Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Oldham vs. Everton (FA bikar) - Everton.is

Oldham vs. Everton (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Á morgun kl. 18:00 mætir Everton liði Oldham, með fyrrum Everton manninum Jose Baxter og félögum innanborðs, á útivelli í 5. umferð FA bikarkeppninnar. Meiningin er að klára það sem Liverpool mistókst svo hrapallega í 4. umferð: að leggja lið í fallhættu í ensku C deildinni í bikarnum.

Það er nokkuð ljóst að það verður ekkert vanmat í gangi og líklegt að Everton taki lið Oldham alvarlega og mæti með sterkt lið enda ætlunin að ná langt í FA bikarnum, sem er Moyes mjög mikilvægur líkt og Evrópusætið í deildinni (helst Champions League sæti). Moyes sýndi það gegn neðri-deildar liðunum í 3. og 4. umferðinni að honum var alvara með það að koma liðinu aftur á Wembley en hann stillti þá upp sterkum liðum til að tryggja að ekkert færi úrskeiðis.

Oldham eru sýnd veiði en ekki gefin en Moyes hefur aðeins einu sinni stýrt liði Everton gegn Oldham. Það var einmitt í FA bikarnum á heimavelli í janúar 2008 (sjá mynd hér að ofan) þar sem Oldham gerði sér lítið fyrir og sigraði 0-1! Everton hefur annars gengið hálf brösulega á móti Oldham í FA bikarnum gegnum tíðina en þeir töpuðu einnig fyrir þeim 1990 í tvíendurteknum leik. Þessi lið hafa annars mætst samtals 8 sinnum í FA bikarnum og hefur Everton ekki unnið Oldham í raun nema tvisvar frá upphafi en það gerðist síðast vel fyrir frostaveturinn mikla 1918! Löngu kominn tími til að laga þá tölfræði.

Everton liðið er taplaust í 7 leikjum á útivelli í FA bikarnum undanfarin tímabil með 5 sigra og 2 jafntefli: jafntefli gegn Liverpool 2009 (Everton vann seinni leikinn á Goodison) og jafntefli gegn Chelsea 2011 (sem vannst í vítaspyrnukeppni).

Þess má auk þess geta að síðast þegar Everton mætti liði sem hafði slegið Liverpool út í fyrri umferð sigraði Everton það lið (4-1 sigur árið 1995 á móti Tottenham) og fór alla leið í úrslit og vann! Þess má auk þess geta að 7 mismunandi Everton leikmenn hafa skorað mörk Everton í FA bikarnum en í síðustu tvö skipti sem það hefur gerst hefur Everton farið alla leið í úrslitin (1995 og 2009).

Everton er enn í vandræðum með stöðu hægri bakvarðar en bæði Coleman og Hibbert eru meiddir. Neville verður því líklega í hægri bakverðinum gegn Oldham. Moyes sagði auk þess að verið væri að meta 1-2 leikmenn eftir leikinn við United um helgina. Líklega á hann þar við Anichebe. Ég skýt á eftirfarandi uppstillingu: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic. Svo stokkar Moyes þessu upp eftir því sem leikurinn spilast, sérstaklega köntunum, eftir því hvað virkar og hvað ekki.

Hjá Oldham hefur markaskorarinn Matt Smith verið meiddur síðan í leiknum gegn Liverpool þegar hann fór út af. Hann er rétt nýbyrjaður að æfa aftur, þannig að ekki er víst að hann nái leiknum (nema kannski af bekknum). Þeir eru komnir með nýjan stjóra en ekki þótti sigur á Liverpool nægilegt afrek til að hann fengi að halda vinnunni. Nýi þjálfarinn er sagður hafa fengið 1-2 menn að láni og ljóst að Oldham menn mæta til leiks ljónhungraðir í sigur og að sýna sig fyrir nýjum stjóra. Ég ætla samt að spá sigri okkar manna, 3-1, með mörkum frá Jelavic, Baines og Fellaini.

Aðrar fréttirnar eru nokkum hraðsoðnar í dag, sökum fjölskylduaðstæðna hjá fréttaritara:

– Tim Howard er leikmaður janúarmánaðar hjá klúbbnum en hann spilaði alla 6 leiki Everton, hélt tvisvar hreinu og fékk aldrei á sig meira en 1 mark í leik. Sérstaklega var minnst á frammistöðu hans gegn Southampton í markalausum jafnteflisleik á útivelli. Það er gaman að sjá að Howard virðist vera að finna sitt gamla form. Nú vantar bara að Jelavic fari að sýna sitt rétta andlit aftur og þá er aldrei að vita hvað gerist.

