Mynd: Everton FC
Everton vann Oldham 3-1 í kvöld en liðið var án Fellaini sem var meiddur og því ekki einu sinni í hópnum. Mann grunaði þetta eftir að hafa séð Norwich mann setja takkana í lærið á honum svo blæddi úr í síðasta leik. Anichebe og Hibbert voru einnig fjarri góðu gamni, sá fyrrnefndi með meiðsl úr fyrri leiknum við Oldham.
Byrjunarliðið: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar, Neville, Gibson, Osman, Jelavic og Mirallas. Bekkurinn: Mucha, Heitinga, Oviedo, Naismith, Hitzlsperger, Vellios og Duffy.
Leikurinn var nokkuð fjörugur og skemmtilegur en Everton var vel að sigrinum komið, mun meira með boltann (59% vs. 41%) og komst yfir strax á 15. mínútu. Markið kom frá Mirallas, sem fékk flotta sendingu frá Gibson inn í teig og Mirallas einn á móti markverði (sjá mynd) lagði boltann í netið í fyrstu snertingu. Leikmenn Oldham vildu rangstæðu en endursýning sýndi að hann var réttstæður, tímasetti hlaupið vel. Tíunda mark Everton í FA bikarnum og tíundi leikmaður Everton sem skorar það. Ótrúlegt en satt.
Oldham var næstum búið að svara strax þegar Jose Baxter átti flott skot utan teigs fyrir Oldham sem Howard náði ekki fingurgómunum á og boltinn því framhjá honum en sem betur fer í innanverða stöng og fyrir markið aftur (en hreinsað). Það er orðin lenska hjá Everton að leika sér aðeins að eldinum eftir að þeir komast yfir.
Bæði lið hefðu átt að fá víti en dómarinn kaus að horfa framhjá því, fyrst (að mig minnir) þegar Jagielka hreinsar frá með því að þruma í Gibson þar sem boltinn fer í hendina á honum þó hann sé með hendina meðfram líkamanum. Ég þekki kannski ekki reglurnar nógu vel en mér fannst það ekki víti þar sem það var enginn ásetningur og höndin meðfram líkamanum (og dómarinn í góðri aðstöðu til að meta það). Félagar mínir í salnum (Everton menn) voru þó mér ekki sammála og sögðu að þetta væri víti.
Það var þó enginn vafi í huga neins (nema dómarans) að dæma víti hinum megin vallarins þegar varnarmaður Oldham (Tarkowski) heldur í ofanverðan handlegginn á Jelavic og snýr hann niður þegar Jelavic reynir að ná til skallabolta. Hvernig dómarinn sá það ekki veit ég ekki en ef þetta hefði verið hinum megin vallarins hefði maður alls ekki kvartað yfir að fá á sig víti — þvert á móti, maður hefði verið hundfúll með varnarmann sinn. Greyið Jelavic. Gengur ekkert hjá honum þessa dagana, og fær ekki einu sinni vítin sem hann á skilið.
Allt er þá þrennt er, þó, því dómarinn dæmdi loks víti á 34. mínútu. Aftur var Jelavic snúinn niður í dauðafæri, en dómarinn kaus að líta framhjá því og dæma hendi á varnarmann Oldham inni í teig. Heldur súrt að þurfa alltaf tvö brot inni í teig til að fá víti en hvað um það. Baines tók vítið, niðri í hægra hornið þegar markvörðurinn hélt að boltinn myndi fara upp í hægra hornið. Markvörður nær að slengja hendi niður í boltann en ekki nóg til að stöðva öflugt skotið. Einu sinni var Arteta vítaskyttan í liðinu en það var kannski það helsta jákvæða við söluna á honum að Baines sé tekinn við því hlutverki enda mun betri. Maður hefur stundum á tilfinningunni að Baines geti skorað úr víti þó hann hitti ekki á markið. 😉 Everton komið í 2-0 og virðist á góðri leið með að nýta yfirburðina og drepa þennan leik í fæðingu — sem ku vera nýlunda á tímabilinu.
2-0 í hálfleik og Everton betra liðið í fyrri hálfleik þó Oldham hafi staðið sig ágætlega og verið nokkuð líflegir og duglegir að pressa. Everton þó með besta færið í hálfleiknum (og náði að skora úr því) og svo með verðskuldaða vítaspyrnu. Gott að fara inn í hálfleik með tveggja marka forskot, en samt þekkir maður sitt lið — aldrei að vita hvað hefði gerst ef Oldham hefði náð að minnka muninn.
