Af meiðslum, mörkum og smá tengt sögu félagsins

Mynd: Everton FC.

Darron Gibson fór í læknisskoðun í dag til að meta það hversu vel gengi að jafna sig af meiðslunum sem hann hlaut í leiknum gegn West Brom og niðurstaðan var að sögn mjög góð, svo góð að hann tísti á Twitter að hann væri „buzzing“ yfir því hversu vel þetta leit út. Vonandi fær hann leiktíma á móti QPR um næstu helgi svo hann eigi möguleika í leiknum á móti litla bróður um þar næstu helgi. Darron er jú lukkutröllið okkar því Everton hefur aldrei (!) tapað deildarleik sem hann hefur spilað. Ég tel ekki með eina tapleikinn á þessu tímabili (gegn West Brom) þar sem Darron meiddist snemma og staðan var 0-0 þegar hann fór út af. Fellaini sagði einnig að sín meiðsli væru ekki jafn alvarleg og talið var. Vonandi fær hann einnig mínútur gegn QPR. Ég er ekki viss hver staðan á Hibbert er, en gott ef hann sé ekki að verða góður af sínum meiðslum einnig. Það fer því að styttast í fullskipaðan hóp aftur og er það vel því Everton má illa við að missa marga í meiðsli, enda með lítinn hóp.

Markið sem Baines skoraði gegn Newcastle var á dögunum valið mark september mánaðar af lesendum Everton síðunnar úti en Baines skoraði markið eftir laglegt samspil hans og Pienaar sem leiddi til þess að Baines komst inn fyrir vörnina og skoraði örugglega framhjá markverði Newcastle.

Þess var einnig minnst að í dag eru 125 ár liðin (!) síðan Everton lék sinn fyrsta keppnisleik (15. október 1887) gegn Bolton á útivelli í FA bikarnum. Leikurinn endaði með sigri Bolton, 1-0 en þar sem Bolton stillti upp ólöglegum leikmanni var leikurinn endurtekinn á heimavelli Everton, Anfield, sem var eins og kunnugt er þá heimavöllur Everton — áratugum áður en litli bróðir Everton leit dagsins ljós. Eftir þrjú jafntefli í röð náði Everton loks að vinna Bolton á útivelli en Bolton átti síðar eftir að kæra þann leik (eftir að Everton hafði dottið úr keppni!) og fá annan séns (sem þeir töpuðu). Hægt er að sjá útgáfuritið fyrir þennan fyrsta leik Everton hér.

Comments are closed.