Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Newcastle 2-2 - Everton.is

Everton – Newcastle 2-2

Mynd: Everton FC.

Þessi leikskýrsla er að vissu leyti óhefðbundin miðað við fyrri leikskýrslur þar sem ég var (ásamt fjórum ferðafélögum) viðstaddur leikinn á Goodison Park með nokkrum félögum mínum, sem útskýrir líka hversu seint hún berst þar sem ég kom ekki heim fyrr en seint í gærkvöldi.

Við mættum á Goodison tveimur tímum fyrir leik með það fyrir augum að tæma líka Everton One búðina (þegar búin að tæma Everton Two búðina), ná í miðana okkar og mæta svo á barina til að spjalla við heimamenn fyrir leikinn. Stemmingin á barnum (sem var eiginlega beint fyrir framan innganginn) var ágæt, tónlistin fín og ekki of hávær til að hægt væri að spjalla við heimamenn. Ekki skemmdi fyrir að við deildum bás með þremur Englendingum, afa, pabba og syni, allt Everton stuðningsmenn í beinan legg niður sem voru komnir til að njóta leiksins saman. Litli strákurinn á að giska átta ára, myndi ég halda, dökkhærður og frekknóttur og hrikalega flottur í græna markmannsbúningnum og grænum stuttbuxum. Gaman að sjá fjölskyldustemminguna, létt yfir fólki og fólk bara temmilegt — ekkert vesen á liðinu. Bláar treyjur út um allt, tveir með Fellaini hárkolluna á kollinum út við vegg að spjalla saman og allir kátir. Ég náttúrulega setti upp mína og fór og lét taka mynd af okkur þremur saman. 🙂

Fór svo á barinn að ná í bjór og mér verður þá litið út um gluggann og leist alls ekki á blikuna. Það fyrsta sem ég sé eru löggur á hesti og svo risastór svört Tyneside rúta sem er mætt á svæðið í lögreglufylgdinni sem fylgdi rútunni grannt, bæði fyrir framan og aftan sem og til hliðar. Greinilega skipulögð rútuferð frá Newcastle sem ætlað var að koma þeirra áhangendum á Goodison Park með sem minnstu raski og koma þeim aftur til baka heilu á höldnu. Mér fannst þetta nú full hart miðað við stemminguna sem ég hef upplifað á Goodison Park þar sem þetta hefur hingað til virkað ósköp vinalegt andrúmsloftið þarna og ég held að Everton menn hefðu nú bara boðið gestina velkomna. En eftir að hafa upplifað það sem gerðist á eftir þá áttaði ég mig á því að kannski væri þetta meira til að halda Newcastle mönnunum niðri því að nokkru síðar stormaði hópur af þeim inn á barinn og gjörsamlega eyðilagði stemminguna. Þetta voru eins og leikskólakrakkar sem ruddust inn á barinn, með hávaða og látum, og fóru að reyna að yfirgnæfa sönginn á öllum lögunum með einhverjum lofsöng um Newcastle. Það var augljóslega meiningin að reyna að vera með leiðindi þannig að við fórum ekki mikið löngu síðar út og héldum bara á völlinn. Það var auk þess greinilegt þegar maður labbaði út að þeir voru ekki bara að reyna að skemma stemminguna heldur líka stofna til ófriðar, því þegar ég gekk út sló einn í hnakkann á mér til að reyna að slá Fellaini kolluna af hausnum á mér. Ég er seinþreyttur til vandræða, enda geðgóður með eindæmum, og lét þetta því óátalið, gekk bara út og leyfði Newcastle skunkinum bara að reyna að finna sér einhvern annan til að smella einum á lúðurinn á sér. Hugsaði með mér að United stuðningsmennirnir, sem komu í heimsókn síðast þegar ég var á vellinum, voru alveg til friðs — ekkert með nein svona leiðindi. Newcastle menn unnu sér ekki inn neina punkta hjá mér í kvöld.

Við gengum því yfir götuna, sýndum miðann við innganginn og fórum á völlinn. Þar fengum við okkur annað bjórglas og náðum okkur í veðmáls-strimla. Ekkert okkar hefur svo sem þörf fyrir að veðja en við settum niður nokkur algjörlega far-out veðmál á borð við að Hibbert skori sitt fyrsta alvöru mark eftir fjörutíu ára veru í hægri bakverðinum, bara upp á djókið og ekkert annað.