Oldham með tvöfalda skiptingu á 55. mínútu ca. — Matt Smith, sem afgreiddi Liverpool í fyrri umferðinni og skoraði jöfnunarmark gegn Everton í fyrri leiknum — inn á, ásamt Simpson. Þessi skipting færði þeim byr í seglin og gaf þeim meira sjálfstraust í að fara fram á við. Samkvæmt venju á tímabilinu, hefði Oldham átt að skora á þessum tímapunkti. Það gerðist hins vegar ekki því Pienaar sendi flotta sendingu inn í teig þar sem Osman framlengir boltann með skalla og Jelavic mætti á réttan stað en hitti ekki knöttinn. Þetta var þó nóg til að fipa markvörðinn sem missir boltann inn. Markið tilheyrir því Osman og staðan orðin 3-0. Þetta hlaut því að vera búið núna — en ónei.
Oldham svarar strax upp úr horni. Matt Smith (enn á ný) með skallamark. Í þetta skipti löglegt mark (annað en í síðasta leik) og ekkert yfir því að kvarta. Þeir gerðu svo sóknarþenkjandi skiptingu á 77. mínútu en staðan breyttist þó ekki. Gibson fékk ágætis færi fyrir framan markið til að ná þriggja marka forskoti aftur en lúðraði boltanum hátt yfir. 3-1 sigur Everton þó í höfn.
Helsta áhyggjuefnið er að varamaðurinn Simpson braut á Howard (og fékk gult fyrir) svo að Howard lá eftir. Hann stóð þó upp og kláraði leikinn þó hann greinilega haltraði svolítið. Vonandi ekki alvarlegt. Tarkowski gerði það sama svo stuttu síðar en var ekki refsað.
Verð þó að hrósa Oldham sem spiluðu betur en mörg Úrvalsdeildarlið sem hafa mætt á Goodison. Everton var þó betra liðið, lét boltann ganga betur og skapaði sér hættulegri færi. Verðskuldaður sigur og Wigan á heimavelli næst. Sá leikur verður laugardaginn 9. mars og kemur í stað deildarleiksins við Arsenal sem frestast um sinn.
Engar einkunnir frá Sky Sports (enda bikarleikur) en Mirallas var valinn maður leiksins í útsendingunni og verður maður að vera sammála því. Everton áfram í 6. umferð FA bikarsins!
Líst bara vel á liðið
flott að gefa fella frí í kvöld, hvernig væri að sjá stóra grikkjann okkar koma inná.
Fínasta lið en daaaauuuuuuðlangar að fara að sjá Barkley taka einhvern þátt.
Drullumst nú til að vinna þennan leik.
Já auðvitað þarf að hvíla þessa kalla en til þess þarf að spila á fleiri mönnum (í það minnsta hluta úr leik).
Væri alveg til í væna flengingu á Oldham, hmmm.
Hefði viljað sjá Pienaar og Osman hvílda líka og sett Oviedo og Barkley inn í staðinn.
En Moyes er samur við sig og þar af leiðandi enginn Barkley. Hvað þarf grey drengurinn að gera til að fá að spila?? Hlýtur að vera hundfúlt fyrir hann að horfa upp á aðra spila og ekki standa sig leik eftir leik og hann fær ekki einu sinni að vera á bekknum.
Allt í góðu með að Barkley spili ekki er það ekki?
Hann hlýtur að fá tækifæri fljótlega. Hann hefur spilað 28 landsleiki og 25 leiki með félagsliðum þar af aðeins 8 með Everton. Það hlýtur að bætast við það á næstunni og mér er sama þó hann hafi ekki spilað í i kvöld.
Góður sigur án Fellaini staðreynd.
Mirallas flottur í kvöld… 🙂
Áfram Everton!
Coleman var ekki síðri en Mirallas og í reynd var hægri kanturinn ekki síðri en sá vinstri.
Flottur sigur og heimaleikur í 8 líða úrslitum gegn Wigan, sigur þar kemur okkur í undanúrslit á Wembley.
Já sammála þér Elvar, Coleman var fínn. Ég er samt alltaf að bíða eftir að hann geri eitthvað meira … það er eins og að hann sé miklu betri leikmaður en hann er að sýna, kannski allt að því world class….. en mér finnst þetta, kannski er þetta bara bull í mér…?