Mynd: Everton FC
Leighton Baines er leikmaður september mánaðar hjá Everton og er hann vel að því kominn. Hann hefur staðið sig frábærlega í þessum fjórum deildarleikjum sem hann lék með Everton í september, átti stoðsendingu (úr aukaspyrnu) gegn Swansea og skoraði glæsilegt mark gegn Newcastle þar sem hann þræddi sig í gegnum vörn þeirra og skoraði auðveldlega framhjá markverðinum. Hann var næstum búinn að fá skráða á sig stoðsendingu gegn Southampton en markvörður þeirra varði hetjulega skallann frá Mirallas. Flottur mánuður hjá Baines, eins og við erum reyndar orðin vön frá þessum bráðskemmtilega leikmanni! Baines notaði jafnframt tækifærið og hrósaði Coleman fyrir frammistöðuna á hinum kantinum í leiknum gegn Southampton.
Það bárust einnig fregnir af því að Steven Pienaar væri hættur að spila með landsliði sínu, Suður-Afríku, og ætlaði að einbeita sér að því að spila fyrir Everton. Hann hefur leikið yfir 50 leiki með landsliðinu og verið fyrirliði undanfarið en álagið vegna sífelldra ferðalaga landsliðsins var farið að taka sinn toll. Það er leiðinlegt að missa hann af þeim vettvangi en jafnframt sterkt fyrir klúbbinn að sjá ekki á eftir honum í Afríkubikarinn sem fram fer í janúar á næsta ári. Það ríkir bjartsýni í klúbbnum, enda ekki annað hægt þegar liðið er mjög verðskuldað í öðru sæti deildarinnar og eina liðið sem hefur skorað fleiri mörk en Everton er Man United — sem Everton er þegar búið að vinna á heimavelli!
Í lokin má geta þess að Steven Naismith var kallaður til liðs við skoska landsliðið sem mæta Wales og Belgum en þeir síðarnefndu verða væntanlega með Fellaini og Mirallas innanborðs. Skotland á leiki 12. og 16. þessa mánaðar.
Orðið er annars laust í kommentakerfinu.
lykilleikmaður ekki spurning,vel að þessu kominn þessi mikli meistari.
Ekki það að ég gæti kosið Baines leikmann mánaðarins alltaf, líka á sumrin. Þá fannst mér Mirallas okkar besti leikmaður í Sept.
Já, ég verð eiginlega að að vera sammála því, svona þegar ég hugsa um það. Stoðsending og mark í leiknum gegn Swansea og svo var hann algjörlega frábær gegn Southampton.
Baines er frábær leikmaður og frábært að hafa hann í okkar röðum. Til að sanna hans getu og þá sérstaklega sóknargetu þá er hér tölfræði yfir bestu sóknarbakverði deildarinnar og að sjálfsögðu er okkar maður þar efstur.
http://www.eplindex.com/19768/premier-league-creative-defenders-opta-stats-analysis.html/2
Baines hefur búið til 28 færi á leiktíðinni eða mest allra leikmanna deildarinnar, næstu þar á eftir er Santi Cazorla með 24 færi, aðrir eru með 18 færi eða minna. Frábær tölfræði.
Annars er flott að sjá hvað hægri kanturinn okkar er hættulegur fram á við með Coleman í bakverði og Mirallas á kantinum. Ég held að Coleman eigi bara eftir að verða betri. Hibbert er samt örugglega áfram bakvörður númer 1 hjá okkur enda búinn að vera frábær. En gott að vita að við eigum framtíðarleikmann í hægri.
Mirallas er klárlega partur af púslinu sem hefur vantað því hann kemur alveg með nýtt eliment inn í liðið. Getur tekið menn á, skotið fyrir utan teyg, skorað mörk og lagt upp. Getur þar að auki spilað margar stöður sem hentar okkur einkar vel þar sem við erum ekki með stærsta hópinn.
Skemmtileg lesning þarna neðst á síðunni. 🙂
… og takk fyrir greinina!
Gaman að sjá á töflunni að Everton er ekki bara í öðru sæti hvað varðar stig heldur er liðið með næst besta markahlutfall sem mér finnst alveg magnað.
Að öðru þá verð ég að koma þeirri stórfrétt hér inn að EasyJet er að hefja beint flug til Manchester frá Keflavík sem mun bjóða margfalt lægra verð (og það er reyndar ekki ýkjur). Nú er t.d. í boði flug báðar leiðir á 10-15 þúsund krónur (nei þetta er ekki prentvilla). Við Georg ætlum að bóka um helgina, svo einfalt er það. Flug þessi hefjast um 14 febrúar 2013 og líklegt að ódýrustu flugin fari fljótlega, en geri þó ráð fyrir að þeir verði að jafnaði með helmingi lægra verð en Icelandair.
Lifið heil(ir)
Wow. 10-15.000?!? Nánast gefins! 🙂
En hvaða daga eruð þið að horfa á? Mér skilst að þetta séu morgunflug (10:00) á fimmtudögum og sunnudögum.
Ég myndi helst vilja sjá helgarflug á föstudegi (t.d. hádegi) og heim aftur á sunnudagskvöldi. Væri til í að borga aðeins meira fyrir vikið. Blóðugt að eyða tveimur frídögum úr vinnu í hvert skipti og borga aukanótt á hóteli. Vil helst flug á fös, henda farangrinum á hótel og út að borða með hópnum og svo á lífið. Leikur um hádegi á lau, sigur, út á lífið eftir leikinn, svo skoða sig um og versla daginn eftir (tæma Everton búðina) og heim aftur um kvöldið. 🙂 Væri það ekki brilliant? 🙂
Skellti inn smá könnun á easyjet og Icelandair helgina 1-3 mars en Everton spilar við Reading þá (veit að það er kannski ekki spennandi) Þá kosta easyjet 32.000 kr. með farangri og speedy boarding (fram og til baka) út á fimmtudegi heim á sunnudegi. Icelandair er á 63.000kr út á föstudegi heim á mánudegi. Þetta er eiginlega nobrainer 🙂
Mér var sagt að EasyJet byrji yfirleitt með verðið lágt (jafnvel 1 pund miðinn í undantekningartilfellum!) og svo hækki það eftir sem nær dregur brottför. Elvar fékk sína miða (á Fulham leikinn) á 13þ (sjá http://everton.is/?p=2547#comment-869) og ég var að kaupa flugmiða á sama leik fyrir aðra fimm eldheita Everton menn en þá var verðið komið upp í 17þ tæpar á manninn. Sem er samt ekki neitt.
Mér fannst flugið til baka vera heldur snemma á sunnudagsmorgninum þannig að ég skoðaði að taka Icelandair legginn til baka í staðinn fyrir EasyJet: Rúmur 80 þúsund kall, takk fyrir!
Já sæll þá erum við orðnir 9 Everton menn í þessari ferð, allt að gerast félagar.