Liðið var tilkynnt nokkru fyrir leik og uppstillingin svipuð og búist var við, Gibson meiddur og Neville því á miðjunni. Mirallas fékk tækifæri á hægri kanti í stað Naismith og liðsuppstillingin því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbo. Osman og Neville á miðjunni, Pienaar vinstra megin, Mirallas hægra megin og Jelavic frammi með Fellaini fyrir aftan sig.

Við gengum upp í stúku og vorum með ágæt sæti í Main Stand, fyrir miðju vallarins ofarlega þannig að við höfðum ágæta sýn yfir völlinn, aðeins ein súla sem skyggði á hluta af öðrum vítateignum — og Newcastle stuðningsmennirnir hæfilega langt frá, þjappaðir saman og innilokaðir í einu horninu. Ágætt að geyma leikskólakrakkana þar, hugsaði ég.

32.510 manns á leiknum og maður sá vel að það var ekki uppselt eins og á sama leik í fyrra, en laus sæti voru mestmegnis uppi í rjáfri. Fyrir leikinn var smá athöfn (sjá mynd) þar sem liðin stilltu sér upp og piltur og stúlka gengu inn á völlinn, hún í bláu Everton treyjunni, merkt 9, og hann í rauðu Liverpool treyjunni, merkt 6, og stilltu þau sér upp á miðjunni og mynduðu þar með töluna 96, til merkis um samstöðu Everton og Liverpool gegnum árin eftir Hillsborough slysið þar sem 96 létust. Undir hljómaði fyrst ZCars (að sjálfsögðu) en svo „He ain’t heavy, he’s my brother“ lagið fræga og nöfn þeirra sem létust birt á stóru skjánum á vellinum. Flott og smekkleg athöfn og vel í hana tekið af pöllunum með lófataki. Newcastle leikskólakrakkarnir höfðu vit á að hafa sig ekki mikið frammi meðan á henni stóð. Þeim er kannski viðbjargandi.

Leikurinn hófst klukkan 20:00 að staðartíma og það var spenna í loftinu. Pardew, stjóri Newcastle, var kokhraustur fyrir sama leik í fyrra, eins og ég kom inn á í síðustu færslu, sagði að Newcastle væri í allt öðrum og betri klassa en Everton liði en sá fór aldeilis með skottið á milli lappanna eftir sneypulega för á Goodison með 3-1 tap í farteskinu. Það er svo stutt síðan sá leikur var að mann dauðlangaði til að senda Newcastle liðið aftur heim með sama nákvæmlega sama hætti, bara svona til að lækka í honum rostann.

Og fyrri hálfleikur lofaði _mjög_ góðu en það liðu ekki nema innan við 2 mínútur og þá var Jelavic búinn að skora fyrsta markið. Fékk endurkastið eftir skot að marki og setti boltann í netið, en var því miður dæmdur rangstæður (réttilega). Öllu verra var að hann rakst harkalega utan í stöngina við að setja boltann í netið og lá lengi á eftir meiddur, haltraði svo nokkuð í fyrri hálfleik og var svo skipt út af fyrir Anichebe þegar hálfleikurinn nálgaðist.

Baines náði skemmtilegu samspili upp við vinstri kantinn á 10. mínútu eða svo, og kom Pienaar í færi en skotið hans slakt og framhjá markinu. Baines tók þó málin í sínar hendur þegar hann tók boltann, stefndi í átt að marki og einfaldur þríhyrningur við Pienaar kom Baines í dauðafæri og hann átti ekki í erfiðleikum með að klára færið. 1-0 Everton á 14. mínútu og þar með verður 10. markið hans í röð ekki úr föstu leikatriði á borð við aukaspyrnu utan við teig. Newcastle menn verið lélegir fram að þeim tíma og lið Everton greinilega í hærri klassa en þetta Newcastle lið, eins og Pardew hefði þurft að viðurkenna, ef hann hefði ekki verið í banni í leiknum fyrir að hrinda aðstoðardómara. Hann sást reyndar uppi í stúku að hringja í aðstoðarmann sinn niðri á bekk til að hafa áhrif á uppstillinguna. Var ekki Wenger að lenda í vandræðum út af því sama?

