tap gegn Arsenal á útivelli í FA bikar.

Apríl: Mánuðurinn byrjaði með besta móti — með sannfærandi 3-0 sigri á Arsenal á heimavelli, sem fylgt var eftir með 0-1 sigri á Sunderland á útivelli. Vélin hikstaði aðeins gegn Crystal Palace (2-3 tap) en svo tóku okkar menn tvennuna á móti United í deild, unnu sannfærandi: 2-0 á heimavelli sem lyfti brún hjá mörgum og okkar menn því ennþá í bullandi samkeppni við Arsenal um fjórða sætið. Svo kom smá slys þegar okkar menn settu tvö sjálfsmörk í leik gegn Southampton á St. Mary’s sem hleypti Arsenal fram úr í keppninni um fjórða sætið.

Maí: Everton tapaði gegn City 2-3 í síðasta heimaleik tímabilsins en kláraði tímabilið með 0-2 sigri gegn Hull. Fimmta sætið því staðreynd.

Við vorum full eftirvæntingar fyrir nýtt tímabil, enda liðið að gera sig líklegt til að loksins ná að brjóta það tangarhald sem City, Chelsea, United og Arsenal hafa haft á Champions League sætunum undanfarin ár. Mikillar bjartsýnni gætti í herbúðum Everton, enda útlitið bjart og langtímasamningar gerðir við lykilmenn. Eitthvað var þó um að lykilmenn væru að mæta seint til baka eftir HM 2014 og til dæmis var Lukaku varla leikfær fyrr en nokkuð var liðið á tímabilið.

Ágúst: Everton virtist ætla að byrja deildarkeppnina með látum. Fyrsti leikur við nýliða Leicester og komst Everton tvisvar yfir í leiknum en Leicester jöfnuðu jafn harðan. Næsti leikur var svo heimaleikur við Arsenal, þar sem liðið virtist ætla að endurtaka leikinn frá því tímabilinu áður og rúlla yfir þá. En, með ólöglegu marki Giroud náðu þeir að jafna í blálokin og stela af okkar mönnum tveimur stigum. Þriðji leikurinn var svo við meistaraefni Chelsea, sem reyndist algjör tilfinningarússíbani. 3-6 tap staðreynd og menn farnir að setja spurningamerki við vörnina, sem hafði fengið á sig 10 mörk í þremur leikjum (markatalan 7-10).

September: Fyrsti sigurleikurinn kom gegn West Brom í byrjun september og sýndi þar liðið fyrri takta en bætti svo um betur með því að yfirspila algjörlega Wolfsburg á heimavelli í Europa League. 4-1 sigur þar. Fyrsti deildarleikur eftir Evrópuleik reyndist ekki gæfulegur og setti tóninn fyrir aðra deildarleiki eftir Evrópuleiki: 2-3 tap gegn Crystal Palace. Varaliðið mætti svo í deildarbikarinn og tapaði þar fyrir Swansea, 3-0. Lokaleikur septembermánaðar var gegn Liverpool á útivelli, þar sem Jagielka skoraði eitt það sætasta mark sem maður hefur séð þegar hann jafnaði í blálokin með þvílíkum þrumufleyg af löngu færi. Samtals 3 deildarleikir, þar af 1 sigur, 1 jafntefli og 1 tap með markatöluna 5-4.

Október: Tvö mikilvæg jafntefli í Europa League á erfiðum útivöllum (Lille og Krasnodar) og 3 deildarleikir: 2 sigrar (3-0 gegn Aston Villa og 1-3 gegn Burnley). Einnig mjög svo óverðskuldað 2-1 tap gegn United á Old Trafford þar sem markvörðurinn David de Gea átti leik lífs síns og bjargaði United með undraverðum hætti.

Nóvember: Europa League deildin hélt áfram að gleðja okkur, tveir sigrar þar. Lille yfirspilaðir í 3-0 sigri á Goodison og leikmenn mættu til Þýskalands og sigruðu Wolfsburg 0-2, eins og áður sagði. Samanlögð markatala: 5-0. Árangur í deild heldur lakari: einn sigur (2-1 gegn West Ham), tvö jafntefli (Swansea heima og Sunderland úti) og eitt tap (Tottenham úti). Samanlögð markatala: 4-4.

Desember: Maður er hálf feginn að þessi mánuður er nú á enda enda afraksturinn aðeins 1 sigur í 6 leikjum (1 jafntefli og fjögur töp — markatalan 6-10). Ekki var einu sinni hægt að fagna úrslitum í Evrópudeildinni, þar sem Everton hafði þegar unnið riðilinn og spilaði því með varalið gegn Krasnodar í lokaleik riðilsins og tapaði 0-1. Hvað deildina varðar má vissulega má benda á að röð dómaramistaka í desember reyndust liðinu dýrkeypt en á móti kemur að spilamennskan sem sýnd var var ekki nægilega góð.

En nú er nýtt ár að renna í garð og vonandi að lukkudísirnar fari nú að brosa við okkur aftur í deild (og liðið haldi áfram á sömu braut í Europa League).

Fyrir hönd stjórnar Everton klúbbsins á Íslandi þá óska ég ykkur velfarnaðar á nýju ári og þakka fyrir árið sem er að líða.

Það er von okkar að þið hafið notið bæði skrifa hér á síðunni sem og annarra hluta sem við höfum reynt eftir bestu getu að gera fyrir klúbbmeðlimi.

Haraldur Hannesson,
Formaður.

12 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Óska öllum hér gleðilegs árs um von um bjartari tíma Everton næstu ár. Núverandi áföll eiga bara eftir að styrkja liðið er viss um það. Tel árið 2014 viðunandi fyrir Everton meiðsli, óheppni, dómarar ekkert hefur fallið með Everton þetta tímabil. ÁFRAM EVERTON.

  2. Orri skrifar:

    Ég óska öllu Everton fólki gleðilegs árs með ósk um bjarta tíma hjá okkar frábæra liði,mótlætið sem hefur mætt okur að undanförnu herðir okkur bara.

    Áfram Everton

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vonandi að okkar menn fari að hrista af sér slenið.

  4. Diddi skrifar:

    Gleðilegt ár allir félagar 🙂

  5. baddi skrifar:

    Gleðilegt ár félagar kv Baddi

  6. Ari S skrifar:

    Gleðilegt ár kæru vinir og félagar
    Takk fyrir árið sem er að líða

  7. Gunnþór skrifar:

    GLEÐILEGT ÁR OG TAKK FYRIR ÞAÐ GAMLA.
    KV GUNNÞÓR.

  8. þorri skrifar:

    gleðilegt ár kæru félagar þetta veður skemtilegt ár sem er í vændum ekki nokkur vafi ÁFRAM EVERTON

  9. Teddi skrifar:

    Þakka stjórnarmönnum störfin í fyrra.

    Gleðilegt ár.

  10. Gestur skrifar:

    Gleðilegt ár

  11. Halldór Sig skrifar:

    Gleðilegt ár Everton menn og konur. Ég efast ekki um að leiðin er bara uppá við núna 🙂

  12. Eyþór Hjartarson skrifar:

    Gleðilegt ár öll sömul og takk fyrir pistilin Halli, sjáumst í Ölveri á Þriðjudagskvöld.
    KV. Eyþór.