Mynd: FBÞ.
Ég rakst á mjög svo athyglisverða samantekt hjá Sky Sports um frammistöðu Everton í deildinni rétt fyrir derby leikinn við litla bróður en hafði þá, því miður, ekki nægan tíma til að gera henni nægilega góð skil. En nú er jólafríið skollið á og rétt að líta á þetta aðeins betur. Samantektin fjallaði meðal annars um þær framfarir sem Everton liðið hefur tekið á síðustu árum og ansi margt athyglisvert þar að finna. Tölurnar miðast allar við fyrstu 11 leikina (frá því fyrir derby leikinn) en það er eiginlega synd að hafa ekki uppfærðar tölur því Everton liðið leit mjög vel út í þeim leik og leikina þar á eftir þekkjum við vel: rústuðum Stoke og Fulham, unnum Man United á útivelli og algjörlega yfirspiluðum Arsenal á löngum köflum (á þeirra eigin heimavelli!) — þó aðeins hafi náðst jafntefli í þeim leik. Það er því aldrei að vita nema þessar tölur líti ennþá betur út í dag en þær gerðu fyrir ekki nema nokkrum vikum síðan. En lítum aðeins nánar á þær…
Hlutfall heppnaðra sendinga (e. passing accuracy) hjá leikmönnum Everton hefur aukist með hverju tímabili frá 2006/07:
Tímabil | Stjóri | Árangur | Framför |
2006/07 | Moyes | 65% | |
2007/08 | Moyes | 69% | 4% |
2008/09 | Moyes | 75% | 6% |
2009/10 | Moyes | 76% | 1% |
2010/11 | Moyes | 76% | <1% |
2011/12 | Moyes | 77% | 1% |
2012/13 | Moyes | 79% | 2% |
2013/14 | Martinez | 84% | 5% |
Taflan sýnir að Moyes náði ágætum framförum milli 2006 og 2009 en svo hægði á framganginum. Martinez náði hins vegar að byggja ofan á þetta og bæta um betur — hlutfallið nú komið í 84%!
Fjöldi heppnaðra sendinga á vallarhelmingi andstæðinga lítur einnig vel út:
Tímabil | Stjóri | Árangur | Framför |
2006/07 | Moyes | 4659 | |
2007/08 | Moyes | 5194 | 11.5% |
2008/09 | Moyes | 6599 | 27.0% |
2009/10 | Moyes | 6784 | 3% |
2010/11 | Moyes | 6836 | 1% |
2011/12 | Moyes | 6892 | 1% |
2012/13 | Moyes | 7683 | 11% |
2013/14 | Martinez | 8716 | 13% |
Svipað uppi á teningnum hér: stórstígar framfarir milli 2006 og 2009 en svo jafnast þetta út, stórt stökk á síðasta tímabili og enn stærra stökk undir Martinez, ef framreiknað er heilt tímabil út frá fyrstu 11 leikjunum.
Ætla mætti að tölfræðin sýndi samsvarandi framfarir hjá Everton hvað varðar það að vera meira með boltann en andstæðingurinn en svo er þó ekki (fyrr en nýlega):
Tímabil | Stjóri | Árangur | Framför |
2006/07 | Moyes | 47% | |
2007/08 | Moyes | 47% | <1% |
2008/09 | Moyes | 52% | 5% |
2009/10 | Moyes | 51% | -1% |
2010/11 | Moyes | 50% | -1% |
2011/12 | Moyes | 48% | -2% |
2012/13 | Moyes | 52% | 4% |
2013/14 | Martinez | 58% | 6% |
Nánast engin breyting frá 2006-2012 (framför eitt tímabil sem þurrkast svo út) en töluverðar framfarir síðustu tvö tímabilin — rúm 20% aukning (frá 2011/12 tímabilinu).
Ef fjöldi skota hjá Everton liðinu, undir stjórn Martinez, er framreiknaður (miðað við fyrstu 11 leikina) er liðið með um 10 skotum per tímabil minna en meðaltal David Moyes síðan 2006/07. En framreiknað miðað við stöðuna í dag (27 mörk eftir 16 leiki) verða mörkin í lok tímabils samtals 64 samanborið við 55 mörk í fyrra. Það lítur því ekki út fyrir að liðið þurfi jafn mörg skot til að skora og oft áður.
Og ef seinni helmingur tímabilsins er betri en sá fyrri, eins og raunin hefur verið undanfarin ár, er líklegt að sú tölfræði batni bara.
Comments are closed.