Mirallas launaði Moyes traustið og var líflegur í leiknum. Átti meðal annars skot rétt framhjá vinstra megin við markið af löngu færi á 20. mínútu. Hann átti svo skot innan teigs hægra megin en markvörðurinn varði. Ekkert að gerast hjá Newcastle fyrsta stundarfjórðungin, fyrsta færið þeirra kom ekki fyrr en á 26. mínútu þegar Cisse skaut framhjá stönginni vinstra megin.

Everton svaraði á 31. mínútu með skoti í utanverða stöngina og út af, frá Jagielka af öllum mönnum, sem setti rétt svo aðeins of mikinn snúning á boltann. Besta færi Newcastle kom svo nokkrum mínútum síðar og þá þurfti Leighton Baines að taka á honum stóra sínum til að bjarga á línu. Mirallas átti svo annað skot á 40. mínútu en markvörðurinn varði.

Á 43. mínútu stelur Pienaar boltanum af sofandi varnarmanni Newcastle, brunar inn í teig og ákveður að skjóta (í góðu færi) frekar en að renna boltanum til hliðar á Osman (í dauðafæri) en skotið rétt framhjá stönginni og Osman skiljanlega ekki kátur með að fá ekki boltann. Þetta reyndist svo síðasta færi fyrri hálfleiks og Everton átti að vera búið að gera út um leikinn fyrir löngu, svo miklir voru yfirburðirnir. Newcastle liðið var skelfilegt og Everton réði lögum og lofum.

Jelavic, sem hafði ekki náð sér á strik eftir samstuðið, gafst loks upp og fór út af meiddur og Anichebe inn á (eins og áður sagði). Demba Ba inn á fyrir Newcastle og það tók hann ekki nema 4 mínútur að jafna. Osman missti boltann aðeins of langt frá sér á miðjunni, Cabaya stelur boltanum og sendir langa sendingu á Ba upp völlinn, frábæra sendingu, og Demba klárar færið framhjá Howard í markinu. 1-1. Mark upp úr engu.

Á 60. mínútu gerir línuvörðurinn svo fyrstu afdrifaríku mistökin sín þegar hann horfir á flotta stungusendingu frá Pienaar á Fellaini sem setur boltann í netið en er dæmdur rangstæður — kolvitlaus dómur. Staðan á hér að vera 2-1 en markið dæmt af. Ensku blöðin voru alls ekki hliðholl dómurunum í leiknum, enda voru þetta ekki einu stórkostlegu mistökin þeirra.

Cisse fékk færi hjá Newcastle á 61. mínútu, einn á móti markverði með bakið í markið, en skaut nokkuð hátt yfir.

Færin héldu líka áfram að koma hjá Everton en Pienaar setti upp skotfæri fyrir Osman á 74. mínútu en skotið rétt framhjá stönginni.

Á 77. mínútu gerir línuvörðurinn önnur skelfileg mistök þegar Anichebe á flottan skalla að marki sem markvörðurinn ver í slána og inn fyrir línu en út aftur. Meira að segja Alan Pardew viðurkenndi að þetta hefði verið mark. Allt vitlaust á pöllunum, púað og púað á dómarann. Anichebe alveg brjálaður líka, skiljanlega.

Everton liðið fann á sér að markið lá í loftinu og gerðust ágengari en Newcastle átti færi í staðinn og voru næstum búnir að stela sigrinum — Howard vel á verði.

Það leit þó út fyrir að mörkin yrðu ekki fleiri en tveimur mínútum fyrir lok leiksins gerist það svo að Pienaar fær boltann nokkuð utan teigs, lítur upp og sér Anichebe í færi og sendir á hann. Anichebe tekur við boltanum með bakið í markið, snýr af sér varnarmanninn og leggur hann snyrtilega í hornið framhjá markverðinum. 2-1 fyrir Everton og allt gjörsamlega trylltist á pöllunum. Áður en við vissum af vorum við lentir í einu stóru „group hug“ með fólki af nærliggjandi bekkjum. Algjör euphoria á pöllunum. Loksins loksins er Everton búið afgreiða þetta slaka Newcastle lið sem við áttum að vera löngu búnir með. Maður stóð sig reyndar að því að hætta að fagna og vita hvort línuvörðurinn hefði klúðrað þessu aftur en hann virtist hafa vit á því að flagga ekki í þetta skiptið. Aftur í fagnið! 🙂

En þetta reyndist of gott til að vera satt því innan við tveimur mínútum síðar var Demba Ba búinn að jafna aftur. Löng sending upp völlinn, á kassann á einhverjum Newcastle manni og beint í hlaupaleiðina hjá Ba sem setur hann framhjá Howard en Distin næstum búinn að ná að renna sér á eftir boltanum og stöðva hann frá því að fara inn.