– Johan Hammar, ungliðinn okkar og landsliðsmaður Svía U19 ára var lánaður til Stockport til að öðlast meiri reynslu.

– U21 árs lið Everton vann jafnaldra sína í Fulham, 1-0 á útivelli með fínu marki frá Conor McAleny (sjá vídeó af markinu). Þetta var fyrsti leikur John Stones, sem Everton keypti í glugganum, og hann þótti standa sig vel í leiknum. U18 ára liðinu gekk ekki jafn vel gegn Fulham (U18) en þeir töpuðu á heimavelli 1-2.

– Ross Barkley er kominn aftur úr mánaðarlöngu láni hjá Leeds þar sem hann kom við sögu í fjórum leikjum (og byrjaði í þremur þeirra). Sky Sports hafði eftir Neil Warnock, stjóra Leeds, að hann ætli að ræða það við Moyes að framlengja lánið en ég las það ekki út úr viðtali við Moyes (að það stæði til).

– Og að lokum má geta þess að leikurinn við Tottenham var færður aftur um einn dag (frá 6. til 7. apríl kl. 14:05) sem gæti sett strik í reikninginn varðandi árshátíðina. Nánar um það síðar.

Leikurinn er sýndur í beinni á Ölveri. Sjáumst!

16 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Jamm, þetta verður Howard, Neville, Jagielka, Distin, Baines, Mirallas, Gibson, Osman, Pienaar, Fellaini og Jelavic.
    Enda engin ástæða að nota varalið þegar það er vika í næsta leik. Langar samt að fara að sjá eitt og eitt nýtt andlit, Oviedo, Barkley eða Duffy t.d. en samt mjög sáttur við þetta byrjunarlið.

  2. Finnur skrifar:

    Held að Oviedo sé líklegastur af þeim.

  3. Georg skrifar:

    Moyes mun stilla fram sterku liði. Ég efast að leikmenn verði með eitthvað vanmat því við töpupum 2008 gegn þeim og svo voru þeir að slá út lfc. Spái 1-4 sigri og jelavic með 2

  4. Gunnþór skrifar:

    Elvar er þetta staðfest.

    • Elvar Örn skrifar:

      Nánast staðfest 🙂
      Við Moyse eigum aðeinst eftir að fara betur yfir stöðuna rétt fyrir leik, ég bjalla í hann og læt þig vita.

  5. Halli skrifar:

    Erum við ekki að tala um 0-3 öruggan sigur Pienaar, Osman og Jela

  6. Ari G skrifar:

    Ekkert er öruggt samt vinnur Everton spái 3:1 Anichepe, Miralles og Osman. Arsenal farnir frábært.

  7. Finnur skrifar:

    Blackburn var rétt í þessu að skella Arsenal á Emirates, skv. Mbl.

  8. Elvar Örn skrifar:

    Staðfest:
    Howard, Neville, Jagielka, Distin, Baines, Gibson, Osman, Pienaar, Fellaini, Anichebe og Jelavic.
    Koma svo Everton.

  9. Finnur skrifar:

    Lítur út fyrir að Osman sé á hægri og Fellaini djúpur.

    • Finnur skrifar:

      Eða hvað… Sky Sports segir reyndar að Anichebe sé á kantinum. Hlakka til að lesa leikskýrsluna, því ég missi því miður af þessu leik. :/

  10. Finnur skrifar:

    1-1 hjúkk! Anichebe þar með 8. leikmaður Everton til að skora í FA bikar á tímabilinu. Enginn af þeim hefur skorað fleiri en eitt! 🙂

  11. Gunnþór skrifar:

    verðum við ekki að vera bjrtsýnir taka þennan leik.

  12. Gunnþór skrifar:

    erum ekki með dómarann með okkur í dag,allir vafadómar með oldham enda ekki okkar dómari í neinum leik.

  13. Gunnþór skrifar:

    Djöfull getum við sjálfum okkur kennt um þetta fokking jafntefli erum hrikalega geldir sóknarlega,hvað kom fyrir jelavic?

  14. Halldór S Sig skrifar:

    Oldham átti fyllilega skilið að jafna, vorum í rauninni bara heppnir að tapa þessu ekki! Sóknarleikurinn hefur dalað aðeins of mikið. Ég vona að Coleman fari að láta sjá sig aftur í góðu formi, það eitt myndi hressa uppá sóknarleikinn til muna, fá ógnun hægra megin líka.