4 mínútum bætt við en ekkert kom úr því og leikar fóru því 2-2. Newcastle stálheppnir að fara með eitt stig til baka enda skoraði Everton nóg af mörkum til að vinna þennan leik tvöfalt. SMS-unum rigndi yfir okkur frá Liverpool mönnum og Tottenham mönnum sem horfðu á leikinn í sjónvarpi og voru öll á sama veg: Rán um hábjartan dag.

Ensku dagblöðin sem maður las á leiðinni til baka voru sama sinnis og hraunuðu yfir dómarann. En, við lítum á björtu hliðarnar eins og venjulega. Everton skoraði fjögur lögleg mörk í leiknum (og eitt sem var réttilega dæmt af). Mér finnst líka sérstaklega jákvætt hversu léttleikandi samspilið er milli manna, samanber Baines, Pienaar, Fellaini og Mirallas. Það virðist ekki þurfa nema eina sendingu frá Pienaar og þá er einhver kominn í dauðafæri inni í teig. Áhorfendur fengu fjörugan leik sem var skemmtilegur áhorfs, þó að línuvörðurinn hefði verið út á þekju og tekið af okkur stigin tvö. Moyes sýnist mér annars hafa gert mjög vel í síðustu tveimur félagaskiptagluggum því ég man varla eftir jafn skemmtilegri spilamennsku frá Everton í langan tíma. Maður hefur það á tilfinningunni að það geti eitthvað „magical“ gerst á þessu tímabili. Það er ferskur andblær yfir öllu og jákvæðni bæði innan leikvallar sem utan. Ég fór af velli stoltur af mínum mönnum og bjartsýnn á framhaldið eftir fjörugan og skemmtilegan leik á Goodison Park.

Einkunnir Sky Sports: Howard 5, Baines 9, Jagielka 7, Distin 7, Hibbert 6, Pienaar 8, Osman 5, Neville 5, Mirallas 8, Fellaini 7, Jelavic 6. Varamenn:  Anichebe 8, Naismith 6. Newcastle var í fimmum, sexum og sjöum. Aðeins Demba stóð upp úr með 9.

8 Athugasemdir

  1. Ari skrifar:

    Góð lesning, takk fyrir mig:)

  2. Halldór S Sig skrifar:

    Þetta er án vafa sterkasta Everton lið sem hefur verið í áratugi og það hlýtur eitthvað stórkostlegt að gerast í vetur. Gaman að sjá okkar menn dóminera á móti svona sterku liði eins og Newcastle og það var algert stórslys að vinna þá ekki. Mirallas sýndi hvers hann er megnugur, hversu snöggur hann er, tekniskur, skapandi og er mjög ógnandi þegar hann fær boltann. En mér fannst hann kannski ekki alveg svona stórkostlegur eins og sky er að gefa honum í einkun, var soldið um feilsendingar, hélt boltanum stundum of lengi og missti hann síðan. Það á eftir að taka hann tíma að kynnast liðinu eins og með flesta sem byrja hjá nýjum liðum. þá er ég að tala um sérstaklega leikstíl (sem er öruglega mjög ólíkur þar sem hann var áður), samspil við liðsfélagana eins og t.d. hvernig Pienaar og Baines hafa slípast saman. Er hann og Hibbert t.d. að fara að gera eitthvað saman. Ég man t.d. eftir því þegar Arteta var að byrja, það tók hann alveg heilt tímabil að aðlagast og sína hvað hann gæti. Svo er ég mikið velta fyrir mér hver vegna Heitinga er svona mikið í kuldanum. Hann var valinn bestur á síðasta tímabili af liðsfélögunum en svo er Distin alltaf í byrjunarliðinu en hann verður 35 ára í desember. Er hann í svona lélegu formi eftir sumarið eða er eru einhverjar deilur á milli hans og Moyes? Er smá Heitinga fan þannig að ég hef smá áhyggjur. 🙁

  3. Finnur skrifar:

    Það er talað um Baines og Pienaar sem Bainaar öxulinn. Nú þurfa Hibbert og Mirallas að stíga upp og mynda Hibballas öxulinn. 😀

    Veit ekki með Heitinga; mig minnir að Moyes hafi sagt að hann hefði verið pínulítið eftir á á undirbúningstímabilinu með Everton þar sem hann var að spila með Hollandi. Þannig að Distin og Jagielka fengu að byrja fyrsta leikinn og þar sem gengið hefur ágætlega þá er erfiðara fyrir Heitinga að vinna sig aftur inn í liðið.

  4. Ari skrifar:

    Spurning um Heitielka öxulinn…….?

    En samt í sambandi við þessa tilfinningu sem menn eru að tala um þá fékk ég hana strax eftir fyrsta leik og var reyndar strax farinn að spá því eftir að hafa séð á hvaða leik við byrjuðum….. að EF við myndum vinna í fyrsta leik sem við gerðum þá myndi eitthvað stórkostlegt gerast á þessu tímabili.

    Hins vegar hafa byrjað að renna á mig tvær grímur með það. Gibson og Jelavić grímurnar. Það má svo lítið útaf bera ennþá þó að við höfum fengið sterka kalla inn í sumar. Við skulum ekki eyðileggja þessa frábæru byrjun í huga okkar með því að búast við of miklu strax.

    Engin titill kemur á haustin en frábær byrjun sem er of seint að taka af okkur þó það sér reynt (tvö mörk í síðasta leik.) þó ég sé ekki alveg að tala um eitthvað samsæri… segi þetta bara svona til gamans….

    Mér finnst Gibson vera gífurlega mikilvægur fyrir liðið okkar og það er mjög slæmt að hann skuli vera meiddur en vonandi er það ekki nema fáeinar vikur sem hann er frá, eins og maður er að heyra þessa dagana. Mirallas byrjar vel og fær góða dóma en ég hefði viljað sjá Vadis koma til okkar en vonandi kemur hann bara í jan. Því miður fyrir Niang þá valdi hann okkur ekki og því miður verður hann orðinn of gamall fyrir Everton þegar hann fattar það…… (þó það verði strax á næsta ári…. hehe)

  5. Finnur skrifar:

    Ég held Moyes hafi séð Vadis sem cover fyrir Gibson en hann náðist ekki í hús fyrir lok gluggans, eins og þekkt er. Gibson er gríðarlega mikilvægur hlekkur í liðinu, enda er eins og leikmenn batni við að hafa hann við hliðina á sér.

    Jelavic held ég að sé ekki mikið meiddur, einhver sagði tvær vikur. En ef Anichebe er í svona formi þá hef ég nú litlar áhyggjur… 🙂 Ég spáði því fyrir tímabilið að Anichebe ætti eftir að koma mest á óvart; nú er bara að hann haldi merkinu á lofti, grípi tækifærið og sýni af hverju Moyes styður hann gegnum súrt og sætt.

  6. Halli skrifar:

    hvað finnst ykkur um að það er verið að linka Owen Hargreaves við okkur!!!!! Flott grein eins og alltaf hjá þér Finnur

  7. Finnur skrifar:

    Ef Moyes hefur áhuga á leikmanninum þá hef ég áhuga. 🙂

  8. Finnur skrifar:

    Til gamans má geta að Anichebe er búinn að spila þrjá af 5 leikjum Everton og skora í þeim 3 mörk (ef við teljum með markið sem ranglega var dæmt af). Og hann hefur ekki einu sinni spilað alla leikina þegar hann hefur komið inn á:

    United: Spilaði ekki.
    Villa : Spilaði ekki.
    Orient: Spilaði 93 mínútur, 1 mark. (bikar)
    W.Brom: Spilaði 22 mínútur, 0 mörk.
    Newcas: Spilaði 53 mínútur, 2 mörk. 
    
    

    Við erum að tala um að Anichebe er með mark fyrir hverjar 56 mínútur sem hann spilar og svo skoraði hann líka á undirbúningstímabilinu. Jelavic er með samtals 1 mark (gegn Aston Villa) í öllum leikjum á tímabilinu þrátt fyrir að hafa spilað í undirbúningsleikjum og meirihlutann í öllum leikjunum á tímabilinu (fyrir utan bikarleikinn).

    Ég treysti Anichebe vel til að byrja næsta leik. „Hans tími mun koma!“ 🙂